Sigrún gefur strákunum ekkert eftir

22.Febrúar'12 | 08:45
Samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun Íslands voru 6.502 lögskráðir sjómenn á íslenskum fiskiskipum á síðasta ári. Þar af voru 182 konur lögskráðar í áhöfnum fiskiskipa og af þeim voru einungis fjórar á frystitogurum. Sigrún Agatha Árnadóttir er ein þeirra en hún vann á síðasta ári sem vinnslustjóri á uppsjávarfrystiskipinu Gandí VE-171 frá Vestmannaeyjum. Að hennar sögn er sjómannsstarfið svo skemmtilegt að hún getur ekki ímyndað sér að starfa við neitt annað í náinni framtíð.
Sigrún Agatha er fædd árið 1987 og uppalin í Reykjavík. Árið 2008 flutti hún til Vestmannaeyja og fór að vinna á síldarvertíð. Eftir nokkurra mánaða starf í fiskvinnslu fékk hún sig fullsadda af lágu kaupi og hringdi um borð í báta bæjarfélagsins og spurðist fyrir um laus störf. „Mér var sagt að það væri laust pláss á gamla Gandí, netabát frá Vestmannaeyjum sem gerður var út á humartroll, og á endanum réð ég mig þangað sumarið 2009. Ég vann á skipinu út sumarið og fór síðan á skuttogarann Jón Vídalín VE-82,“ segir Sigrún.
 
Ráðin sem vinnslustjóri
Sigrún fór með skuttogaranum á karfa- og ufsaveiðar suðvestur af Reykjanesi og var á skipinu yfir veturinn. „Þar lærði ég á trollin, sinnti netavinnu og kynntist alls kyns veðri, en vinnan var mjög ólík því að veiða með humartroll. Síðan leysti ég einnig kokkinn af og sá um eldamennsku um borð og rak mig fljótt á hversu skrýtið það er fyrir stelpu að elda ofan í fimmtán sjómenn. Það kom mér t.d. á óvart hversu mikið beikon er borðað og hversu marga lambahryggi fimmtán manna áhöfn getur torgað. Matseldin gekk að öðru leyti vel fyrir utan eitt skipti þegar strákarnir urðu hundfúlir þegar ég setti gulrætur á borðið,“ segir hún og hlær.
 
Þegar uppsjávarfrystiskipið Gandí VE-171 kom til Vestmannaeyja vorið 2010 ákvað Sigrún að sækja um sem háseti um borð. Á endanum var hún hins vegar ráðin sem vinnslustjóri, þrátt fyrir að hafa litla sem enga reynslu af uppsjávarveiðum. Starfinu fylgdi aukin ábyrgð og Sigrún segist hafa haft í nógu að snúast þegar hún hóf störf í júlí 2010. „Fyrsti túrinn var skrautlegur því skipið hafði staðið nánast óhreyft í nokkur ár áður en Vinnslustöðin keypti það og fljótlega bilaði flest sem bilað gat. Ég fékk að kynnast því hversu krefjandi starf vinnslustjórans er og lærði strax að ef maður vill ekki fá skammir þá er eins gott að hafa allt á hreinu.“

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.