Páll Scheving kveður Gústa

Minningarorð um fallinn félaga

1.Júlí'11 | 19:19
Jæja vinur, þá er þinni ferð lokið. Það er víst sama hversu mikil lífsþrá okkar er, jarðvist okkar endar, sem betur fer. Ég veit ekki hvernig blessað lífið væri, ef hér í Eyjum væru margir íbúar ríflega þúsund ára gamlir. Við hefðum samt haft gaman af því að spekúlera í því og útfæra það í smásögu, elsku kallinn minn. Við skrifum víst ekki fleirri slíkar, í bili. Þú kvaddir daginn eftir fimmtugsafmælið þitt. Það þykir ekki löng vist í mannheimum, en í þínu tilfelli var það að mörgu leyti kraftaverk. Til hamingju með það vinur. Það sló í þér stórt og sterkt hjarta. Sem barðist, þó lífið hafi lamið þig.
 
 
Við ólumst upp á sömu torfunni. Þú á Rafnseyri og ég á Hjalla. Við vorum vinir. Í minningunni eru margir dýrðardagar með uppátækjasömum ólátabelgjum, í stöðugri leit að ævintýrum, gulli og grænum skógum, í iðandi mannlífi. Sólin skín þessa daga í minningunni. En því miður ekki alla. Þú fékkst í vögguna dóminn. Þú áttir að glíma við matarfíkn og offituvanda. Það var sjaldgæft og ekki auðvelt á þeim árum sem við slitum barnskónum í miðbæ í Vestmannaeyja. Að vera feitur, seinn og silalegur var á þessum árum ávísun á mikið miskunnarleysi, gríðarlega árás umhverfisins á veikan einstakling. Hrottalegt einelti. Þá var ekki búið að finna upp það orð. Ég man eftir dögum sem vanþroskaðir kvalarar beittu þig gríðarlegu ofbeldi, líkamsmeiðingum og svo var sjálfsagt að láta þig borða úr ruslatunnum, þú varst jú feitur, það þurfti að lækna þig. Vinur minn, það nísti merg og bein að horfa á aðfarirnar og hafa ekki alltaf haft kjark til að grípa inn í. Ég var tveimur árum yngri en þú og kvalararnir yfirleitt miklu eldri. Sumir virðulegir borgarar í dag. Það var þó erfiðast af öllu að átta sig á því þegar ég fylgdi þér heim grátbólgnum eftir mjög slæma útreið, að ekki var skjól heima. Ekkert var dapurlegra. Það er þekkt að þolendur ofbeldis af þessu tagi verði á einhverjum tímapunkti gerendur, kannski kom það fyrir þig. Ég sá það aldrei. Kæri vinur, það er gott að fyrirgefa. Þú ólst upp í miklum ótta. Hann setti mark sitt á líf þitt. Fyrirgefningin er lausn.
 
Þú fékkst ekki bara veikleika í vögguna. Langt því frá. Þvílíkar Guðs gjafir voru í þig bornar. Listrænir hæfileikar. Tónlist, leiklist, myndlist, stórkostleg rödd, skáldgáfa, falleg rithönd og einstakur húmor. Það var sama hvaða hljóðfæri þú snertir, öll sendu frá sér fallega hljóma. Við Viktor bróðir eigum margar ógleymanlegar stundir úr kjallaranum á Rafnseyri. Við komum oft þegar við vorum þunnir. Hlustuðum fyrst á stórkostlegar ræður frá þér, sem sjálfur varst bindindismaður á áfengi alla tíð, um ólánið og heimskuna sem áfenginu fylgja. Við hlógum okkur alveg máttlausa, svo fengum við frábæra tónleika. Þú spilaðir á hljómborðið og söngst fyrir okkur. Fáar skemmtanir sem ég hef í lífinu sótt, hafa Gústi minn, slegið þeim við sem ég sótti í kjallarann á Rafnseyri. Það gladdi þig mikið þegar við bræðurnir settum tappann í flöskuna, fyrst Viktor, svo ég. Sú gleði var sönn. Þú hafðir rétt fyrir þér.
 
Mörg börn eru lánsöm, njóta leiðsagnar og hvatningar til þess að virkja hæfileika sína. Þannig var það ekki í þínu tilfelli. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig forráðamaður barns sem býr yfir jafn ríkum hæfileikum og þú bjóst yfir, Gústi minn, getur ekki heillast af þeim og nært þá, heldur ákveður að brjóta þá niður. Af hvaða hvötum spratt sú afstaða? Hver af höfuðsyndunum var á ferðinni? Það er mín skoðun, kæri vinur, að þessi dapurlega staðreynd ásamt einelti og stöðugum ótta, hafi dregið úr þér viljann og rænt þig framkvæmda mættinum. Hafi í raun skert sjálfsmynd þína alvarlega og starfsorku varanlega. Það þroskast enginn eðlilega úr svona jarðvegi. Því svo sannarlega áttirðu erfitt með að fóta þig í lífinu og finna þína fjöl. Því verður ekki neitað. En það átti sér aðrar skýringar en þá að þú værir ræfill, þó sú skoðun væri nokkuð ríkjandi. Enda mun betra og einfaldara en að flytja einhverja ábyrgð á samfélagið.
 
Stundin sem þú fannst fyrst alvarlega fyrir sjúkdómnum sem herjaði á þig er mér í fersku minni. Þegar þú misstir máttinn í fótunum á gangi með mér og Viktori bróður. Við þurftum að bera þig og leggja þig til í bílnum. Frá þeirri stundu breyttist líf þitt og ekki löngu seinna hafði þessi óværa rænt þig bæði fótum og höndum. Það var eitt svolítið merkilegt þegar þú hafðir misst máttinn, orðinn bundinn við hjólastól, hvað margir héldu að þú værir hreinlega að leika, plata. Ég veit ekki um neinn annan sem hefur hlotið þann dóm að verða bundinn við hjólastól, sem sagt hefur verið um að hann sé að leika eða plata, til þess að fá umönnun. Yfirleitt er fólki sýnd hluttekning. Sem betur fer. En það segir mikið um stöðu þína og hug samfélagsins til þín. Sautján ára baráttu háðir þú við þennann draug. Það var sannarlega þrautseigja vinur.
 
Í þessum kveðjuorðum verð ég að minnast á smásögurnar sem við skrifuðum. Tíminn sem við sátum tveir við skriftir voru okkar bestu stundir. Við grétum oft af hlátri og gleði meðan við settum saman sögu fyrir skemmtun, góða stund á Þjóðhátíð eða til heiðurs góðum félaga. Manstu hvað við gátum orðið hissa á því hvað fólk gat skemmt sér yfir þessu. Þetta bull okkar. Meiriháttar undarlegt. Sannleikurinn er hins vegar sá, Gústi minn að þú fluttir sögurnar snilldarlega. Frábær rödd og þú varst alltaf svo næmur fyrir salnum. Tvo vetur skrifuðum við sögur sem fluttar voru fyrir fullu húsi í Harlem á þriðjudagskvöldum kl. 22. Ég efast um það vinur minn að það eigi sér hliðstæðu. Sögustund á virkum degi, fullt hús og allir bláedrú. Það var alltaf á planinu að þú læsir inn á disk sögur eftir okkur. Það er mín sök að það hefur ekki verið gert. Ég gleymdi mér í amstri hversdagsins og frestaði stöðugt verkefninu, þrátt fyrir að ég gerði mér grein fyrir því að brugðið gæti til beggja hjá þér. Ég vona að þú fyrirgefir mér það vinur, þetta verður mér lærdómur. Lífið er oft erfiður skóli.
 
Jæja kallinn. Þú ert á góðum stað. Það er ég viss um. Ef þeir sem þjást eins og þú hefur þurft gera í jarðvistinni, eiga ekki vísan stað í himnavistinni, þá er eitthvað bogið við það sem boðað er. Það er á hreinu. Hann hlýtur að vera hvítur flygillinn sem þú spilar á í dag. Ég vona að ég fái að njóta aftur tónleika hjá félaga mínum, líkum þeim sem ég sótti í kjallaranum á Rafnseyri fyrir mörgum árum. Nú geturðu loksins rólegur hallað höfði. Friður sé með þér, vinur minn.
 
Guð blessi þig Rósa mín og varðveiti vel á ókomnum tímum. Þinn missir er mikill. Hún verðskuldar mikla virðingu, einstök umönnun hennar og stuðningur við mikið sjúkan eiginmann. Hún er djúp og hrein ástin sem færir slíka fórn.
 
Páll Scheving Ingvarsson
 
 
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).