Sorpið mögulega flutt til útlanda frá Vestmannaeyjum

16.Ágúst'12 | 07:58

Vestmannaeyjar Vestmannaeyjabær

Starfandi sorpbrennslum í Vestmannaeyjum og í Skaftárhreppi verður að öllum líkindum lokað fyrir lok árs. Ástæðan er reglugerðarbreyting frá síðasta vetri þar sem sérákvæði um brennslu úrgangs starfandi sorpbrennslustöðva voru felld úr gildi.
 
Enn er ekki búið að finna lausn í sorpeyðingarmálum í Skaftárhreppi en útboð á förgun sorps í Vestmannaeyjum mun ljúka á næstu dögum.

Kostar óheyrilegar upphæðir
Sorpbrennslan í Skaftárhreppi er með starfsleyfi til 12. desember Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri í Skaftárhreppi, segir líklegt að henni muni lokað af „tæknilegum ástæðum“ en mengun af henni er undir leyfilegum mörkum. Hún segir enga lausn í sjónmáli í sorpeyðingarmálum sveitarfélagsins. ,,Við munum sennilega loka sorpbrennslunni. Við erum að vinna á fullu í því að finna lausn á þessu máli. Enn er enginn valmöguleiki sem við erum að kanna umfram annan. Þetta kostar allt svo óheyrilegar upphæðir,“ segir Eygló.
 
Sveitarfélagið hefur nýtt orku sem kemur af sorpbrennslunni til rafmagnsframleiðslu. Að sögn Eyglóar vantar sveitarfélagið um 500 þúsund krónur á mánuði til þess að mæta tekjuskerðingu sem þessu fylgir, óháð kostnaði við förgun sorpsins. „Við erum í samstarfi með eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Lagaumhverfi sveitarfélaga sníður okkur þröngan stakk í tekjuöflun,“ segir Eygló.
 
Skaftárhreppur þjónar 450 íbúum og hefur ekki úr sömu fjármunum að spila og Vestmannaeyjabær. „Við höfum ekki skilað hagnaði undanfarin ár og erum að berjast í bökkum,“ segir Eygló.

Rusl til Svíþjóðar eða Færeyja?
Hjá Umhverfisstofnun Vestmannaeyja fengust þær upplýsingar að lífrænn úrgangur yrði endurunninn og notaður í jarðgerð. Annað endurvinnanlegt sorp verður flokkað og flutt. Úrgangur sem ekki er endurvinnanlegur verður hins vegar urðaður annars staðar á landinu eða fluttur til útlanda. Meðal annars er verið að skoða möguleika á því að flytja sorpið til Færeyja og Svíþjóðar til brennslu. Unnið er að því að kanna útboðsgögn frá þremur fyrirtækjum. Íslenska gámafélaginu, Gámaþjónustunni og Kubbi ehf., á Ísafirði.
 
Elliði Vignisson, bæjarstóri í Vestmannaeyjum, segir að vel komi til greina að flytja sorpið til útlanda. ,,Þó að við viljum öll umhverfinu hið besta er það þannig að við erum að nota sorpbrennsluna til að búa til orku. Manni finnst það ofboðslega skrítið að búa við fullkomna endurvinnslu á sorpi sem nýtt er til húshitunar. Síðan er það bannað í asa og flýti. Það verður til þess að við verðum að setja sorpið í stálgáma og flytja það út í þungum olíufrekum skipum til Færeyja eða Svíþjóðar. Búin verður til orka þar úr sorpi frá Vestmannaeyjum. Ég óttast að heildarniðurstaðan verði sú að umhverfið muni frekar skaðast af þessum aðgerðum í heild, óháð því hvaða áhrif þetta hefur á Vestmannaeyjar. Annar kostur er að grafa sorpið í íslenska jörð og maður spyr sig hvort yfirvöld telji það betra en að brenna sorpið og búa til orku,“ segir Elliði.
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.