Ferðaþjónusta hefur alla burði til að vera ný stoð undir atvinnulíf okkar Eyjamanna.

Elliði Vignisson skrifar

26.September'11 | 13:30
Bylting í samgöngum og aukin geta bæjarfélagsins hefur gjörbreytt stöðu Eyjanna hvað ferðaþjónustu varðar og það er skoðun mín að Vestmannannaeyjar séu í dag frjóasti jarðvegur íslenskrar ferðaþjónustu. Tækifærin eru því mikil, innviðirnir sterkir og viljinn er til staðar. Með þetta sem útgangspunkt tók Vestmannaeyjabæjar ákvörðun um að...
.. leita leiða til að efla enn frekar það góða starf sem hér er unnið og leitaði eftir aðstoð frá AÞS við kortlagningu á ferðaþjónustu. AÞS lagði í framhaldinu til að unnið yrði langtímaverkefni sem hefði það að markmiði að efla ferðaþjónustuna, bæta samstarf og nýta fjármuni sem mest. Niðurstaðan var að fá Sigurborgu Hannesdóttur hjá ILDI til að leiða verkefni undir nafninu „Áfangastaðurinn Vestmannaeyjar og stefna að myndun ferðaþjónustuklasa. Nú í vikunni var fyrsti formlegi fundurinn haldinn
 
 
Mikilvægasta verkefnið er aukið samstarf
Markmið verkefnisins er að styrkja innviði ferðaþjónustunnar í Eyjum, fjölga ferðamönnum, auka tekjur ferðaþjónustunnar, styrkja ímynd ferðaþjónustunnar og auka markaðssókn. Mikilvægt er að langtímahugsun og vönduð vinnubrögð ráði för. Grundvöllur verkefnisins er samstarf bæjarins við ferðaþjónustuaðila og þeirra samstarf innbyrðis, í ferðaþjónustuklasa. Það verður síðan þátttakenda í klasanum að ákveða að hverju verði unnið, m.t.t. þess hvar sé brýnast að bæta og/eða hvar eru helstu sóknarfærin og þar sem samstarf muni skila mestum árangri. Meðal viðfangsefna gætu verið: Vöruþróun, markaðsmál, gæðamál, eða allt þetta.
 

Vilji frekar en þörf
Landsmenn allir þekkja að atvinnulífið í Vestmannaeyjum stendur sterkt. Umsvifin fyrir neðan Strandveg hafa sjaldan verið jafn mikil og nú er. Hvatinn til að ráðast í gagngera endurskoðun á öllu sem snýr að ferðaþjónustu er því ekki komin til af þörf heldur vilja. Reyndin er nefnilega sú að eggin í atvinnukörfu okkar Eyjamanna eru fá. Í raun og veru er fátt annað en fiskur í körfunni. Eins stolt og við erum af þeirri stöðu okkar þá skiptir það okkur miklu að þróa samfélagið og finna fleiri sprota til að byggja á. Þar er ferðaþjónustan nærtækust.
 

Krafan um að fara vel með hinn sameiginlega sjóð
Við sem tímabundið tökum að okkur stöður þeirra sem stjórna bænum erum ætíð sett í þá stöðu að velja farveg fyrir peninga sem aðrir eiga. Á bak við hverja krónu sem við notum eru blóð sviti og tár bæjarbúa. Á hverjum degi eru hundruðir og þúsundir Eyjamanna sem ganga til starfa sinna í frystihúsum, til sjós, í þjónustustörfum og víðar. Af hverjum 1000 kalli sem þetta fólk fær í tekjur tökum við rúmar um 140 krónur í sameiginlegan sjóð okkar Eyjamanna – bæjarsjóð. Þann hluta notum við svo í að greiða fyrir rekstur skóla, reka skólpkerfið, þjónusta fatlaðra, halda við gatnakerfinu og fl. Ef þá er afgangur getum við notað hann í þau verkefni sem eru valfrjáls svo sem í uppbyggingu í ferðaþjónustu. Í ljósi þess hvernig það fé sem við höfum til að verja er til komið, þá er jafn fallegt að vel sé farið með það. Við viljum á öllum tímum geta sagt við eigendur þessara fjármuna að þeir séu notaðir skynsamlega. Við viljum því af sjálfsögðu vera viss um að þeim fjármunum sem bærinn ver til ferðaþjónustu, sé vel varið. Það er því eðlilegt að spurt sé hversu miklu Vestmannaeyjabær ver til ferða- og menningarmála (málaflokkurinn er rekinn sameiginlega).
 

Bæjarsjóður græðir ekki beint á ferðaþjónustu – bæjarbúar geta hinsvegar gert það
Í fjárhagsáætlun ársins í ár var gert ráð fyrir um 75,4 milljónum í mál sem tengjast ferða- og menningarmálum. (ath. að þar hefur ekki verið tekið tillit til tekna sem eru fyrst og fremst höfnin vegna skemmtiferðaskipa). Án reksturs safna verjum við um 49,3 milljónum í þennan málaflokk. Það þarf því launatekjur bæjarbúa upp á næstum 540 milljónir bara til að búa til nægar útsvarstekjur til að mæta þessum kostnaði. Það þarf því ekki mikla útreikninga til að sjá að varasamat er að draga þá ályktun bæjarsjóður sem slíkur græði á ferðaþjónustu. Til þess þarf hún að verða mikið mun öflugri en hún er í dag. Auðvitað er jafnan flóknari en þetta. Í viðbót við beinar tekjur samfélagsins af þeim störfum sem verða til þá fylgja ýmiskonar þægindi því að búa í bæ með blómstrandi ferðaþjónustu. Sennilega er einn mesti gróðinn fyrir okkur bæjarbúa einmitt að ferðaþjónustu fylgir svo mikil almenn þjónusta. Ég er ekki viss um að án ferðaþjónustu væru hér jafn margir matsölustaðir, verslanir, söfn og fl. Ég er ekki viss um að sundlaugin væri jafn glæsileg og raun ber vitni. Ég er ekki viss um að flug væri jafnöflugt. Ég er ekki viss um að ferðir Herjólfs væru jafn margar. Lengi má áfram telja. Þá skal því til haga haldið að ferðaþjónustan býr til mikið af tímabundnum störfum einmitt á þeim tíma sem skólafólkið hefur þörf og vilja til þátttöku. Í því eru líka mikil verðmæti.
 

Aukum samstarf – göngum í takt
Við hjá Vestmannaeyjabæ höfum nú þegar tekið ákvörðun um að við viljum leggja mikið í sölurnar til að efla ferðaþjónustu. Við viljum sjá þessa atvinnugrein eflast og dafna. Við teljum margt benda til þess að ferðaþjónusta geti orðið önnur af tveimur meginstoðum atvinnulífsins, ásamt sjávarútveginum. Vestmannaeyjabær hefur verið hugsi yfir hvernig þessum markmiðum verði best náð. Niðurstaða okkar er sú að lykilatriði sé að við öll sem að málum komum aukum samstarf og göngum í takt. Samstarfið verður að vera bæði innan atvinnugreinarinnar og milli atvinnugreinarinnar og bæjarins hins vegar. Við teljum að nú séu tækifæri til að þroska þessa atvinnugerin og rækta sameiginlega hagsmuni.
 

Það er von og trú mín að verkefnið „Áfangastaðurinn Vestmannaeyjar“ verði lóð á þessa mikilvægu vogarskál. Við hjá Vestmannaeyjabæ höfum trú á ferðaþjónustunni. Og nú viljum við sækja fram!

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).