Hvað er í pakkanum?

Helgi Ólafsson 1. varaformaður SUS skrifar

15.Nóvember'11 | 08:37
Nú þegar langt er liðið á haustið styttist óðfluga í jólin en ekki síður í landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þau tvö formlegu framboð sem fram hafa komið til formennsku innan flokksins eru nærri því það eina sem fjölmiðlar hafa sýnt áhuga fyrir fundinn. En þó það sé óneitanlega mjög mikilvægt hver kemur til með að leiða Sjálfstæðisflokkinn er veigamesta hlutverk landsfundar engu að síður að móta flokknum stefnu og gefa sjálfstæðismönnum um allt land tækifæri til að koma saman og ræða málefni og áherslur.
Ég tel mig geta fullyrt að allir sjálfstæðismenn séu sammála um grunngildi flokksins en er jafnframt sannfærður um þá staðreynd að í engum stjórnmálasamtökum, sem innihalda fleiri en einn meðlim, eru allir sammála í hverju einasta atriði. Því hefur óhjákvæmilega verið tekist misharkalega á um málefni á landsfundum í gegnum tíðina.
 
Ef komandi landsfundur verður eitthvað í líkingu við þann síðasta er næsta víst að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu verði einna efst á baugi. En sama hversu mikið aðdáendur aðildar innan Sjálfstæðisflokksins hamast við að sannfæra sjálfa sig og aðra um að skoðanir þeirra eigi mikinn hljómgrunn meðal flokksmanna, tók síðasti landsfundur af allan vafa í þeim efnum þegar hin eindregna afstaða um að draga ætti aðildarumsóknina til baka var samþykkt af miklum meirihluta fundarmanna við dynjandi lófatak.
 
Þrátt fyrir þessa eindregnu ályktun um Evrópumál hafa nánast allir áhugamenn um inngöngu landsins í ESB, sem tjá sig í fjölmiðlum, reynt að viðhalda trú sinni og annarra á að hópur aðildarsinna sé mun stærri innan Sjálfstæðisflokksins en hann í raun er. Því þótti mér afar ánægjulegt þegar formaður flokksins tók af öll tvímæli um það að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér fyrir því að umsóknin verði dregin til baka.
 
Ekki hvað síst í ljósi þessarar eindregnu afstöðu bæði flokksforystunnar og landsfundar hef ég haft lúmskt gaman af að fylgjast með málflutningi aðildarsinna innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir vitaskuld átta sig á því að málstaður þeirra á lítinn sem engan hljómgrunn meðal flokksmanna og hafa þess vegna flestir brugðið á það ráð að tipla í kringum kjarna málsins eins og kettir í kringum heitan graut og virðast telja landsfundinn eiga meira sameiginlegt með jólum en árstímann. Því þeir þykjast spenntari en lítið barn að fá að skoða ofan í pakkann.
 
Eina ástæðan sem flestir aðildarsinnar nefna fyrir því að ekki eigi að kúpla landinu útúr aðlögunarferlinu sem nú er í gangi er að það verði svo gaman að geta skoðað ofan í pakkann. Nánast enginn þeirra virðist vera tilbúinn til þess að rökstyðja þá skoðun sína að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið, eingöngu hversu gaman verði að rífa utan af pakkanum.
 
En engum ætti að vera hulið hvað leynist í umræddum pakka. Það liggur ljóst fyrir hvernig sambandið er og það mun ekkert breytast við inngöngu Íslands. En hvernig sambandið verður eftir 5, 10 eða 15 ár er eitthvað sem meira að segja mestu kverúlantarnir þora varla að spá um og Ísland með sínar 320.000 sálir (ca. 0,06% af heildar íbúafjölda ESB) mun hafa lítil, ef þá nokkur, áhrif á.
 
Höfundur er 1. varaformaður SUS.
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

28.Júní'17

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is