Vegna sálgæslustarfa í Herjólfsdal yfir Þjóðhátíð

-nokkrar athugasemdir frá starfsfólki sálgæslu

3.Ágúst'11 | 11:30
Vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum í kjölfar Þjóðhátíðar vill starfsfólk sálgæslu koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:
 
Starfsmenn sálgæslu eru ótengdir ÍBV en koma að störfum í Herjólfsdal fyrir Þjóðhátíðarnefnd. Sálgæslustarfsmönnum er ætlað að aðstoða gæslufólk þegar aðstoða þarf fólk í uppnámi og til að aðstoða fólk sem verður fyrir ýmis konar áföllum og veita þar sálræna skyndihjálp. Sálgæsluaðilar og barnaverndarstarfsmenn eru með vaktsíma alla þjóðhátíðina.
 
 
Sálgæsluvaktir hafa verið á Þjóðhátíð a.m.k. undanfarinn áratug. Þeim er sinnt af fagfólki sem flestir eru jafnframt starfsmenn barnaverndarnefndar Vestmannaeyja. Á sl. Þjóðhátíð var starfsfólki sálgæslu fjölgað þannig að ávallt voru tveir á vakt og var þá annar einnig starfandi starfsmaður barnaverndarnefndar og gat annast þau barnaverndarmál sem upp komu. Sálgæsluaðilar Þjóðhátíðar 2011 voru 6 talsins, tveir sálfræðingar, tveir félagsráðgjafar, einn félagsfræðingur og einn kennari / náms- og starfsráðgjafi með framhaldsnám í hugrænni atferlismeðferð. Allir þessir starfsmenn hafa áralanga reynslu í starfi m.a. við félagsþjónustu, barnavernd, sálgæslu og sálfélagslega meðferð. Sálgæsluaðilar funda fyrir og eftir Þjóðhátíð, m.a. með yfirmanni félagsþjónustu og barnaverndarmála og stilla þannig saman strengi sína fyrir helgina og gera síðan helgina upp og koma með ábendingar til Þjóðhátíðarnefndar um hvað megi betur fara.
 
Sálgæsluaðilar koma m.a. að kynferðisbrotamálum og eru þolendum til stuðnings með fylgd á sjúkrahús, til lögreglu og þar til þolandi er farinn frá Vestmannaeyjum en þá tekur Neyðarmóttaka Landspítalans við. Þegar um þolanda undir lögaldri er að ræða (þ.e. undir 18 ára aldri) er einnig gripið til annarra viðeigandi úrræða s.s. að hafa samband við forráðamenn, barnaverndarnefnd þar sem barn er búsett og ef þörf krefur, að vista barn í öruggum aðstæðum þangað til það kemst til síns heima. Þetta er mögulegt þar sem annar sálgæslustarfsmaðurinn er jafnframt starfsmaður barnaverndarnefndar og hefur sýnt sig að nauðsynlegt er að geta gripið til slíkra úrræða.
Sálgæsluaðilar koma einnig að málum eins og sálrænni aðhlynningu eftir líkamsárásir, óhöpp og slys, þegar um ofneyslu vímuefna er að ræða ofl. Til sálgæslunnar hefur verið leitað vegna einstaklinga í kvíðakasti, sorgarviðbrögðum eftir ástvinamissi, vegna samskiptavandamála í fjölskyldu eða við maka og vegna ýmis konar vanlíðanar. Engin meðferðarvinna á sér stað eins og gefur að skilja enda bjóða hvorki aðstæður né ástand einstaklinga upp á slíkt en aðhlynning og sálræn skyndihjálp og ýmis konar aðstoð er veitt s.s. að hringja í vini og fjölskyldu, útvega svefnstað og tryggja öryggi. Fólk sem er í vanlíðan er hvatt til að sækja sér frekari aðstoð þegar það er tilbúið til slíks.
 
Það er reynsla sálgæsluaðila að gæsla í Herjólfsdal sé öflug og fagleg. Þar koma saman fagmenn í björgunarstörfum af fastalandinu, sumir með áratuga reynslu, ásamt heimafólki þar sem um er að ræða fólk sem þekkir allar aðstæður í Herjólfsdal og Vestmannaeyjum almennt. Öll vinna gæsluaðila, lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks er að mati sálgæsluaðila til fyrirmyndar og vinna allir þessir aðilar öflugt saman og með Þjóðhátíðarnefnd. Gæslan er að mati sálgæsluaðila mjög sýnileg á þjóðhátíðarsvæðinu.

Sálgæsluaðilar leggja ekki mat á hvort forvarnir væru virkari með veru Stígamóta eða NEI hópsins á staðnum en benda á að þeir aðilar geta aldrei komið í stað þess sálgæsluteymis sem vinnur í dalnum, m.a. vegna þeirrar barnaverndarvinnu sem á sér stað og þess fjölbreytta hóps sem sálgæsluteymi þjónar. Hins vegar má vel taka undir að sálgæslan mætti vera auglýst betur fyrir þjóðhátíðargesti því starfsmenn vilja koma að sem mestu og bestu gagni en gæslan, lögreglan og annað starfsfólk er upplýst um að sálgæsla sé á staðnum og hafa vísað fólki þangað. Þá hafa sálgæsluaðilar bent á nauðsyn þess að taka upp virkara eftirlit eftir því sem kostur er, sérstaklega með ungmennum, s.s. með annars konar armböndum fyrir ungmenni undir lögaldri og skráningu á þeim sem þurfa aðhlynningu vegna ölvunar. Þá hafa sálgæsluaðilar bent á nauðsyn þess að ítreka mikilvægi útivistarreglna, barnaverndarlaga og áfengislaga og að allir hlutaðeigandi, gæslufólk, þjóðhátíðargestir og fjölmiðlar séu meðvitaðir um ábyrgð forráðamanna á börnum sínum.
 
 
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is