Bæjarráð telur að ákvæði laga um stjórn fiskveiða taki sérstaklega á stöðu þeirri sem nú er komin upp í Vestmannaeyjum

31.Ágúst'12 | 15:17

Bergur Huginn ehf, Bergey VE

Bæjarráð fjallaði í dag um sölu á Berg-Huginn ehf. Vestmannaeyjum til Síldarvinnslunnar hf. á Neskaupsstað. Tilkynnt var um söluna í fjölmiðlum síðdegis í gær 30. ágúst 2012. Um er að ræða sölu á tveimur fiskiskipum og 5000 þorskígildistonnumBæjarráð fjallaði um sölu á Berg-Huginn ehf. Vestmannaeyjum til Síldarvinnslunnar hf. á Neskaupsstað. Tilkynnt var um söluna í fjölmiðlum síðdegis í gær 30. ágúst 2012. Um er að ræða sölu á tveimur fiskiskipum og 5000 þorskígildistonnum..

 
Í ljósi þess að hvorki Vestmannaeyjabæ né öðrum aðilum í Vestmannaeyjum var gefinn kostur á að bjóða í skip og aflaheimildir telur bæjarráð að álitaefni séu uppi vegna sölu Bergs-Hugins ehf. til Síldarvinnslunnar hf. að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.
 
Bæjarráð telur að ákvæði laga um stjórn fiskveiða taki sérstaklega á stöðu þeirri sem nú er komin upp í Vestmannaeyjum. Í upphafi ber að nefna að 1. gr. laganna þar sem tilgangur og markmið þeirra eru sett fram er kveðið á um að markmið laganna sé meðal annars að "tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu."
 
Bæjarráð bendir ennfremur á að í 12. gr. laga um stjórn fiskveiða er mælt fyrir um þau tilvik þegar selja eigi fiskiskip til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi og er kveðið á um að þá eigi sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Í þessu sambandi ber að taka fram að samkvæmt fréttum, sem fluttar hafa verið af sölu Bergs-Hugins ehf., þá er ljóst að samningurinn milli eigenda Bergs-Hugins ehf. og Síldarvinnslunnar hf. er um sölu hlutafjár í einkahlutafélaginu Berg-Huginn. Því er ekki verið að selja fiskiskipin Bergey VE-544 og Vestmannaey VE-444, sem eru í eigu félagsins, heldur einungis hlutafé einkahlutafélagsins, sem er eigandi nefndra fiskiskipa. Hér ítrekar bæjarráð að salan var á engum stigum rædd við sveitarfélagið. Eftir því sem best er vitað, þá eru umrædd fiskiskip langstærstu eignir Bergs-Hugins ehf. og helstu skuldir félagsins tilkomnar vegna þeirra. Bæjarráð telur því að þótt að kaupsamningurinn kveði á um sölu á hlutafé í Berg-Huginn ehf. en ekki beina sölu á fiskiskipunum og aflaheimildum sem skráð eru á þau, þá snýst samningurinn í raun um fiskiskipin og aflahlutdeildirnar og þar með virkjast forkaupsréttur Vestmannaeyjabæjar samkvæmt 12. gr. laganna. Í 3. mgr. 12. gr. segir að forkaupsréttur skuli boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Það hefur ekki verið gert og framangreind ráðstöfun því í andstöðu við lög um stjórn fiskveiða, tilgang þeirra og einstök ákvæði. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. þá getur forkaupsréttarhafi, Vestmannaeyjabær, krafist þess að salan verði ógild sé skipi ráðstafað andstætt ákvæðum 12. gr. Neyti Vestmannaeyjabær forkaupsréttar verður útgerðaraðilum sem heimilisfesti eiga í Vestmannaeyjum gefinn kostur á að kaupa skip og aflaheimildir, sbr. 4. mgr. 12. gr.
 
 
Bæjarráð bendir einnig á að samkvæmt 13. gr. laga um stjórn fiskveiða má samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, aldrei fara upp fyrir ákveðin mörk. Nú liggur fyrir að félögin Samherji, Útgerðafélag Akureyrar, Síldarvinnslan hf. og ef til vill fleiri félög eru tengd eignarböndum. Bæjarráð telur því rétt að láta á það reyna hvort að þessi tengsl geri það að verkum að eignarhaldið sé komið yfir þau mörk sem sett eru í 13. gr. laga um stjórn fiskveiða frá 2006 og geri kaupin á Berg-Huginn ehf. ómöguleg.
 
Bæjarráð felur bæjarstjóra að tilkynna Síldarvinnslunni hf. og Berg-Huginn ehf. að Vestmannaeyjabær telji sig eiga forkaupsrétt skv. 12. gr. laga nr. 116/2006 og kalla eftir forkaupsréttartilboði frá viðkomandi aðilum þar sem söluverð og aðrir skilmálar verða tilgreindir á tæmandi hátt. Verði ekki orðið við því felur bæjarráð bæjarstjóra að undirbúa málsókn til ógildingar á sölunni og tryggja það gagnvart opinberum aðilum að salan verði stöðvuð þar til niðurstaða dómstóla liggur fyrir.
Bæjarráð felur bæjarstjóra jafnframt að óska eftir svörum frá Fiskistofu um hvort að aflahlutdeildir Síldarvinnslunnar hf. og tengdra aðila séu komnar yfir lögbundið hámark aflahlutdeilda í einstökum tegundum, sem tilgreind eru í 13. gr. laga nr 116/2006 og gera kaup Síldarvinnslunnar hf. á Berg-Huginn ehf. þannig ómöguleg og andstæð lögum.
Að lokum felur bæjarráð bæjarstjóra að óska eftir svörum frá Fiskistofu um það hvort að samanlögð aflahlutdeild fiskipa í eigu aðila tengdum Sildarvinnslunni hf. fari yfir það 12% hámark af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan hámarksafla samkvæmt lögum.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.