Úti í Eyjum

Egill Helgason bloggar

14.Júní'11 | 12:05

Egill Helgason

Ég vann í fiski í Vestmannaeyjum þegar ég var strákur, fór þangað tvö sumur, það var rétt eftir gos. Þetta er reynsla sem ég hef búið að síðan – og ég er hræddur um að fjölskylda mín sé orðin mjög leið á sögum frá þessari dvöl.

En ég hef eiginlega ekkert komið til Eyja síðan þá – bara tvívegis og það mjög stuttlega.

Nú er stutt að fara, bara að bruna í Landeyjahöfn á á einum og hálfum tíma og yfir til Eyja á 35 mínútum. Svo við skelltum okkur við Kári – mamma hans var upptekin við vinnu.

Það er fyrst að nefna að Vestmannaeyjar er frábær staður að heimsækja. Eiginlega ættu allir ferðamenn sem koma til Íslands að fara þangað. Við vorum heppnir með veður – skoðuðum hraunið og það sem er kallað Pompei norðursins gengum á Eldfjallið, fórum i Fiska- og náttúrgripasafnið, eyddum löngum tíma í sundlauginni sem er einhver sú skemmtilegasta í Íslandi, fórum í  Herjólfsdal og á Skansinn, í fjöruna í Klauf og upp á Stórhöfða.

Það hefur margt breyst síðan ég var strákur að þvælast þarna. Þá fór maður í bíóið á hverju kvöldi, það var miðpunktur félagslífsins – nú er Hvítasunnusöfnuðurinn búinn að taka yfir húsið. Tótaturn er farinn, en það eru komin fáguð kaffihús eins og til dæmis Vinaminni þar sem er líka hægt að sitja úti á góðviðrisdögum og veitingastaður eins og Grill 900 sem er þar sem skóbúð Axels Ó var einu sinni – þar fengum við gríðargóðan humar.

Fiskiðjan þar sem ég vann – með Bubba Morthens og fleirum – stendur auð og yfirgefin og Eyjaberg þar sem ég vann líka heyrir sögunni til. Hraunið er orðið furðulega gróið en maður sé samt að gróðurþekjan er aðeins þunnt lag ofan á grjótinu og öskunni sem kom upp veturinn 1973.

Það eru þrjár sögur sem gnæfa yfir aðrar í Vestmannaeyjum. Í fyrsta lagi náttúrlega gosið. Það er saga um þrautseigju og hetjulund. Það er merkilegt að segja litlum dreng eins og Kára að hamfarirnar hafi verið nánast inni í bænum, að fólkið hafi verið flutt burt og að það hafi ekki orðið neitt manntjón. Skírskotunin er eiginlega í Hollywoodmyndir – börn hafa séð svona atburði þar. Ég hef áður sagt að Vestmannaeyjagosið hafi líklega verið glæstasta stund íslenska lýðveldisins – og ég ætla að standa við það. Samstaðan sem þá ríkti meðal þjóðarinnar var einstök.

Svo er það Tyrkjaránið – sú saga heillar og skelfir – hvernig sjóræningjar alla leið frá Norður-Afríku komu upp á þessa eyju lengst norður í Atlantshafi, drápu marga menn, en höfðu á brott með sér næstum 250 eyjaskeggja sem voru hnepptir í þrældóm. Maður veltir fyrir sér hvernig þeim reiddi af – jú, þeir fengu þó að ferðast og upplifðu betra veður!

Loks er það sagan af Guðlaugi Friðþórssyni. Við Kári skoðuðum minnismerkið um hið mikla afrek hans – þegar hann bjargaði sér með því að synda sex kílómetra í ísköldum og úfnum sjó og gekk síðan til byggða yfir hraunið, berfættur. Í raun er þetta ótrúlegasta afrek sem maður hefur nokkurn tíma heyrt um og ég þurfti að segja Kára söguna mörgum sinnum. Til dæmis þegar Guðlaugur kemur að landi en það er svo mikið brim að hann skynjar að hann muni lemjast til dauða ef hann syndir þangað inn, snýr við, og syndir yfir í næstu vík.

Minnismerkið er baðker. Það er baðkerið sem Guðlaugur kom að þegar hann hafði lokið sundinu. Það var frost og hann varð að brjóta ísinn í kerinu til að geta drukkið regnvatnið í því. Þetta er látlaus minnisvarði og magnaður. En það má heldur ekki gleyma harmleiknum sem liggur þarna að baki. Sjóslysinu, þegar fjórir félagar Guðlaugs á bátnum Hellisey fórust, 12. mars 1984.

Það minnir á baráttu Eyjamanna við óblíð náttúruöflin – sem er kannski stærsta sagan.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.