Ákvörðun bæjarstjórnar felld úr gildi

17.Ágúst'12 | 08:45

Vestmannaeyjar Vestmannaeyjabær

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 22. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102. Nefndin finnur ýmislegt að málsmeðferð bæjaryfirvalda á umsókninni.
Samkvæmt úrskurði úrskurðanefndarinnar, sem kveðinn var upp í apríl en birtur á vef nefndarinnar nýverið, kemur fram að um sé að ræða ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 17. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og að veita Ísfélagi Vestmanneyja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við frystihús félagsins að Strandvegi 102.
 
Í kærunni til nefndarinnar segir að málsatvik beri öll með sér að mikill hraði og óvandvirkni hafi einkennt alla meðferð málsins af hálfu bæjarins og byggingaraðila. Við blasi að leyfisveiting vegna umræddrar viðbyggingar hafi í reynd verið keyrð í gegn og hafi sveitarfélagið reynt eftir fremsta megni að stytta sér leið. Þannig hafi bæjaryfirvöld kosið að grenndarkynna viðbygginguna í stað þess að gera deiliskipulag fyrir umrætt svæði.
 
Nýtt deiliskipulag var nauðsynlegt
Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir að í erindi byggingarleyfishafa hafi ekki aðeins falist umsókn um byggingaleyfi heldur einnig um stækkun lóðar, en sú stækkun var forsenda byggingarleyfisins. „Geta eigendur fasteigna í þegar byggðum hverfum ekki haft væntingar um að fá til ráðstöfunar land utan lóðarmarka nema að undangengnu deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, þar sem segir að í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, o.s.frv. Með hinni kærðu ákvörðun var þar að auki raskað götumynd og þar með byggðamynstri, en með breytingunni voru felld út bílastæði báðum megin götunnar og gangstéttir mjókkaðar.“
 
Úrskurðarnefndin telur einnig að skort hafi á að gætt væri rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við undirbúning málsins. „Þannig verður ekki séð að gætt hafi verið að því hvort fyrirhuguð framkvæmd rúmaðist innan nýtingarhlutfalls svæðisins, en samkvæmt aðalskipulagi gildir reitanýting á svæðinu og er nýtingarhlutfallið 0,5. Hins vegar liggja hvorki fyrir útreikningar nýtingarhlutfalls né nauðsynlegar forsendur þeirra, svo sem um hlutfall byggingarlóða og annars lands, gatna, bílastæða og opinna svæða innan viðkomandi reits.“
 
Að mati nefndarinnar leiði þessir ágallar til þess að ógilda beri ákvörðun bæjarstjórnar um að heimila stækkun lóðarinnar og um byggingaleyfi.
 
Þess ber að geta að sjá má í fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá því í júlí, að vinna við deiliskipulagið á svæðinu er í fullum gangi.
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.