Jólahugvekja eyjar.net

Horft til Betlehem

séra Kristján Björnsson skrifar

26.Desember'11 | 09:45

jól

Það heyrðist í fréttum á aðfangadag að öll hótel og gistihús eru fullbókuð á jólum. Enn ber það við að setningar úr einni bestu frétt mannkynssögunnar eru endurteknar. Enn er það svo að hirðar úti í haga gæta um nætur hjarða sinna. Ég reikna með að enn fæðist börn í Betlehem og það er ljóst af fréttinni, sem ég vitnaði til, að enn var von á ferðalöngum til þessarar fámennu borgar. Hún er nafntoguð söguborg og þar ber hæst fréttin um atburði fáeinna dægra fyrir ríflega tvöþúsund árum. Það horfa ótal margir til Betlehem á jólum.
Um áraraðir var það fastur liður í fréttaflutningi ljósvakamiðlanna hvernig páfanum suður í Róm mæltist í jólamessunni. Það má heita partur af minni trúarlegu vitund í tengslum við jólin að heyra hans heilagleika hvetja til friðar og kærleika í anda Jesú Krists. Hann horfði þá gjarnan til borgarinnar Betlehem um leið og hann hvatti til friðar um allan heim.
 
Nú gerist það æ oftar að inn á milli frétta um hátíðarhöld kristinna manna má finna viðtöl eða fréttir af fólki sem ekki heldur jólin. Þessi þróun er að verða eitt merkilegasta dæmi okkar daga um „ekki frétt“. Það getur verið afar athyglisvert og lærdómsríkt að heyra hvernig annarar trúar fólk heldur sínar hátíðir en það getur varla verið frétt að einhver er ekki að gera eitthvað.

Nú flagga ég krossfána lýðveldisins á flestum fánadögum okkar og legg alveg sértsaklega uppúr því að hann blakti á fánadögum kristinnar þjóðar. Það sama er gert við allar opinberar byggingar og hjá þeim fjölmörgu Íslendingum sem eiga fána og fánastöng. Hún er hjá mörgum helguð því einu að hefja þetta samofna tákn íslenskrar þjóðar og íslenskrar kristni á loft á hátíðisdögum í lífi þjóðarinnar, en einnig á merkum dögum í lífi fjölskyldu og vina, bæði í gleði og sorg. Það væri ekki frétt ef fjölmiðlar tækju að segja af fólki sem ekki flaggar. Kannski yrði það frétt ef þekktur fánamaður kæmist ekki til þess að flagga en þó yrði það ögn „meiri“ frétt ef hann flaggaði á vitlausum degi eða af röngu tilefni. Við Eyjamenn þekkjum eitt eða tvö dæmi af ótímabærri flöggun og er bara gaman að því eftirá.

Jólaguðspjallið er mikil frétt. Hún er góð frétt. Og það er alltaf gott að heyra dæmi þess að menn breyti eftir því fagnaðarerindi sem braust þar fram við erfiðustu skilyrði. Ég horfi til þess að við heyrum áfram fréttir af því hvernig pílagrímum gengur að komist til fæðingarborgar Frelsarans. Góð frétt að hún ekki lokuð vegna þess að hún er tilfallandi núna á Vesturbakkanum og oft er um hana nokkurt þref. Vona ég líka að við fáum af því fréttir í nánd jóla eða á sjálfri hátíðinni að enn eru dæmi þess að menn láta fagnaðarerindið um frið og kærleika heyrast. Allra bestu fréttir á jólum ár hvert eru fréttir af því hvernig fólk lætur boðskap jólanna rætast í orði og verki, þ.e.a.s. fréttir af þeim sem raunverulega halda jól í friði Drottins eða sýna kærleika kristinnar trúar í verki með því að hjálpa öðrum að halda sín jól. Það er von mín að við horfum öll þeim augum til Betlehem og óska ég Eyjamönnum og löndum mínum nær og fjær gleðilegrar hátíðar á jóladegi hér á eyjar.net: Gleðileg jól!
 
 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.