Aðsend grein

Frjálslyndi flokkurinn mun vinna gegn því að stóra frumvarpið svo kallaða verði samþykkt á Alþingi

Gretar Mar Jónsson skrifar

14.September'11 | 21:15

Frjálslyndir Grétar Mar

Það er staðreynd að þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa fengið styrki frá útgerðarfyrirtækjum og eru því í raun keyptar málmpípur þröngra sérhagsmuna og vinna gegn heildarhagsmunum þorra þeirra sem kusu þá á þing eða réðu til að fara með stjórn sveitarfélaga í landinu. Sumir kalla þessa styrki mútur.
Nokkrir bæjarstjórar hafa leyft sér með vitund og vilja meirihluta sveitarstjórna að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi. Þeir gera þetta þrátt fyrir að það komi í veg fyrir lögbundið atvinnufrelsi manna og brjóti mannréttindi á þegnum landsins samkvæmt áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Bæjarstjórarnir hafa ekki bara lýst yfir stuðningi við óbreytt kerfi. Þeir hafa einnig leyft sér að nota tekjur sveitarfélaga til að standa straum af kostnaði við auglýsingaherferð gegn öllum breytingum á núverandi kerfi.
 
Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum hefur farið fremstur í flokki þeirra sem hafa á opinberum vettvangi lýst sig andvígan breytingum á kerfinu. Hann telur að með því sé hann að verja atvinnu í Eyjum og koma í veg fyrir atvinnuleysi og fólksflótta. Hann hefur því tekið að sér að verja sérhagsmuni fárra útgerðarmanna í Eyjum gegn heildarhagsmunum.

Hann hefur kosið að sleppa því að tala um að í Eyjum eru níu til tíu standveiðibátar sem hafa notið góðs af standveiðum, að menn hafi nýtt sér línuívilnun og að nokkrir hafi leigt til sín skötuselskvóta frá ríkinu. Þessar breytingar á núverandi kerfi hafa orðið til að auka afla í Eyjum og þar með atvinnu en um það er ekki talað.

Hann kýs eins og svo margir aðrir í grátkór sægreifanna að halda því fram að ef fyrningarleið verði farin komi það til með að leiða til minni afla og afleiðingar þess verði atvinnuleysi og fólksflótti. Þetta er að sjálfsögðu bull því þó að fyrning komi til með að verða að veruleika eða aðrar breytingar verði gerðar á kerfinu er ekki verið að leggja til minna aflamagn. Það er því ekkert sem bendir til að það komi til með að þurfa færra fólk við veiðar og vinnslu.

Það sem Eyjamenn og þeir sem sitja í sveitarstjórn fyrir þá ættu að hafa áhyggjur af er hvernig eignarhald verður í framtíðinni á sjávarútvegsfyrirtækjunum sem eru þar nú. Menn ættu í því sambandi t.d. að spyrja sig hvaða áhrif það hefði ef Guðmundur Kristjánsson vinnur þau málarefli sem hann á nú í við forstjóra og stjórn Vinnslustöðvarinnar. Menn ættu í því sambandi að minnast þess sem gerðist með Básafell á Ísafirði og Ú.A. á Akureyri.

Að lokum er rétt að það komi fram að Frjálslyndi flokkurinn mun vinna gegn því að stóra frumvarpið svo kallaða verði samþykkt á Alþingi. Við teljum að þetta frumvarp gangi ekki nógu langt í þá veru að auka jafnræði, atvinnufrelsi og það sé ekki til þess fallið að tryggja mannréttindi hér á landi. Frjálslyndi flokkurinn vill að veiðar verði auknar í flestum tegundum sem kæmi til með að styrkja sjávarbyggðirnar í landinu. Einnig viljum við að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar.

Að gefnu tilefni skal því til haga haldið að Frjálslyndi flokkurinn fékk styrk frá einu sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjum fyrir síðustu alþingiskosningar.
 
Grétar Mar Jónsson,
skipstjóri.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.