Göngumessa á keltneskum degi

8.September'11 | 14:29

Stafkirkjan

Göngumessa verður í Vestmannaeyjum núna á sunnudag helguð minningu Keltanna sem fyrstir sungu hér helgar tíðir og helguðu Eyjarnar Drottni. Göngumessan er samkirkjuleg og standa a.m.k. fjórar kirkjudeildir að henni. Hún hefst í Landakirkju kl. 13 á sunnudaginn og er áætlað að dagskránni verði lokið með kirkjukaffi í Hvítasunnukirkjunni um tveimur tímum síðar.
Í Herjólfsdal og við Heimaklett verða helgistundir og í Stafkirkjunni verður altarisganga, en gengið er á milli með keltneskan göngukross. Á hverjum áningarstað verður örstutt staðarlýsing og dregið fram hvers vegna hæfir að syngja þar sálma og helga sig í bæn í messunni. Tilefnið er að fyrr í sumar komu fræðimenn frá Írlandi á skútu til Eyja, sem þrætt höfðu papaslóðir á Norður Atlantshafi, og með þeim sr. Gunnþór Ingason, prestur á sviði þjóðmenningar og helgihalds. Hann er einn helsti hvatamaður að þessu helgihaldi sem vísar til forn keltneskrar kristni og menningar á Íslandi. Gísli Óskarsson hefur og unnið stuttan sjónvarpsþátt um heimsókn þessara manna í sumar. Þeir sálmar sem sungnir verða eru að mestu sálmar við keltneska tónlist, t.d. sálmur Hjálmars Guðnasonar við írska þjóðlagið sem þekkt er sem „Morning has broken“. Hljóðfæraleikarar verða allmargir sem leika á orgel, píanó, gítara og fiðlu.
 
Sálmar, signingar og bænir eru að mestu úr forn keltneskum trúararfi. Meðal þeirra má nefna fornar bænir kenndar við Kollum Killa og heilagan Patrek og signing Auðar djúpúðgu. Fulltrúar úr Þjóðkirkjunni, Hvítasunnukirkjunni, Kaþólsku kirkjunni og Aðventistum skiptast á að leiða bænir en með prentuðum bæklingi verður öllum gefinn kostur á að fara saman með þessar bænir og taka virkan þátt í helgihaldinu.
 
Séð verður fyrir rútuferð allan hringinn en einnig er mögulegt að fara á bátum yfir frá Heimakletti að bryggjunni við Stafkirkjuna. Þeir sem hafa tök á því að koma með báta eru beðnir að hafa samband við forstöðumenn safnaðanna og eins þeir sem vilja leggja til kaffibrauð í kirkjukaffið í lokin. Dagskráin er þátttakendum að kostnaðarlausu og allir eru velkomnir til að ganga á vit sögunnar með þessum merkilega og sérstæða hætti.
 
Nánari upplýsingar:
sr. Kristján Björnsson, s. 856 1592
Guðni Hjálmarsson, s. 861 4848
 
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).