Minnir á frásögn Guðlaugs fyrir 28 árum

Ómar Ragnarsson bloggar

2.Febrúar'12 | 11:06

Ómar Ragnarsson

Frásögn Eiríks Inga Jóhannssonar af baráttu hans og félaga hans fyrir lífi sínu minnir um margt á frásögn Guðlaugs Friðþórssonar eftir Helliseyjarslysið 1984.
 
Báðir komast lífs af vegna þess hvernig þeir bregðast rétt við aðstæðum, missa aldrei móðinn og hugsa ekki síður um sálfræðilegu hliðina en hina líkamlegu.
Báðir eru nokkra stund í samfloti með félaga sínum þar til hann er allt í einu horfinn.
 
Báðir efla þrek sitt með því að efna til ímyndaðrar samræðu, Guðlaugur við mávana, Eiríkur Ingi við þyrlubjörgunarmennina þar sem Eiríkur persónugerir flugstjórann í Jónasi, vini sínum, íslenskum þyrlustjóra.
 
Báðir leita á náðir tóna og ljóða og hugsa til náskyldra. Báðir leggjast frekar til baksunds en að synda á bringunni og reyna að ganga ekki um of á orkuforðann.
 
Eiríkur nærir hugann í fárviðri og stórsjó með því að hrífast af þeirri hrikalegu náttúrufegurð sem hann sér í himinháum "brimbrettabrimsköflum" og hafróti.
 
Guðlaugur er hugsi yfir því að hann skuldi vini eða vinum peninga og biður bænir og leitar í því andlegs styrks.
 
Sjónvarpið gerði að mínum dómi rétt í því að stytta viðtalið við Eirík ekkert og falla ekki í þá freistingu að fara að endursegja eitthvað.
 
Þegar ég tók viðtalið við Guðlaug á sínum tíma var mér skipað að stytta það og endursegja hluta þess.
 
Eftir á sá ég eftir því að hafa ekki hafnað því alfarið, - svona viðtöl eru ekki tekin á hverjum degi og það hlýtur að vera eitthvað annað í dagskránni sem er léttvægara og má stytta eða hnika til.
 
Eftir alla baráttuna um borð í skipinu og í og við gúmbátinni rifna var það mikið afrek sem Eiríkur Ingi vann að halda höfði og bugast ekki, á hverju sem gekk og allt virtist svon vonlaust.
 
Afrek Guðlaugs Friðþórssonar var hins vegar gersamlega dæmalaust í sögu þjóðar okkar og þótt víðar væri leitað, af því að hann var ekki í flotgalla og þurfti að synda í köldum sjónum í enn lengri tíma en Eiríkur var í sjónum.
 
Sund Guðlaugs er að mínum dómi mesta þrekraun og afrek allra tíma, ekki síst landtakan við klettótta strönd í úfnum sjó og miklu brimi og síðan að ganga berfættur yfir úfið hraun.
 
Frásögn Eiríks snerti mig ekki síst fyrir þá sök að Einar G. Gunnarsson var frá 14 ára aldri í heimili hjá systur sinni "Rúnu" og manni hennar Sigfúsi Jóhannssyni, mági mínum.
 
Sjálfur naut ég þess ásamt Helgu konu minni að vera þar til heimilis hálft ár áður en við fórum að búa og Einar heitinn var alla tíð eins og í systkinahópnum í mínum augum og ófáar gleðistundirnar á þessu dásamlega heimili sem ævinlega var opið öllum að vestan.
 
Baráttan við Ægi hefur verið hörð í þessari fjölskyldu. Einar missti bróður sinn í sjóslysi á Arnarfirði fyrir allmörgum árum og Sigfús missti föður sinn í sjóslysi 16 ára gamall og komst sjálfur nokkrum sinnum í hann krappan á löngum sjómannsferli, - vissi hvað það var að lenda í köldum sjónum.
 
Heyra mátti í frásögn Eiríks að þeir félagar kölluðu Einar "Vestfirðinginn" og einnig hve mikla virðingu þeir báru fyrir honum, reynslu hans og þekkingu, enda hafði hann verið kennari Eiríks.
 
Vestfirðingar hafa jú löngum haft sérstöðu um sjósókn og sambúð við óblíð náttúruöfl.
 
Einar var að setjast í helgan stein eftir farsælt ævistarf, en heyra mátti á frásögn Eiríks hve gefandi hann, þekking hans, reynsla og frásagnir, hafði verið fyrir hina skipverjana meðan allt lék í lyndi á leiðinni og hann gat notið fararinnar og þeirra töfra sem hafið býr yfir hjá þeim sem hafa helgað sig sjómennskunni, töfrar sem þeir geta aldrei staðist.

http://omarragnarsson.blog.is/
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).