Í miðbæ Vestmannaeyja er nú að finna byggðarleg gæði sem styrkja stöðu bæjarins samanborið við aðra þéttbýlisstaði.

18.Ágúst'11 | 10:28

Vestmannaeyjar Vestmannaeyjabær

Þegar vinna við tillögur að skipulagi við Löngulá fór fram óskaði skipulags- og byggingarfulltrúi Vestmannaeyja eftir því við skipulagsfræðingar Alta legðu mat á möguleg áhrif verslunaruppbyggingar á Malarvelli á miðbæ Vestmannaeyja.
Eyjar.net birtir hér að neðan punkta úr minnisblaði skipulagsfræðinga Alta:
 
Þróun í verslun
Þróun staðsetningar verslunar- og þjónusturýmis á Íslandi er í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar á síðustu tveimur áratugum. Frá örófi var verslunin staðsett þar sem aðföng bárust, oftast við hafnir. Miðbæir sjávarbyggða umhverfis landið bera þess glöggt merki. Þeir hafa að mestu byggst upp við gömlu hafnarsvæðin og eru Vestmannaeyjar sérlega gott dæmi um það.

Staða miðbæjarins í Vestmannaeyjum
Miðbærinn í Vestmannaeyjum er einn mest aðlaðandi miðbær hérlendis og sérstakur að því leyti að þar hefur haldist mjög blönduð byggð í gamla bænum sem aftur er í nánum tengslum við höfnina og atvinnulífið. Annars staðar hefur þetta skilist að á kostnað fjölbreytni og gönguvæns umhverfis.
 
Ekki er til sérstök stefna um verslunar-uppbyggingu í Vestmannaeyjum. Skipulags- og byggingarfulltrúi tók saman þann 28. júní sl. tölulegar upplýsingar um fjölda og stærðir verslana og þjónusturýma innan miðbæjarmarka. Miðbæjarmörk eru skilgreind sem það svæði þar sem þéttleiki verslunar og þjónustu er mestur (sjá mynd). Þessi úttekt er bundin við heimilisfang, þannig að allt verslunar- og þjónusturými í sama húsnúmeri birtist sem ein tala óháð því hvort um eina að fleiri búðir er að ræða.
 
Innan miðbæjarmarka er að finna 50 heimilisföng sem hýsa verslun og þjónustu. Alls eru 14.904 m2 undir verslunar- og þjónusturými, þar af 7.711m2 undir verslanir. Að stærstum hluta er um að ræða lítil rými sem eru dreifð um miðbæinn. Aðeins níu rými fara yfir 500 m2 og tvö yfir 1.000m2.
 
Flest stærstu rýmanna deila gólffletinum niður á nokkrar hæðir og er grunnflöturinn því mun minni en tölur í töflunni gefa til kynna. Eins vekur athygli að þrjú verslunarrými í hópi þeirra stærstu eru nýbyggð. Þetta gefur til kynna að miðbærinn hefur þróast þannig að verslunaruppbygging geti farið fram innan marka hans.

Vestmannaeyjar eru sjávarbyggð með lifandi miðbæ sem hefur að geyma skýr sérkenni og fjölbreytta verslun og þjónustu sem hefur þróast innan ramma gamla bæjarins. Í miðbæ Vestmannaeyja er nú að finna byggðarleg gæði sem styrkja stöðu bæjarins samanborið við aðra þéttbýlisstaði.

Uppbygging við Löngulá
Í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002 – 2014 er Langalá skilgreind sem svæði undir verslun og þjónustu. Reiturinn er 4 ha og nýtingarhlutfallið 0,2. Engar takmarkanir eru á uppbyggingu innan reitsins og tæknilega séð er því rúm fyrir 12.000 m2 af nýju verslunar- og þjónusturými innan reitsins.
Langalá er við útjaðar syðsta hluta Vestmannaeyjabæjar og á sama tíma nokkuð miðsvæðis í byggðinni. Vegalengdin frá miðbænum (horni Vesturvegar og Bárustígs) er um 950 m en um 450 m frá næsta jaðri miðbæjarins (horni Hásteins- og Skólavegar). Vert er að hafa í huga að nýlega lauk vinnu við deiliskipulag hafnarsvæðisins sem miðar meðal annars að því að tengja höfn og miðbæ betur saman. Gangi markmið skipulagsins eftir má gera ráð fyrir að þyngdarpunktur miðbæjarins færist norðar eða nær höfninni og um leið fjær Löngulá.

Sú starfsemi sem fyrirhuguð er í því húsnæði sem óskað hefur verið eftir að byggja við Löngulá er af tvennum toga. Annars vegar starfsemi sem fellur undir hefðbundna miðbæjarstarfsemi, það er matvörumarkaður og pósthús og hins vegar plássfrek sérvöruverslun með byggingarvörur. Sú uppbygging sem óskað er eftir á malarvellinum er alls 5.925 m2 og jafngildir ríflega 20% af heildarstærð verslunar- og þjónusturýmis miðbæjarins. Sé einungis litið til þess rýmis sem mun hýsa miðbæjarstarfsemi þ.e.a.s. matvörumarkað og pósthús yrði uppbyggingin á malarvellinum öllu minni eða 1.550 m2 eða 10% af því rými sem nú er innan miðbæjarins.

Án þess að hafa séð samninga verktaka og verslunareigenda þá má telja líklegt að um sé að ræða einhverskonar „heildarpakka“ þess efnis að einingin verði ekki slitin í sundur, enda hafi hver rekstraraðili hag af nálægð við hinn. Gengið er útfrá því að málum sé þannig háttað við mat á áhrifum þessarar uppbyggingar og skoðun á möguleikum á annarri staðsetningu.
 
Áfram verður haldið að birta punkta úr minnisblaði Alta á morgun
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%