Grafalvarlegar árásir á stóran hluta af landsbyggðinni er að ræða sem á sér ekki hliðstæðu og vandséð annað en að brjóti stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

segir bæjarráð Vestmannaeyja um frumvörp ríkisstjórnarinnar

7.Júní'11 | 14:07

Þorskur fiskur

Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar lýsir þungum áhyggjum yfir frumvörpum ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um stjórn fisveiða. Ef frumvörpin taka gildi munu þau koma harkalega niður á allri íslensku þjóðinni þar sem arðbærni og þjóðhagslegri hagkvæmni sjávarútvegsins er varpað fyrir róða. Íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær og er Ísland eina þjóðin sem getur státað af sjávarútvegi sem er rekinn án ríkisstyrkja.
Þjóðarbúið mun með samþykkt frumvarpanna fá minni tekjur af atvinnugreininni og eins og hagfræðingar hafa ítrekað bent á mun það eitt skaða alla landsmenn. Bæjarráð lýsir furðu sinni yfir því að slík frumvörp skuli lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar án þess að hún hafi látið reikna út áhrif þeirra á þjóðarhag. 
 
Bæjarráð minnir á að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna segir: ,,Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem framundan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða." Frumvörpin sem nú liggja fyrir ganga algerlega gegn þessari yfirlýsingu í stjórnarsáttmálanum og í þeim felst engin sátt um stjórn fiskveiða. Verði þau að lögum munu þau skapa fjölda samfélaga og sjávarútvegsfyrirtækja sem eru í góðum rekstri í dag mikla óvissu og erfiðleika.
 
Bæjarráð bendir ennfremur á að um grafalvarlegar árásir á stóran hluta af landsbyggðinni er að ræða sem á sér ekki hliðstæðu og vandséð annað en að brjóti stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Fyrirtæki og samfélög sem nýta aðrar auðlindir þjóðinni til heilla og hagsbóta liggja ekki undir sömu árásum.
Vestmannaeyjar verða fyrir gríðarlegri skerðingu ef lagafrumvörpin verða samþykkt á Alþingi. Þegar lögin hafa tekið gildi að fullu hafa u.þ.b. 16% allra aflaheimilda horfið frá Vestmannaeyjum ef miðað er við meðalúthlutun aflaheimilda sl. 20 ár. Frumvörpin gera ráð fyrir því að samtals 15.511.109 þorskígildi verði tekin frá Eyjum og flutt til annarra byggðarlaga. Það jafngildir því að 10 útgerðarfyrirtæki leggi upp laupana í Vestmannaeyjum með tilheyrandi fækkun starfa og verulegri fólksfækkun. Ljóst er að með frumvörpunum er ráðist að lífsgæðum í Vestmannaeyjum með harkalegum hætti.
 
Í Vestmannaeyjum er blómleg byggð sem á allt sitt undir sjávarútvegi. Byggðarlagið hefur farið í gegnum gríðarlega erfiða tíma með 20% fólksfækkun á 17 árum en hefur verið að rétta úr kútnum síðustu ár. Bæjarráð neitar að trúa því að ríkisstjórn landsins hafi það í huga að brjóta niður þann árangur sem áunnist hefur og þann viðsnúning sem átt hefur sér stað í Vestmannaeyjum á undanförnum árum. Það væri dapurlegt að fórna stærstu verstöð landsins án þess að í því fælist ávinningur fyrir þjóðina.
 
Bæjarráð bendir einnig á að hið svokallaða minna frumvarp hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir sjávarbyggðirnar og samþykkt þess án yfirvegaðrar umræðu um afleiðingar þess mun hafa gríðarlega neikvæð áhrif á sjávarútveginn í landinu og er í raun inngangur að stærra frumvarpinu. Til að mynda verða 30-40% af þorskkvóta og 70-80% af steinbítskvóta Ísfélags Vestmannaeyja tekin af félaginu strax í haust með samþykkt minna frumvarpsins.
 
Fiskurinn í sjónum er takmörkuð auðlind og það lifa ekki allir á honum. Bæjarráð Vestmannaeyja skorar á ríkisstjórn og alþingismenn alla að kynna sér vandlega afleiðingar frumvarpsins sem borið verður undir atkvæði á föstudag og hafa þar þjóðarhag og hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi.
 
Páley Borgþórsdóttir
Páll Marvin Jónsson
Páll Scheving Ingvarsson

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.