100 ár í dag frá fæðingu Oddgeirs Kristjánssonar

Bjartar vonir vakna í kvöld í Hörpu

16.Nóvember'11 | 06:56
Í dag 16.nóvember eru 100 ár frá því að tónskáldið og tónlistarmaðurinn Oddgeir Kristjánsson fæddist. Tónlist Oddgeirs hefur fylgt Eyjamönnum og Íslendingum í yfir 80 ár og í kvöld verða í Hörpu tónleikar þar sem að farið verður yfir feril Oddgeirs.
Fremsta tónlistarfólk þjóðarinnar mun sjá um flutninginn á tónlist hans en þau eru  Helgi Björnsson, Andrea Gylfadóttir, Egill Ólafsson, Guðrún Gunnarsdóttir, Eyþór Ingi, Margrét Eir, Íris Guðmundsdóttir og Hafsteinn Þórólfsson syngja öll vinsælustu lög Oddgeirs.  Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson setur lögin í sparibúning og í anda Oddgeirs og stýrir einnig 15 manna stórsveit.
 
Um Oddgeir er skrifað á Heimaslóð:
Oddgeir Kristjánsson fæddist í Vestmannaeyjum 16. nóvember árið 1911 og lést 18. febrúar 1966, aðeins 54 ára að aldri. Kona hans var Svava Guðjónsdóttir. Oddgeir vann við verslunarstörf í Vestmannaeyjum ásamt því að vera forstjóri Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja til ársins 1940. Þá sneri hann sér að söng- og tónlistarkennslu við Barnaskóla Vestmannaeyja, þar starfaði hann til æviloka. Ásamt framangreindu var Oddgeir stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja frá stofnun (1939) og þar til hann lést, jafnframt því að vera eitt af höfuðskáldum Vestmannaeyja ásamt Lofti Guðmundssyni, Ása í Bæ og Árna úr Eyjum. Mörg af fallegustu lögum Eyjanna hafa orðið til á nótnaborði Oddgeirs og nægir þar að nefna perlu eins og „Ég veit þú kemur“. Oddgeir samdi fyrsta þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja, lagið „Setjumst hér að sumbli“ árið 1933. Síðustu tónleikarnir, sem Oddgeir stjórnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja, voru haldnir í Landakirkju sunnudaginn 2. janúar árið 1966. Oddgeir lést síðan rúmum mánuði síðar, við tónlistarkennslu 18. febrúar.
 
Á barnsaldri hneigðist hugur Oddgeirs til tónlistar og á þrettánda ári var hann farinn að leika á trompet í lúðrasveit í Eyjum.

Fyrir hvatningu góðra manna fór Oddgeir til Reykjavíkur í fiðlunám til Þórarins Guðmundssonar. Það stóð þó aðeins í einn vetur því heimskreppan skall á og lokaði leiðum. Veturinn 1944-45 var hann við tónfræðinám hjá Róbert A. Ottóssyni. Það varð honum drjúgt veganesti.
 
Oddgeir samdi þegar á unga aldri lög sem hafa verið vinsæl með þjóðinni, en mörg laga hans voru fyrst kynnt á Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Oddgeir fékk til liðs við sig snjalla textahöfunda, vini sína Árna úr Eyjum og Ása í Bæ auk Lofts Guðmundssonar, en einnig samdi Oddgeir lög við ljóð annarra skálda.
 
Dæmi um ógleymanleg lög eftir Oddgeir eru Vor við sæinn, Gamla gatan, Ég veit þú kemur, Ágústnótt, Ship ohoj og Sólbrúnir vangar
 
Um áratuga skeið var Oddgeir drifkraftur í tónlistarlífi Vestmannaeyinga. Hann var einn af forgöngumönnum um stofnun Lúðrasveitar Vestmannaeyinga og stjórnandi hennar til dauðadags. Síðustu tíu ár ævinnar var hann tónmenntakennari í Barnaskóla Vestmannaeyja. Það gaf honum tækifæri til að örva söng og gleði sem Eyjamönnum er í blóð borin.
 
Vinir Oddgeirs höfðu forgöngu um að honum var reistur minnisvarði á Stakkagerðistúni og var hann vígður árið 1982. Sá minnisvarði er tónleikapallur og hefur verið notaður við tónlistarflutning á hátíðisdögum.
 
tekið af heimaslod.is
 
 
 
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.