Hetjuleg björgun á Spáni

Bræður úr Eyjum á réttum stað á réttum tíma

3.Júní'11 | 13:30

Sindri, Daði og Einar Gauti

Kristín Ósk settist niður með þeim Sindra Ólafssyni og Hildi Sólveigu Sigurðardóttur og fékk að heyra söguna bakvið björgun tveggja mannslífa á Spáni. Það var mikil mildi að bræðurnir Sindri, Daði og Einar Gauti Ólafssynir skyldu vera staddir á La Zenia ströndinni skammt frá Torrevieja þann 21. maí síðastliðin.
Þau voru stödd á Spáni í sumarfríi og skelltu sér á ströndina þennan örlagaríka dag. Fjölskyldan hefur oft farið þarna og því öllu kunnug. Það er varað við sterkum straumum þarna á ströndinni, en engin strandvarsla nema yfir hásumartímann og ekki einu sinni flögg til að aðvara fólk. Bræðurnir ákváðu að skella sér í sjóinn og ætluðu sér að synda út að skeri sem er ríkt af kóröllum og fallegum fiskum. Þegar þeir hófu sundið var töluverður öldugangur en þeir héldu samt áfram. Þeir syntu töluverðan spöl en nálguðust ekki skerið.

„Ég var með hriplek sundgleraugu og var einnig farinn að þreytast töluvert, þannig að ég ákveð að snúa við“,
segir Sindri. Sundið tilbaka tók orðið vel á og þegar hann var kominn með sjóinn upp að mitti þá var hann orðinn frekar lúinn. Hann heyrði einhver köll, ákveður að hinkra aðeins í stað þess að fara upp úr og fer að skima í kringum sig. Í 15-20 metra fjarlægð sér hann glitta í mann eða rétt í hausinn á honum. Sindri drífur sig í áttina til hans og þegar hann kemur að manninum segist hann vera uppgefinn (exhausted).
„Ég býð honum aðstoð mína og við förum að mjatlast við að koma okkur í land. Maðurinn var virkilega búinn á því og alltaf að biðja mig um að bíða (please wait). Ég finn að við erum í einhverjum straum og legg mig allan fram við að hvetja karlinn áfram“, segir Sindri. Þarna var maðurinn farinn að fá mikið af öldum yfir sig og átti orðið í mestu vandræðum með að koma sér áfram. Sindri fór að líta í kringum sig og sá þá bræður sína vera lagða af stað tilbaka. Hann nær að kalla í þá og í sameiningu koma þeir manninum í land. Hann leggst í flæðamálið á hliðina, orðinn blár í framan og niður á bringu. Hann hóstar mikið og það kemur sjór upp úr manninum. Hildur Sólveig, unnusta Sindra, hafði tekið eftir þeim á lokasprettinum. Hún tekur á móti þeim, býðst til þess að hringja á sjúkrabíl og hleypur til að ná í síma. „Það var svo ótrúlegt að það virtist enginn vera að gera sig líklegan til að bjóða fram aðstoð sína þarna“, segir Hildur. Þarna var Sindri orðinn vel þreyttur og þeim bræðrum klappað á bakið og þakkað mikið fyrir þessa björgun.
 
„Áður en ég veit af er pikkað í mig aftur og okkur bent á fólk sem er í vandræðum í sjónum“, segir Sindri. Þarna sjá þeir tvo menn sem eru með konu á milli sín og í því þegar bræðurnir hlaupa aftur af stað þá missa mennirnir konuna. Hún virtist alveg líflaus þegar þeir komu að henni. Hún var öll blá, augun opin og aðkoman vægast sagt óhugnaleg. Sindri segist ekki hafa séð nein merki um lífsmark og fór margt í gegnum huga hans þegar þeir börðust við að koma henni í land. Annar maðurinn sem hafði haldið undir hana fram að þessu var gjörsamlega búinn á því, aðstæður í sjónum greinilega stórhættulegar. Þegar þeir komu með konuna í land þá var töluverður hópur búinn að safnast saman. Hildur tók þarna á móti þeim ásamt spænskri hjúkku og manni sem hófu strax lífgunartilraunir á konunni. „Ég hélt einfaldlega að það væri um seinan fyrir hana, hún andaði ekki sjálf og við fundum engan hjartslátt og því hófu þau hjartahnoð.“, segir Hildur sem er sjúkraþjálfari. Þarna héldu bræðurnir sig dálítið frá enda gjörsamlega kláraðir á því eftir þrekraunir þessa dags.
 
Þeim fannst öllum eins og tíminn stæði í stað, spænska hjúkkan hnoðaði og hnoðaði, milli þess sem maðurinn blés í hana og með reglulegu millibili settu þau hana yfir á hliðina og þá gusaðist sjórinn upp úr henni. „Þetta fólk stóð sig frábærlega í þessum aðstæðum“, segja Sindri og Hildur. Bráðaliðarnir komu loksins eftir 6-10 mínútur. Þeir athöfnuðu sig á ströndinni í töluverðan tíma, alveg 20-30 mínútur að þeirra mati. Henni var gefið súrefni allan tímann en bráðaliðarnir voru mjög yfirvegaðir. Þarna héldu þau endanlega að konan myndi ekki hafa það af. Hún var að lokum flutt í burtu af sjúkraflutningamönnunum að sjúkrabíl. Maðurinn sem hafði verið í því að koma konunni í land þegar bræðurnir komu til hjálpar, kom að taka saman stranddótið sitt. Hildur fór til hans og spurði hvort að allt væri í lagi. Þá var þetta eiginmaður konunnar og kom það í ljós að konan hafði það af. Maðurinn þakkaði þeim mikið vel fyrir alla aðstoðina og á þessum tíma vörpuðu þau öll öndinni léttar.
Þetta voru tvö alveg óskyld atvik og seinna fréttu þau frá öðrum Íslendingum að það hefðu verið tvö önnur tilfelli seinna þennan dag þar sem fólk lenti í vandræðum í sjónum. Það var ekki fyrr en eftir að fjórir höfðu lent í sjávarháska að lögreglan kom og lokaði ströndinni.
 
„Það sem kannski situr mest eftir er að maður veit í rauninni ekkert hvernig henni reiðir af og það er óþægileg tilfinning. Jafnframt hugsaði ég eftir á hvað það hlyti að vera hræðileg tilfinning að horfa á konuna sína vera að fjara út og geta ekki hjálpað. Þetta var mjög sérstök upplifun“, segir Sindri að lokum. Hildur tekur undir þetta og sagðist hafa prófað að googla þetta þegar heim var komið. „Við vitum ekkert um þetta fólk, nöfn, heimkynni eða neitt og munum líklegast aldrei komast að því“, segir Hildur. Hún fann samt tvær greinar og í annarri stóð að á þessum sama sólarhring hefðu tveir írskir menn drukknað á öðrum ströndum, ásamt fimm atvikum þar sem fólk hefði lent í nærdrukknun.

Hægt er að lesa greinarnar sem Hildur Sólveig fann á eftirfarandi tenglum:

Kristín Ósk Óskarsdóttir
 
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is