Nýtt kvótakerfi

Georg Eiður Arnarson bloggar

11.Nóvember'11 | 08:49
Ég hef oft fjallað um kvótakerfið enda starfað í eigin útgerð í 24 ár og er í dag það sem er oftast kallað leiguliði. Staðan í dag hér í Eyjum er þannig, að í vetur eru aðeins 2 bátar á línu og er ég sá yngri og eingin er að fara að byrja í útgerð, enda er það ekki hægt vegna núverandi kvótakerfis og hins fáránlega háa kvótaverðs, en hvernig er hægt að breyta því?
Þegar ég horfi til baka og rifja upp allt það sem ég hef upplifað, séð og heyrt um, um núverandi kvótakerfi, og þá staðreynd að allir sem eiga einhverjar aflaheimildir í dag miða arðsemis kröfu sína við það, að fá amk. gangverð á kvótaleigu í sinn hlut út úr hverju kílói en leiguverð á ýsu er um 230 kr. kg. og á þorski um 330 kr. kg. í aflamarkskerfi og því augljóst, að ekki er mikill afgangur eftir handa þeim sem veiða fiskinn. Afleiðingarnar eru því augljósar, smár fiskur kemur ekki að landi, ekki nema þá sem Hafró afli. Allskonar sögusagnir eru í gangi um stórfellt brottkast og svindl og brask og því miður, það eina sem hefur komið frá núverandi ríkisstjórn er krafa um að fá sneið af kökunni ásamt því, að stöðva frekari veðsetningu á fiskinum í sjónum, sem er reyndar það eina sem ég er sammála í hugmyndum ríkisstjórnarinnar. En hvernig getum við breytt þessu?
 
Ég hef nokkrum sinnum viðrað ýmsar hugmyndir til þess að leysa okkur úr þessu fáránlega kvótakerfi, en það sem ég ætla að fjalla um núna heitir SÓKNARMARKS DAGAKERFI. Stærsti gallinn við sóknarmarkskerfið sem var á sínum tíma var að þá kom of mikill afli í land á hávertíðinni, sem varð til þess að meðferðin á fiskinum var oft á tíðum ekki góð, enda erfitt þegar mikið berst að landi á stuttum tíma, en að mínu mati væri hægt að einhverju leiti að leysa það með því að skipta árinu í 4 hluta, 3 mánuði í senn og leyfa veiðar í 30 daga á hverju tímabili sem myndi að sjálfsögðu verða til þess að bátum myndi fjölga, en þá kannski dreifast betur eftir því hvar á landinu menn eru og það hvernig tíðarfarið væri. Með þessu værum við þá laus við þetta fáránlega brask kerfi sem við búum við í dag og sem mótvægisaðgerð til þess að fiskurinn fengi einhverstaðar frið, þá væri t.d. hægt að banna veiðar ca. 3 mílur frá landi allan hringinn og 3 mílur kringum eyjar og sker, nema kannski fyrir minnstu bátana. Að mínu mati ættu handfæraveiðar að vera frjálsar, ef frá er talið svokallað hrygningarstopp sem mætti kannski lengja upp í að vera einn mánuð á ári og að sjálfsögðu yrðu uppsjávarveiðar áfram fyrir utan slíkt kerfi og einnig yrði að útfæra sérstaklega veiðar á tegundum eins og grásleppu, humar, rækju o. fl. Þannig, og aðeins þannig, væri hægt að gera alla jafna, stöðva veðsetningu á fiskinum í sjónum, enda augljóslega ekki hægt að veðsetja það sem menn fá ekki úthlutað. Vissulega væri að einhverju leyti ósanngjarnt að aðilar sem væru búnir að selja sig út úr kerfinu ættu sömu möguleika og þeir sem væru búnir að kaupa sig inn í kerfið, með tilheyrandi skuldsetningu, en því væri þá hægt að mæta með því að leyfa þeim síðarnefndu að fá fleiri veiðidaga. Amk. held ég að það sé ekki góð framtíðarsýn að treysta á það að bæjarfélög eins og Vestmannaeyjar og önnur sjávarþorp á landinu þurfi að leggja allt sitt traust á erfingja í framtíðinni, enda hafa mörg bæjarfélög nú þegar farið illi út úr því.
 
Fiskveiðar og útgerð eru lífæð okkar Íslendinga í dag, það þarf að breyta þessu óréttláta fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur svo sannarlega ekki skilað okkur því sem lagt var af stað með í upphafi og því verður að breyta því, en það er ekki sama hvernig.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.