Arðurinn fer upp í hlutabréfaskuldir

Hluthafar Vinnslustöðvarinnar skuldsettir

2.Maí'12 | 08:07

VSV vinnslustöðin

Eignarhaldsfélögin sem eiga Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum eru mjög skuldsett og hafa nýtt arðgreiðslur út úr útgerðarfélaginu til að greiða niður skuldir sínar. Veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar getur haft áhrif á möguleika útgerðanna til arðgreiðslna út úr þeim og þar með á möguleika eigenda þeirra til að standa í skilum við lánardrottna sína.
Eigendur sumra útgerðarfélaga á Íslandi þurfa sem hæstar arðgreiðslur út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum til að geta staðið í skilum með afborganir af skuldum við lánardrottna sína. Um er að ræða skuldsett eignarhaldsfélög sem halda utan um eignarhluti eigenda útgerðanna í þeim. Í þessum tilfellum myndi samþykkt frumvarps ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld draga úr möguleikum eigenda útgerðanna til að taka arð út úr fyrirtækjunum til að standa í skilum við lánardrottna sína í eignarhaldsfélögunum.
 
Í sumum öðrum tilfellum, til dæmis í tilfelli tveggja eigenda Þorbjarnar í Grindavík, skulda eigendur útgerðarfélagsins lítið sem ekkert. Arðgreiðslurnar sem eigendurnir taka við út af útgerðinni geta því runnið beint til eigendanna kjósi þeir svo.
 
Hörð viðbrögð útgerðarinnar
Kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar hafa vakið hörð viðbrögð hjá útgerðarmönnum sem hafa bent út á það að innheimta veiðigjaldanna sem kveðið er á um í frumvarpinu þýði að komi verði í veg fyrir nauðsynlegar fjárfestingar útgerðanna, meðal annars í tækjum og tólum til fiskveiða. Sömuleiðis hefur á það verið bent, meðal annars í Morgunblaðinu í vikunni, að útgerðir með 50 prósent skuldsetningu eða meira muni ekki ráða við að veiðigjaldið og að eiginfjárhlutfall útgerðarfélaganna muni lækka fyrir vikið.
 
Önnur afleiðing er svo sú, líkt og rakið er hér, að eigendur útgerðanna munu ekki hafa eins mikið ráðrúm til arðgreiðslna út úr þeim. Þetta getur niður á möguleikum þeirra til að standa í skilum með persónulegar afborganir af lánum sem stofnað var til vegna viðskipta með hlutabréf í útgerðunum og eins á möguleikum þeirra til að hagnast persónulega á rekstri þeirra.
 
Skuldsettir eigendur Vinnslustöðvarinnar
Eitt dæmi um þetta eru eigendur Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, meðal annars eignarhaldsfélögin Stilla útgerð ehf. og Seil ehf. Bæði skulda þessi félög á þriðja milljarð króna og er skuldsetningin tilkomin vegna kaupum á eignarhlutum í útgerðarfélaginu. Vinnslustöðin var á hlutabréfamarkaði þar til í lok apríl árið 2007 þegar félagið var tekið af markaði. Fyrirtækið er í níunda sæti yfir þau útgerðarfélög sem ráða yfir mestum kvóta í landinu en það fer með 3,62 prósent kvótans.
Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, hefur gagnrýnt veiðigjaldafrumvarpið harkalega á opinberum vettvangi. „Þetta samsvarar því að lagður hefði verið tæplega 200% tekjuskattur útgerðina. Ég tala um þjóðnýtingu því það er verið að hirða allt úr útgerðinni og meira en það,“ sagði Sigurgeir, sem yfirleitt er kallaður Binni í Vinnslustöðinni, í viðtali við Morgunblaðið fyrr í þessum mánuði.
 
Arðurinn til fjármálafyrirtækja
Í ársreikningi Seilar ehf., sem á 25 prósenta hlut í Vinnslustöðinni, fyrir árið 2010 kemur til að mynda fram að skuldir félagsins nemi tæplega 2,6 milljörðum króna. Eigendur Seilar ehf. eru Haraldur Gíslason og Kristín Gísladóttir og situr Binni í stjórn félagsins. Vinnslustöðin greiddi út 460 milljóna króna, tæplega 3 milljóna evra, arð til hluthafa sinn árið 2010 vegna rekstrarársins þar á undan. Móttekinn arður Seilar árið 2010 nam rúmlega 125 milljónum króna og var arðgreiðslan út af hagnaði Vinnslustöðvarinnar. Í ársreikningnum kemur fram að í fyrra hafi Seil ehf. átt að greiða rúmlega 156 milljónir króna afborganir af langtímaskuldum sínum í fyrra, nokkru hærri upphæð en félagið fékk í arð frá Vinnslustöðinni.
 
Í ársreikningi Stillu útgerðar ehf. frá árinu 2008, félagið hefur ekki skilað ársreikningi síðan þá, kemur fram að fyrirtækið hafi skuldað rúmlega tvo milljarða króna. Stilla á 26 prósenta hlut í Vinnslustöðinni. Eigendur félagsins eru feðgarnir Kristján Guðmundsson, Guðmundur Kristjánsson, kenndur við Brim, og Hjálmar Kristjánsson. Þeir keyptu bréfin af Esso og tryggingafélaginu VÍS árið 2003.
Stærsta eign félagsins þá var fjárfestingarverðbréf, bréfin í Vinnslustöðinni, upp á samtals tæplega 1900 milljónir króna. Það ár tók fyrirtækið við arði frá Vinnslustöðinni upp á tæplega 89 milljónir króna en átti að greiða ríflega 137 milljónir króna í afborganir af skuldum sínum árið 2009. Miðað við eignarhald félagsins á Vinnslustöðinni hefur félagið átt að fá álíka háan arð út fyrirtækinu og Seila, rúmlega 125 milljónir króna.
 
Af þessum tveimur dæmum sést að minnkandi arður til þessara tveggja hluthafa Vinnslustöðvarinnar út af hækkuðu veiðigjaldi gæti aukið erfiðleika þeirra til að standa í skilum við lánardrottna sína vegna lána sem notuð voru til að kaupa hlutabréfin. Svipaða sögu má segja um aðra minni hluthafa Vinnslustöðvarinnar, meðal annars eignarhaldsfélögin Öxnafell og Herbjarnarfell, sem bæði eru í eigu sömu aðila og eiga Seil ehf.
 
Tekið af dv.is
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).