Ályktun Fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Lög um stjórn fiskveiða eru ekki eingöngu fyrir útgerðir

-í þeim er fólgin vörn fyrir sjávarsamfélög og hana þarf að virða

7.September'12 | 13:57

Þorskur fiskur

Á seinustu árum hefur meirihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekað stigið fram í vörn fyrir Vestmannaeyjar þegar stjórnarflokkarnir hafa lagt fram illa ígrundaða og skaðlega stefnu í sjávarútvegsmálum. Allar eiga þær hugmyndir það sameiginlegt að auka skattheimtu á landsbyggðina og greiða leið eignaupptöku í sjávarútvegi. Illu heilli veikja þær landsbyggðina í stað þess að styrkja hana.
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum fagnar því þegar meirihluti Sjálfstæðismanna stígur nú fram í vörn gegn því þegar eitt af stærstu útgerðarfélögum í Evrópu – Samherji – hyggst markvisst fara í kringum þær leikreglur og skrifuð lög sem gilda í sjávarútvegi. Það gera þeir með því að virða ekki þann skýra vilja sem fram kemur í lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 og veita heimamönnum forkaupsrétt að skipum og aflaheimildum Bergs-Hugins áður en gengið er frá kaupum og brottflutningi þeirra.
 
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins tekur undir þá meginhugsun sem fram kemur í lögum um stjórn fiskveiða og kristallaðist í orðum þáverandi sjávarútvegsráðherra þegar hann mælti fyrir lögunum:
Hann mælti svo: Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinni bindingu aflaheimilda við byggðarlög eða landsvæði. Hins vegar eru sett inn ákvæði um tilkynningarskyldu (forkaupsrétt) þeirra aðila sem hyggjast selja fiskiskip eða hluta af sínum aflaheimildum varanlega. Er það gert til að skapa umþóttunartíma í skipasölu og ekki síst til að gefa heimaaðilum færi á að bjóða í þau skip sem til sölu kunna að vera.“

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum ætlast til þess að útgerðum sem fá úthlutað úr sameiginlegum stofnum, sé gert að starfa innan þeirra laga sem þeir sjálfir hafa mælt fyrir og óskað eftir stuðningi við.

Fulltrúaráðið beinir því til bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum að grípa til þeirra varna sem þarf til að verja þann rétt sem sjávarsamfélögum er tryggð í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Því miður virðist nú ástæða til að minna ákveðin útgerðarfélög á að markmið laganna var ekki að gera þeim kleift að fara sínu fram í krafti stærðar heldur að „..tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu“.

Að lokum minnir fulltrúaráðið á að þótt skaðinn af brotthvarfi Bergs-Hugins (um 5000 þorskígildistonn) frá Vestmannaeyjum yrði mikill, þá jafnast hann ekki á við skaðann af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem nú hefur komið hlutunum þannig fyrir að á yfirstandandi fiskveiðiári missa sjómenn og útgerðir í Vestmannaeyjum rúm 4000 þorskígildistonn í byggðapotta og veiðigjaldið nemur um 2,7 milljörðum króna. Það lætur nærri að fyrir þau verðmæti væri hægt að kaupa eina útgerð eins og Berg-Huginn á ári til Vestmannaeyja.

Krafa Fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum er því, eftir sem áður, að ríkisstjórnin láti af hugmyndum um skattlagningu og eignarupptöku í sjávarútvegi og að útgerðarmönnum verði gert að virða vilja löggjafans og halda sig innan þeirra laga sem þeir sjálfir vilja verja.

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum skorar á þingmenn sína, bæjarfulltrúa og alla aðra Sjálfstæðismenn að halda áfram ótrauð í baráttunni gegn skaðlegum áhrifum á grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar og gildir þá einu hvort að um er að ræða útgerðir eða ríkisstjórn.

Gjör rétt – þol ei órétt
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum
 
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.