Jöfnunarmark á ögurstundu

25.Ágúst'11 | 20:20
KR og ÍBV, tvö efstu liðin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, skildu jöfn á KR-velli í kvöld, 2-2, og staðan á toppnum er því enn í sama hnút. KR hefur enn tveggja stiga forskot og á leik til góða, en væntanlega fagna fáir þessum úrslitum jafn mikið og FH-ingar, sem sitja í þriðja sæti og eru fjórum stigum á eftir toppliði KR. KR-ingar komust tvisvar yfir í leiknum í kvöld, en síðara jöfnunarmark sitt skoruðu Eyjamenn í uppbótartíma síðari hálfleiks.
KR 2-2 ÍBV (1-0)
1-0 Guðjón Baldvínsson 22.mín.
1-1 Tryggvi Guðmundsson 54.mín.
2-1 Guðjón Baldvinsson 78.mín.
2-2 Aaron Spear 90.mín.
 
Eyjamenn virkuðu ögninni betur innstilltir á leikinn á upphafsmínútunum, Heimir þjálfari stillti upp með Finn og Þórarin Inga sem djúpa miðjumenn fyrir aftan þriggja manna línu og Tryggva einan í fremstu víglínu og mannfjöldinn á miðjunni virtist skapa alls kyns vandræði fyrir KR-inga. Heimamenn söknuðu nokkurra sterkra leikmanna sem eru fjarverandi og brugðust við með því að setja Ásgeir Örn í hægri bakvörðinn, Aron Bjarka í miðvörð og Björn Jónsson á kantinn á móti Kjartani Henry. Eyjamenn hjuggu talsvert að KR-ingum framan af leiknum, án þess þó að skapa sér umtalsvert marktækifæri, en það vakti nokkra athygli að sóknaraðgerðir þeirra gengu nánast undantekningalaust út á það að setja boltann út til hægri þar sem Guðmundur Reynir tók mönnum fagnandi og pakkaði þeim saman. Afar fátítt var að sóknarlotur Eyjamanna leituðu út til vinstri, þar sem Ásgeir Örn stóð vaktina með Aron Bjarka sér við hlið. KR-ingar áttu nokkrar snarpar og lofandi sóknir og ein þeirra skilaði marki á 22.mín. Markið skrifast á klaufagang Alberts Sævarssonar í marki ÍBV, hann missti hálfgerðan æfingabolta úr höndunum, beint fyrir fætur Guðjóns Baldvinssonar sem þakkaði pent fyrir sig og skóflaði boltanum yfir marklínuna. Ætla mætti að mark, hvorum megin sem er, yrði til þess að hleypa lífi í leikinn og jafnvel auka gæðin, sem voru af skornum skammti, en engu líkara var en að menn væru enn á núllinu allt til loka fyrri hálfleiks. Eyjamenn voru meira með boltann, KR-ingar náðu reyndar að stilla sig af og jafna út baráttuna á miðjunni með því að færa Björn og Kjartan Henry fetinu aftar, en fátt var um fína drætti og í hálfleik höfðu heimamenn eins marks forystu.
 
Sviparðu taktur var í leiknum á upphafsmínútum síðari hálfleiks, Eyjamenn voru ögninni sókndjarfari án þess þó að skapa sér álitleg færi, en KR-ingar lágu tilbaka og reyndu að sækja hratt. Tryggvi Guðmundsson lét svo til sín taka á 54.mínútu þegar hann skoraði eitt af fallegustu mörkum sumarsins. Eyjamenn fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig KR hægra megin, um réttmæti dómsins má vissulega deila, en Tryggvi hafði minnstar áhyggjur af því og límdi boltann upp í vinkilinn, óverjandi fyrir Hannes í markinu. Eftir þetta mark Tryggva tóku KR-ingar kipp, færðu sig framar á völlinn og gerðust nokkuð ágengir. Björn og Kjartan Henry létu meira að sér kveða á vængjunum og þetta hafði þau áhrif að leikurinn varð mun líflegri og skemmtilegri á að horfa, en marktækifærin létu þó á sér standa. Hröð sókn KR skilaði loks árangri á 78.mínútu, Björn Jónsson átti þá skot úr teignum eftir sendingu frá hægri sem Albert varði í stöng og út og þar var Guðjón Baldvinsson mættur til að þruma boltanum í netið. Fátt benti til annars en að KR-ingar myndu innbyrða sigur, þeir höfðu leikinn meira og minna í hendi sér á lokamínútunum, en Eyjamenn eru þekktir fyrir flest annað en að gefast upp. Varamennirnir Kjartan Guðjónsson og Aaron Spear sáu um jöfnunarmarkið, sem kom í uppbótartíma; Kjartan átti fínan sprett inn á teiginn hægra megin og renndi boltanum fyrir þar sem Spear var réttur maður á réttum stað og skoraði, 2-2.
 
Það sem réði úrslitum: Barátta og barningur, bæði liðin neituðu að gefast upp. Stöðubaráttan var allsráðandi, leikkerfi Eyjamann virtist framan af leik ætla að ganga upp, en KR-ingar náðu að aðlaga sig og voru hársbreidd frá því að tryggja sér dýrmætan sigur. Eyjamenn gefast aldrei upp, það er gömul saga og ný.
 
Maður leiksins: Finnur Ólafsson, ÍBV. Gríðarlega traustur á miðjunni, braut ófáar sóknir KR-inga á bak aftur og dreifði spilinu ágætlega.
 
KR: Hannes Þór Halldórsson – Guðmundur Reynir Gunnarsson, Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Aron Bjarki Jósepsson, Ásgeir Örn Ólafsson (Dofri Snorrason 69.mín.) – Bjarni Guðjónsson (f), Baldur Sigurðsson, Viktor Bjarki Arnarsson (Egill Jónsson 74.mín.) – Björn Jónsson (Gunnar Þór Gunnarsson 90.mín.), Kjartan Henry Finnbogason – Guðjón Baldvinsson.
Varamenn: Atli Jónasson, Gunnar Örn Jónsson, Hróar Sigurðsson, Davíð Einarsson.
 
ÍBV: Albert Sævarsson – Matt Garner, Rasmus Christiansen, Andri Ólafsson (f) (Brynjar Gauti Guðjónsson 81.mín.), Arnór Eyvar Ólafsson – Finnur Ólafsson, Þórarinn Ingi Valdimarsson – Guðmundur Þórarinsson (Kjartan Guðjónsson 90.mín.), Tonny Mawejje, Ian Jeffs (Aaron Spear 81.mín.) – Tryggvi Guðmundsson.
Varamenn: Abel Dhaira, Yngvi Magnús Borgþórsson, Jón Ingason, Óskar Elías Zoega Óskarsson.
 
Dómari: Þóroddur Hjaltalín jr.
Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Halldór Breiðfjörð Jóhannsson.
 
Áhorfendur: 2.896.
 
www.sport.is
 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%