Getur verið?

Ragnar Óskarsson skrifar

4.Desember'11 | 20:56

Raggi Óskars, Ragnar óskarsson

Landmenn hafa að undanförnu sárlega fundið fyrir niðurskurði á ýmis konar opinberri þjónustu. Einkum hefur þetta komið fram í heilbrigðisþjónustunni og ýmsum öðrum velferðarmálum. Af skiljanlegum ástæðum er fólk ekki sátt við niðurskurðinn og reynir með ýmsum hætti að telja stjórnvöld á að falla frá honum. Stjórnvöld hafa á móti bent á að niðurskurðurinn sé ill nauðsyn meðan verið að er koma efnahag Íslendinga í eðlilegt horf eftir hrunið.
Þarna er komið að kjarna málsins. Efnahagshrunið sem dundi yfir þjóðina í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skildi nefnilega eftir svo alvarlega bresti í íslensku þjóðfélagi að langan tíma tekur að ráða bót þar á. Þrátt fyrir allt hefur þeirri ríkisstjórn sem nú situr tekist betur til við að endurreisa íslenskt efnahagslíf en þeir bjartsýnustu þorðu að vona. Til dæmis þar um eru einróma jákvæðar umsagnir erlendra sérfræðistofnana og einstaklinga sem um fjármál fjalla. Þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og fjölmargir fylgismenn þessara flokka um allt land berja hins vegar hausnum við steininn, neita að viðurkenna staðreyndir um mælanlegan bata og sjá eintómt svartnætti framundan. Margir úr þessum hópi eru meira að segja þeir sömu og leiddu þjóðina í þá kreppu sem hún á nú við að glíma.
 
Mér dettur ekki í hug að halda því fram að hér á landi sé allt í lagi og að stjórnvöld séu hafin yfir gagnrýni. Það er langur vegur því frá og stundum finnst mér of hægt ganga við að reisa landið úr rústunum. Ég er hins vegar sannfærður um að stjórnvöld eru á réttri leið og eiga eftir stýra þjóðinni út úr þeim þrengingum
sem hún nú býr við.
 
Hér í Vestmannaeyjum hefur mikið verið rætt um Sjúkrahúsið og niðurskurð þann sem það hefur mátt þola undanfarin ár. Niðurskurðurinn var reyndar einnig mikill í hinu svokallaða góðæri þegar Sjálfstæðisflokkurinn réð ríkjum og kappkostaði að færa fjármuni frá almenningi til hinna ríku en skar jafnframt niður í samfélagslegri þjónustu. Vissulega er niðurskurðurinn nú alvarlegur en ég held að full ástæða sé til að treysta stjórnvöldum til þess að tryggja okkur þá heilbrigðisþjónustu sem við þurfum og að til framtíðar verði mörkuð sú stefna að bæta hana og auka. Ég held og að full ástæða sé til þess að ætla að núverandi stjórnvöld muni kappkosta að nota sanngjarnan hluta af skatttekjum í velferðarmál, ekki síst heilbrigðismál.
 
Og þá er ég kominn að því sem við ættum kannski að íhuga vel, einkum nú þegar svo mikilvægt er að skattfé sé notað sem best í þágu almennings sem um þessar mundir býr vissulega við krappari kjör en oft áður. Við, hvert og eitt, vitum um fjölmarga sem komast hjá því ár eftir ár að greiða skattana sína til samfélagsins. Við sjáum þetta fólk daglega og eigum jafnvel samskipti við það. Það brosir til okkar sínu breiðasta og það tekur gjarnan hæst undir þær raddir sem hvað harðast gagnrýna niðurskurðinn nú í kreppunni. Getur verið að þetta fólk beri einhverja ábyrgð á niðurskurðinum? Getur t.d. verið að við hér í Vestmannaeyjum byggjum við betri heilbrigðisþjónustu ef allir greiddu sitt til samfélagsins? Eru þetta kannski óþarfa pælingar hjá mér eða jafnvel alvarlegt íhugunarefni?
 
Ragnar Óskarsson
 
 
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.