Hver er staðan í samgöngum og hver er krafa okkar heimamanna?

Elliði Vignisson skrifar

18.Október'11 | 09:36

Elliði Vignisson

Stundum finnst mér eins og við Eyjamenn séum sérfræðingar í að tala út og suður þegar kemur að samgöngum. Við tölum um allt í einu og missum allan fókus af því sem þarf að gera. Svo langt gengur þetta að þrátt fyrir að búið sé að setja upp hafnargarða með um 770.00 m3 af grjóti fyrir um 4000 milljarða þá snýst umræðan um hvort að staðsetningin sé sú rétta. Með því að dreifa umræðunni þá göngum við lengra en aðrir í því að ekkert gerist. Krafa okkar þarf að vera skýr og hún þarf að vera byggð á raunsæju mati. Til þess að svo verði þurfum við að...
..þekkja hver staðan er. Mitt mat á stöðunni er eftirfarandi:
 

Landeyjahöfn
Hönnun Landeyjahafnar hefur verið gagnrýnd. Ekki þarf að efast um að ef austari garðurinn næði lengra út og bryti þannig öldurnar þá væri aðkoma skipa öruggari og betri. Þetta væri þó háð því að slíkt yrði ekki til þess að garðurinn fangaði sand umfram það sem nú er. Hafnarverkfræðingar hafa að hluta til svarað þessum hugmyndum (sjá: http://sigling.is/?pageid=114&NewsID=1701). Einnig hefur verið bent á að áður en ákvörðun var tekin um framkvæmd við Landeyjahöfn þá var einnig lagt mat á kostnaðinn við lengri garða. Kostnaðaráætlun var um 25 milljarðar eða sjö sinnum meira en sú höfn sem við nú höfum. Þetta breytir því ekki að eðlilegt er að þessum ábendingum um lengri austurgarð verði tekið alvarlega og þær metnar af hlutlausum aðilum með tilliti til öruggari siglinga og kostnaðar. Ég mun því ítreka kröfu um að slíkt verði gert. Þetta breytir samt engu fyrir stöðuna á næstu árum, jafnvel þótt niðurstöður leiði í ljós að slík lenging sé framkvæmanleg þá tekur ferlið einhver ár (samgönguáætlun, fjárlög, hönnun, tankar og allt það).
 
 
Herjólfur
Herjólfur er góður til siglinga í Þorlákshöfn en hann er ekki hentugur til siglinga í Landeyjahöfn. Hann er of djúpristur og flest bendir til þess að siglingar á honum séu varasamar – jafnvel við kjöraðstæður (sbr. vanda með stjórnhæfni skipsins við ölduhæð vel innan við 2 metra). Á meðan hann verður í notkun verða frátafir verulegar á veturnar, bæði vegna dýpis og ölduhæðar. Mikilvægt er að sýna því skilning að skipstjórar geta ekki tekist á við vankanta skipsins með neinum öðrum hætti en að fella niður ferðir þegar þeir meta aðstæður þannig að skipið ráði ekki við þær. Hafa þarf hugfast að með nýrri höfn var verkefnið aðeins hálfklárað. Hönnun Landeyjahafnar gerði ráð fyrir minna og grunnristara skipi en Herjólfur er. Þá skal því einnig til haga haldið að eftir efnahagshrunið haustið 2008 var smíði á nýrri ferju frestað. Það var ekki hætt við. Það þarf því tafarlaust að ráðast í hönnun og smíði á nýrri ferju.
 

Baldur
Baldur er gamalt skip, nokkru eldra en Herjólfur. Aflið í honum er nokkuð mikið minna en í Herjólfi en á móti kemur að hann er mikið minni (600 tonn á móti 2000 tonnum). Burðageta skipsins er talsvert mikið minni en þörf er á en aðbúnaður farþega er góður í styttri siglingum. Baldur er hinsvegar óheppilegur til siglinga í Þorlákshöfn og ljóst að jafnvel þótt hann yrði notaður til siglinga í Landeyjahöfn þá þarf Herjólfur eftir sem áður að sigla í Þorlákshöfn þegar ekki gefur til siglinga Baldurs í Landeyjahöfn. Hjá því verður hinsvegar ekki horft að siglingar á Baldri gengu afbragðs vel þann tíma sem hann leysti Herjólf af. Mestu skiptir þar að hann er grunnristur. Rista skipsins er það lítil að sérfróðir telja að hægt verði að halda nægu dýpi fyrir það nánast allt árið. Baldur þolir einnig meiri ölduhæð en Herjólfur og frátafir vegna ölduhæðar verða að sama skapi minni. Baldur verður þó aldrei nema skammtíma lausn á vanda okkar og í ljósi þess að breytingar á honum eru kostnaðarsamar þá er hann –jafnvel sem vetrarlausn- vart í boði nema að leit að heppilegra skipi skili ekki árangri.
 

Notuð ferja erlendis frá:
Að beiðni samráðshóps hefur Vegagerðin óskað eftir því að Eimskip og Sæferðir hefji leit að heppilegu skipi til sigling í Landeyjahöfn. Jafnhliða leitar Vegagerðin sjálf að heppilegu skipi. Þetta er erfiðleikum bundið enda lítið um heppilegar B – ferjur (sjá hér um muninn á B og C ferjum: http://www.ellidi.is/is/frett/2011/10/12/afhverju_er_ekki_haegt_ad_nota_thessar_ferjur_sem_svo_margir_hafa_bent_a). Ef heppileg ferja finnst verður það af sjálfsögðu krafa okkar að slík ferja komi til þjónustu sem allra fyrst.
 

Dýpkun
Allt það sem snýr að dýpkun er ein sorgarsaga. Skandía hefur því miður bilað mikið og átt í ýmiskonar erfiðleikum. Í viðbót við aldur skipsins og slit þá eru aðstæður við Landeyjahöfn erfiðar og slit á tækjum og búnaði er hratt. Þá veldur það miklum vandræðum að sama vél er notuð til að knýja skrúfu skipsins og dælurnar. Margt bendir þó til þess að skipið geti athafnað sig við hærri ölduhæð en flest þeirra skipa sem hafa verið skoðuð. Það skiptir hinsvegar litlu á meðan skipið liggur bundið vegna bilana. Dýpkun í innsiglingu verður ekki í lagi fyrr en þar verður settur fastur dælubúnaður.
 

Staðan núna
Landeyjahöfn verður ekki flutt og jafnvel þótt það væri hægt þá er núverandi staðsetning sú eina sem þótti koma til greina. Hafnaverkfræðingar telja að höfninni verði ekki breytt. Rétt er þó að skoða það nánar. Jafnvel þótt að slíkt reynist kostnaðarlega og verkfræðilega framkvæmanlegt þá tekur undirbúningur og framkvæmd mörg ár. Á meðan Herjólfur siglir milli lands og Eyja verða frátafir í Landeyjahöfn miklar. Seinast sigldi Herjólfur í Landeyjahöfn 4. september. Til eru skip sem henta betur en Herjólfur við núverandi aðstæður.
 

Hver þarf þá krafan að vera?
Vonandi skilar leit að heppilegu skipi erlendis árangri og ef svo verður þá er krafan sú að slíkt skip verði leigt til að þjónusta a.m.k. á veturna þar til ný og sérhönnuð ferja hefur verið smíðuð. Ef ekki þá þarf að hugleiða alvarlega hvort Baldur geti leyst af siglingar í Landeyjahöfn í vetur. Það væri þó háð því að Herjólfur myndi sigla í Þorlákshöfn þegar ekki gefur til siglinga fyrir Baldur í Landeyjahöfn. Þetta þarf að vera hin skýra krafa okkar allra.
 

Það sem er í lagi
Að lokum er rétt að fjalla um það sem vel er í samgöngum okkar. Þjónusta flugfélagsins Ernir er hreint út sagt frábær. Ákvörðun ríkisstjórnar um að hætta stuðningi við flug til Vestmannaeyja hefur af sjálfsögðu hækkað fargjald en að öðru leiti er þjónustan góð.
 

Fylgt úr hlaði
Við aðstæður eins og nú er oft ágætt að fara í smá Pollýönnuleik og minna á að við verstu aðstæður í dag eru samgöngur á sjó eins og þær voru til 20. júlí í fyrra – tvær ferðir á dag í Þorlákshöfn. Slíkt er bara ekki boðlegt í dag eftir að við höfum kynnst kostum Landeyjahafnar.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).