Aldrei þjálfað peninganna vegna

Kannski býðst eitthvað skemmtilegt og þá skoða ég það

Segir Heimir Hallgrímsson við Fréttablaðið í dag

13.September'11 | 07:30

ÍBV Heimir Hallgrímsson

Það vakti að vonum mikla athygli á sunnudag þegar Heimir Hallgrímsson tilkynnti að hann myndi láta af þjálfun ÍBV-liðsins í lok tímabilsins. Það kemur eflaust mörgum á óvart enda hefur ÍBV verið á stöðugri uppleið undir stjórn Heimis. Tímasetning tilkynningarinnar vekur einnig athygli en ÍBV er í blóðugri baráttu um Íslandmeistaratitilinn við KR.
„Þetta var farið að kvisast út enda sagði ég stjórninni frá ákvörðun minni fyrir mánuði. Þetta fór að kvisast út og því vildum við segja fréttina áður en aðrir færu að slúðra um málið,“ segir Heimir en ÍBV hefur þegar gefið út að Magnús Gylfason taki við liðinu. Eftir stendur samt spurningin af hverju Heimir sé að hætta.
 
 
Minn tími er liðinn í Eyjum
„Ég er búinn að skila mínu til félagsins og ég ætla ekki að vera ellidauður þjálfari ÍBV. Minn tími er einfaldlega kominn hér. Strákarnir hafa gott af nýju blóði. Mér finnst þetta líka frábær tími til að stíga til hliðar. Það er allt önnur umgjörð, staða og allt annað lið en þegar ég tók við á sínum tíma. Ég tel mig því skila ansi góðu búi,“ segir Heimir en hann tók við liðinu af Guðlaugi Baldurssyni er það féll árið 2006.
 
Heimir var með liðið í tvö ár í 1. deild en eftir að ÍBV komst upp aftur hefur það verið á mikilli siglingu. Var mjög nálægt því að vinna titilinn í fyrra og er aftur í baráttunni núna.
 
Nú þegar eru farnar af stað sögusagnir um að Heimir sé að fara hingað og þangað. Hann segir allar þær sögur vera rangar enda hafi hann ekki rætt við nein félög enn sem komið er. Hann muni þó hlusta komi áhugaverð tilboð.
 
„Ég hef ekkert verið að velta mér upp úr framhaldinu en vonandi fæ ég að þjálfa einhvers staðar. Það er engin flétta eða neitt í gangi hjá mér. Það er sannleikurinn. Ég tel mig vera að gera félaginu greiða með því að láta vita í tíma svo þeir geti gert sínar ráðstafanir. Ég er að hugsa um hagsmuni ÍBV og tel mig hafa komið heiðarlega fram,“ segir Heimir en hann hefur enga trú á því að þetta mál trufli ÍBV-liðið í lokaleikjum mótsins.
 
 
Það væri gaman að prófa eitthvað nýtt
Heimir ætlar að skoða sín mál eftir tímabilið en hefur alls ekki tekið neina ákvörðun um að flytja upp á land. Hann er tannlæknir í Vestmannaeyjum og það er það eina sem liggur fyrir í dag.
 
„Ég vona að ég sé ekki hættur að þjálfa. Kannski býðst eitthvað skemmtilegt og þá skoða ég það. Ég hef aldrei verið að þjálfa peninganna vegna og er ekkert að fara á taugum. Það er bara léttir fyrir mig að þetta mál sé komið út svo ég geti lagt það til hliðar,“ segir Heimir sem þekkir aðeins að þjálfa í Eyjum.
 
„Það gæti verið gaman að prófa eitthvað nýtt. Hið eina sem er á ferilskránni hjá mér er ÍBV. Yngri flokkar, kvenna- og karlalið. Eins og ég segi skoða ég það sem kemur upp en ég get sagt af fullum heiðarleika að ég er ekki með neitt annað tilboð í höndunum sem stendur,“ segir Heimir en hann nennti ekki að svara símtölum í gær en síminn hringdi mikið hjá honum þá.
 
„Ég hefði líklega svarað hefði komið símtal frá Englandi,“ segir Heimir léttur og hlær við.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).