ÍBV töpuðu úrslitaleiknum á móti Val 18-27

25.Febrúar'12 | 15:31
Valsstúlkur tryggðu sér í dag Eimskipsbikarmeistaratitilinn í handknattleik kvenna með öruggum og sannfærandi sigri á ÍBV í úrslitaleik í Laugardalshöll 27-18. Valsstúlkur höfðu sjö marka forystu í hálfleik, 13-6, og höfðu í raun yfirburði á öllum sviðum íþróttarinnar. Þetta er þriðja árið í röð sem Valur leikur til úrslita í Eimskipsbikarkeppni kvenna en fyrsti titill stúlknanna síðan árið 2000
 
Tvö fyrstu mörk leiksins í dag áttu ættir sínar að rekja til Vestmannaeyja, Eyjastúlkur virkuðu vel stemmdar og harðákveðnar á fyrstu þremur mínútunum og til alls líklegar. Valsliðið stillti sig þó fljótlega af, spilaði hörkufína vörn sem sveiflaðist úr því að vera 3-3 yfir í 5-1 eftir því sem við átti og Valsstúlkur skoruðu átta mörk í röð. Eyjastúlkur spiluðu flata 6-0 vörn sem virkaði sem hrein og klár skothvatning fyrir Hrafnhildi Skúladóttur og stöllur hennar. Eyjastúlkur fundu fáar glufur á Valsvörninni, sem á löngum köflum í fyrri hálfleik fór ansi nærri því að vera óaðfinnanleg. Valsstúlkur klipptu sterkustu pósta Eyjaliðsins algjörlega út úr leiknum, stórskyttan Georgeta Grigore hefði rétt eins og getað setið uppi í stúku með trommu og fána og Hlíðarendameyjar voru óhræddar við að tuddast aðeins, láta finna fyrir sér. Eyjastúlkur fengu ekki svigrúm til nokkurra verka, en sýndu ekki alveg sama baráttuandann í vörninni þar sem þær lengi vel áttu í vandræðu með að klukka andstæðinga sína. Vandræðagangurinn virtist fylla þær hvítklæddu óöryggi og þær gerðu sjálfum sér hvað eftir annað erfitt fyrir með klaufalegum mistökum. Þær skoruðu ekki þriðja markið sitt fyrr en eftir tæplega fimmtán mínútna leik og forysta Vals þá þegar orðin fimm mörk, í raun fátt út á leik Valsliðsins að setja. Eina varnarbreytingin sem Eyjaliðið bauð upp á í fyrri hálfleik var þegar Þorgerður Anna Atladóttir var tekin úr umferð í tveimur sóknum á lokamínútunum og leiða má að því líkur að einhvers konar uppstokkunar hefði verið þörf. Valsstúlkur höfðu yfirburði á öllum sviðum, það eina sem hægt er setja út á er ófyrirséður áhugi þeirra á að kanna þanþol markstanganna á Eyjamarkinu og vandræðagangur í vítaköstum, en þegar flautað var til hálfleiks var forysta þeirra sjö mörk, 13-6. Hvorki þarf sjáanda né spámiðil til að átta sig á því að Valsstúlkur þurftu að hafa talsvert fyrir því að kasta sigurmöguleikunum frá sér í síðari hálfleik.
 
 
Eyjastúlkur náðu aldrei að keyra sig í gang í síðari hálfleik, sannfæringin var horfin úr leik þeirra og segja má að Florentina Stanciu hafi upp á sitt einsdæmi séð til þess að munurinn varð ekki enn meiri en raun ber vitni. Valur náði tíu marka forystu, 18-8, þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og þar með var orðið nokkuð ljóst hvert stefndi. Eyjastúlkur verða seint sakaðar um að leggjast í kör, orðið uppgjöf er hreinlega ekki til í orðabókum á vestmanneyskum heimilum, og þær hvítklæddu tóku ágætan sprett um miðbik síðari hálfleiks, skoruðu þá fjögur mörk í röð og keyrðu upp ágæta stemmningu. Það reyndist hins vegar skammgóður vermir, Valsstúlkur svöruðu þessu áhlaupi af stakri snilld og sigldu í höfn öruggum níu marka sigri, 27-18.
 
Sigur Valsstúlkna í dag var bæði sanngjarn og sannfærandi. Varnarleikurinn var til hreinnar fyrirmyndar, Anna Úrsúla, Kristín og ekki síst Dagný frábærar og Jenný varði eins og berserkur í markinu. Valsstúlkur búa að þeim forréttindum að geta breytt varnaruppstillingum án þess að blikka og þær kláruðu leikinn með 6-0 vörn eftir að hafa spilað 5-1 og 3-3 framan af. Sóknarleikurinn var öflugur, áræðið í botni og markadreifingin til eftirbreytni. Þegar Valsstúlkur spila eins og þær gerðu í dag er ekkert lið sem stenst þeim snúning. Eyjastúlkur hittu ekki á sinn besta leik, létu slá sig svolítið út af laginu og náðu ekki keyra sína sterkustu pósta í gang. Marijana Trbojevic gerði margt ágætlega og Ivana Mladenovic skoraði sinn skerf af mörkum, en leikmenn eins og Ester Óskarsdóttir og Gorgeta Grigore voru fjarri sínu besta. Florentina Stanciu gerði sitt á milli stanganna, en það dugði ekki. Það er gömul saga og ný að enginn leikur betur en andstæðingurinn leyfir.
 
Mörk ÍBV: Ivana Mladenovic 6, Marijana Trbojevic 4, Ester Óskarsdóttir 3, Gorgeta Grigore 2, Þorsteina Sigurbjörnsdóttir 1, Aníta Elíasdóttir 1, Drífa Þorvaldsdóttir 1.
Varin skot: Florentina Stanciu 14 (1 víti).
 
 
tekið af sport.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is