Sjúkrahús í Eyjum háð söfnun Bjarna

3.Nóvember'11 | 08:58
Áttræður Eyjapeyi hefur staðið fyrir söfnun til kaupa á tækjum fyrir Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Dvöl á Grensás kveikjan. Hefur keypt tæki fyrir um 170 milljónir króna. Skiptir öllu máli fyrir stofnunina, segir framkvæmdastjórinn.
"Þetta var síðasta gjöfin, enda er ég að verða áttræður," segir Bjarni Sighvatsson, fyrrverandi skipstjóri og útgerðarmaður, sem gaf Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannnaeyjum nýtt ómtæki í byrjun vikunnar.
 
Bjarni hefur verið í forsvari fyrir hópi fólks sem gefið hefur stofnuninni tæki og tól fyrir hátt í 200 milljónir króna síðustu tíu ár.
 
"Ég var einn af þeim fyrstu sem lentu á Grensásdeildinni þegar brotnaði hjá mér axlarliðurinn. Þá sá ég rosalega mikið af illa leiknu fólki," segir Bjarni spurður út í gjafirnar. "Mér er sérstaklega minnisstæður einn ungur maður frá Akranesi. Hann hafði komið til Reykjavíkur að kaupa bíl en á leiðinni upp á Skaga lenti hann í bílslysi og lamaðist. Hann grét svo mikið á kvöldin hjúkkurnar reyndu að vefja hann inn í teppi og hugga. Þetta tók svo á mig enda var þetta ungur maður sem er enn bundinn í hjólastól."
 
Saga unga piltsins af Skaganum varð til þess að Bjarni fór að velta því fyrir sér hvernig hann gæti stutt við bakið á Heilbrigðisstofnuninni í Eyjum. Hann leitaði því á náðir góðra vina. "Ég á svo marga góða vini og kunningja sem hafa stutt svona vel við bakið á mér," segir Bjarni.
 
Skipstjórinn fyrrverandi segist ekki muna öll þau tæki og tól sem hann hefur safnað fyrir. Þar má þó nefna 30 sjúkrarúm, röntgentæki og ljós á skurðstofuna, svo fátt eitt sé nefnt. Þá gaf hann skáp sem notaður er til að blanda saman lyfjum fyrir krabbameinsmeðferðir.
 
"Heilbrigðisyfirvöld ætluðu nú ekki að leyfa okkur að gefa skápinn en það hafðist með þrjóskunni," segir Eyjapeyinn.
 
Gjafirnar skipta stofnunina miklu.
"Þetta skiptir í raun öllu máli fyrir stofnunina. Við fáum um eina milljón króna á ári á fjárlögum til tækjakaupa. Það dugir kannski fyrir einni eða tveimur tölvum. Við erum hins vegar með tæki fyrir nokkur hundruð miljónir króna og þyrftum 30 milljónir á ári til að halda þeim við," segir Gunnar K. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.
 
"Ef þessar gjafir hefðu ekki komið til værum við ekki sjúkrahús heldur elliheimili. Þessi tæki skipta öllu í heilbrigðisþjónustu við Vestmannaeyinga."

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).