Framkvæmdir á lóðinni stöðvaðar

27.Febrúar'12 | 11:50

Ísfélag Vestmannaeyja Ísfélagið

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur stöðvað stækkun lóðar og viðbyggingu Ísfélagsins í Vestmannaeyjum meðan nefndin er með málið til meðferðar. Krafa um stöðvun var sett fram af Vinnslustöðinni.
Ísfélagið og Vinnslustöðin eru með starfsemi hlið við hlið á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum. 17. febrúar samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja að heimila stækkun lóðar og að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Strandvegi í Vestmannaeyjum. Sama dag veitti byggingarfulltrúi leyfi til könnunar jarðvegs í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir.
 
Vinnslustöðin hélt því fram að svo mikil óvissa sé um lögmæti ákvörðunar um að leyfa framkvæmdir á lóðinni að stöðva beri framkvæmdir þar til skorið hafi verið úr um það. Grenndarkynningu hafi verið áfátt og hafi frestur til andmæla m.a. verið of skammur. Þar að auki hafi ekki verið heimilt að afgreiða umrætt byggingarleyfi með grenndarkynningu heldur hefði deiliskipulag þurft að koma til. Þá fari hin kærða ákvörðun í bága við Aðalskipulag Vestmannaeyja-bæjar 2002-2014, auk þess sem formgallar hafi verið á meðferð málsins.
 
Ísfélagið vísaði til byggingareglugerðar og skipulagslaga og sagði að Vinnslustöðin hafi ekki sýnt fram á að lagaskilyrði séu fyrir stöðvunarkröfunni. Þá hafi Vinnslustöðin ekki sýnt fram á að fyrirtækið eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá umræddar framkvæmdir stöðvaðar, en hafa verði í huga að þær styðjist einungis við leyfi byggingarfulltrúa til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði. Sú framkvæmd ein og sér geti ekki falið í sér slíka röskun á hagsmunum kæranda að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá henni afstýrt. Loks sé upplýst að könnun á jarðvegi sé lokið og muni því ekki koma til neinna frekari framkvæmda nema að fengnu byggingarleyfi, verði slíkt leyfi veitt, en ákvörðun um slíkt leyfi sé á forræði og ábyrgð Vestmannaeyjabæjar.
 
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var að fallast á að stöðva framkvæmdir: „Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Þannig er óljóst um valdheimildir umhverfis- og skipulagsráðs, svo og hvort afgreiðsla bæjarstjórnar í kjölfar grenndarkynningar hafi verið fullnægjandi. Auk þess er til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið til, að undangenginni grenndarkynningu, að veita leyfi til stækkunar lóðar og til viðbyggingar í stað þess að ráðast í gerð deiliskipulags fyrir svæðið,“ segir í úrskurðinum.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.