Umræða um kynferðisofbeldi er mikilvæg og verður að vera á málefnalegum forsendum

24.Janúar'12 | 10:36
Aðalstjórn ÍBV Íþróttafélags tekur fram að umræða um kynferðisofbeldi og baráttu gegn slíku ofbeldi á alltaf rétt á sér og mikilvægi slíkrar umræðu er aldrei ofmetið. Það er jafnframt mikilvægt að sú umræða einkennist af málefnalegum sjónarmiðum sem og jafnframt sé gætt að því að umræðan sem slík þjóni þeim hagsmunum sem unnið er að.
Þjóðhátíð Vestmannaeyja er útihátíð sem hefur verið haldin nær óslitið frá 1874. Hún er fjölskylduhátíð þar sem kynslóðirnar koma saman í þeim tilgangi að skemmta sér. Þeir sem koma á slíka hátíð eiga rétt á því að vera ekki beittir neins konar ofbeldi, en það eru ekki allir sem virða þann rétt. Það því miður kemur fyrir að brotið á fólki og ofbeldisglæpir framdir. Flest kynferðisbrot hér á landi sem og annars staðar eru framin á heimilum. Gerendur eru í flestum tilvikum skyldmenni, tengdir aðilar, vinir eða kunningjar. Kynferðisbrot eru framin á vinnustöðum sem og á opinberum stofnunum. Allir eiga rétt á því að vera öruggir frá því að vera beittir ofbeldi hvar sem þeir eru staddir en þessi réttur er ekki alltaf virtur. Við sem stöndum að Þjóðhátíð Vestmannaeyja lofum því ekki að þeir sem koma á hátíðina séu fullkomlega öruggir frá ofbeldi. Við getum einfaldlega ekki staðið við það. En við lofum því að gæsla á svæðinu er mjög mikil, aðbúnaður mjög góður og mikil áhersla lögð á að tryggja öryggi gesta. Við stöndum jafnframt við það. Að okkar mati er engin útihátíð sambærileg Þjóðhátíð Vestmannaeyja hvað framangreint snertir. En það kemur samt sem áður ekki í veg fyrir að kynferðisofbeldi eigi sér stað.
 
Lögð er áhersla á mikla gæslu og góðan aðbúnað á Þjóðhátíð Vestmannaeyja
Árin 2008,2009 og 2010 voru ekki tilkynnt kynferðisbrot á Þjóðhátíð. Það þýðir hins vegar ekki að engin slík brot hafi verið framin. Við vitum að þessi brot eru í mörgum tilvikum ekki tilkynnt eða kærð. Þó svo að engin brot hafi verið tilkynnt þessi ár þá var í engu dregið úr gæslu. Við sem stöndum að Þjóðhátíð erum alltaf að skoða hvað betur megi fara. Við viljum að gæslan og aðbúnaður allur sé til fyrirmyndar og teljum að svo sé. Árið 2011 voru tilkynnt 3 kynferðisbrot á Þjóðhátíð. Af þeim var ein tilkynningin vegna nauðgunar og tvær tilkynningar vegna annarra kynferðisbrota. Tvö önnur kynferðisbrot voru tilkynnt í Vestmannaeyjum þessa helgi vegna atvika á veitingastað og heimili í Vestmannaeyjum. Varðandi nauðgunina sem átti sér stað á hátíðarsvæðinu var það ekki síst vegna árvekni gæslumanna á Þjóðhátíð að brotamaður var handtekinn. Hann var ákærður og dæmdur. Hin tvö kynferðisbrotin voru rannsökuð og málin síðan felld niður. Það þýðir hins vegar ekki að engin brot hafi átt sér stað. Þegar slík mál koma upp er ætíð farið vel yfir hvernig gæsla og viðbrögð hafi verið sem og hvort og þá hvað hægt er að gera betur. Á kvöldin og um nætur á Þjóðhátíð eru á annað hundrað manns í gæslu á Þjóðhátíðarsvæðinu auk fjölda lögreglumanna. Læknar, hjúkrunarfólk, sjúkrabifreiðar með sérþjálfuðum sjúkraflutningamönnum auk fagfólks á sviði sálgæslu er ætíð til taks á hátíðarsvæðinu. Sjúkrahús er í u.þ.b. þriggja mínútna akstursfjarlægð frá svæðinu og lögreglustöð í tveggja mínútna akstursfjarlægð. Það er unnið náið með yfirvöldum alla hátíðina með það að leiðarljósi að bregðast við ýmsu því sem uppá getur komið.
 
Vel skipulögð útihátíð stuðlar að fækkun ofbeldisbrota
Það er mikilvægt að þeir sem berjast gegn kynferðisofbeldi geri það af þekkingu og skilningi. Það er mikilvægt að skilja að góð og vel skipulögð útihátíð stuðlar að fækkun ofbeldisglæpa. Íslensk ungmenni hafa um langt árabil farið út á land um verslunarmannahelgi í þeim tilgangi að skemmta sér. Þetta mun ekki breytast. Við þekkjum þennan raunveruleika vel. Það sem við viljum alls ekki er að íslensk ungmenni safnist saman í þúsundum t.d. í Húsafelli, Þórsmörk og víðar þar sem lítill aðbúnaður eða gæsla er til staðar. Það er sá valkostur sem blasir við ef leggja á niður skipulagðar útihátíðir. Þá eykst hættan á fleiri og alvarlegri glæpum. Hver ber þá ábyrgðina? Í Öldinni okkar frá 1952 segir t.d. frá slíkum atburðum: Þar er sagt frá “frámunalegri framkomu mikils fjölda æskufólks á samkomum og skemmtistöðum suðvestanlands. Þar sem skemmtanir voru haldnar, var ölvun víðast óstjórnleg og skrílmennska sums staðar slík, að annað eins mun vart dæmi hér á landi. Drykkjuæðið náði hámarki við Hreðavatnsskála. Veitingaskálinn var nánast lagður í rúst og einber heppni að skógurinn fuðraði ekki upp. Á Hreðavatni var fjöldi unglinga í tjöldum um helgina og versnaði ástandið stöðugt eftir því sem leið. Urðu þar nær þrotlaus slagsmál og var farið með allmarga til læknis í Borgarnesi. Löggæslan var engin á staðnum en þegar að séð var að hverju fór voru kvaddir til bændur af nálægum bæjum.” Við þurfum ekki að fara svona langt aftur til að þekkja fjölmörg sambærileg dæmi þar sem gæsla og aðbúnaður hefur verið lítil eða engin. Reynslan ætti að vera búin að kenna okkur að þetta viljum við ekki.

Mikilvægt að ungmennum sé ekki úthýst frá vel skipulögðum útihátíðum
Eftir Eldborgarhátíðina árið 2001 setti Dómsmálaráðuneytið á laggirnar sérstaka nefnd til að fara yfir útihátíðir og framkvæmd þeirra. Í þessari nefnd voru fulltrúar flestra fagaðila s.s. lögreglu, heilbrigðisyfirvalda, barnaverndarsamtök, samtök gegn kynferðisofbeldi ofl. Mikil og þörf vinna var unnin. M.a. kom upp spurningin hvert aldurstakmarkið ætti að vera á slíkar hátíðir. Niðurstaða nefndarinnar var að miða við 16 ára aldurstakmark en ekki 18 ára. Ástæðan fyrir því var ekki sú að æskilegt væri að ungmenni á aldrinum 16-18 ára væru á slíkum skemmtunum heldur sú að ljóst væri að ungmenni á þessum aldri færu út á land að skemmta sér þessa helgi. Þetta væri oft sá hópur sem væri verst útbúinn og kynni síst fótum sínum forráð. Mikilvægt væri að þessum hópi væri ekki úthýst af vel skipulögðum útihátíðum þar sem væri góð gæsla og aðbúnaður, þannig að þessi hópur myndi leita á staði þar sem engin skipulögð gæsla væri til staðar. Þetta er ástæða þessað aldurstakmark á Þjóðhátíð Vestmannaeyja er 16 ára. Það væri auðvelt og kannski þægilegt fyrir okkur sem stöndum að Þjóðhátíð að hafa aldurstakmarkið hærra, en við gerum okkur grein fyrir því að með því værum við ekki að leysa vandamálið heldur að færa það til og að öllum líkindum að auka það verulega.

Þjóðhátíð Vestmannaeyja er til fyrirmyndar í baráttu gegn ofbeldisbrotum
Aðalstjórn ÍBV Íþróttafélags veit að þeir sem best til málanna þekkja virða og kunna að meta slíka hátíð sem Þjóðhátíð Vestmannaeyja er. Þeir vita að slík hátíð stuðlar að fækkun ofbeldisbrota. Í því sambandi er rétt að vísa til ummæla frá talsmanni Stígamóta í fjölmiðlum árið 2001 eftir að Eldborgarhátíðin hafði farið fram. Þar sagði eftirfarandi: “ Samtökin Stígamót hafa síðan þau voru stofnuð árið 1990 unnið markvisst starf við forvarnir gegn nauðgunum, stutt við þolendur nauðgana og opnað umræðu um kynferðisofbeldi. Rúna Jónsdóttir, fræðslufulltrúi Stígamóta, segist forviða á þeirri öldu ofbeldis sem rís í kringum útihátíðirnar um verslunarmannahelgar. Hún telur þó ýmsa kosti í stöðunni til að sporna við því að ástandið fari úr böndunum á útihátíðum. Í fyrsta lagi telur Rúna að sú þekking sem safnast hefur í kringum Þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum sé mjög verðmæt og geti vel nýst öðrum þeim sem vilja halda slíkar hátíðir. Aðstandendur Þjóðhátíðar hafi gífurlega þekkingu hvað varðar skipulag og undirbúning útihátíða og hafi þeir mikla stjórn á ástandinu á svæðinu. Almennt séu fagaðilar með verksvið sitt á hreinu og vinni eftir skipulagi sem mótast hefur með mikilli reynslu. Því sé allt eftirlit með gestum til fyrirmyndar og gæsla mjög sýnileg.”
 
Ágætu 100 herramenn, við erum í sama liði. Við erum í liðinu sem berst gegn kynferðisofbeldi. Við sem stöndum að Þjóðhátíð Vestmannaeyja gerum það með því að halda útihátíð þar sem gæsla og aðbúnaður er til fyrirmyndar. Það ber að virða og styðja.
 
Aðalstjórn ÍBV Íþróttafélags
 
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).