ÍBV hélt sigurgöngunni áfram í Kópavogi

2.Júní'11 | 13:44
ÍBV hélt áfram sigurgöngu sinni í Pepsi-deild kvenna og endurheimti toppsætið með góðum 2-0 sigri gegn Breiðablik í Kópavoginum í kvöld. Eyjastúlkur eru með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir en hins vegar er lið Breiðabliks einungis með eitt stig, sem hlýtur vissulega að vera áhyggjuefni í Kópavoginum.
Fátt var um fína drætti til að byrja með og jafnræði meðal liðanna. Lið ÍBV var þó aðeins meira með boltann á meðan Blikar reyndu að svara fyrir sig með skyndisóknum. Eftir tæpan stundarfjórðung komst ÍBV yfir en þar var á ferðinni hin baneitraða Vesna Smijlkovic sem keyrði framhjá varnarmanni Breiðabliks og skaut í stöngina og inn ein gegn markverði.
 
Eyjastúlkur héldu áfram að pressa að marki Blika og áttu meðal annars tvö ágætis skot að marki sem Bryndís Lára í markinu varði örugglega.
 
Blikar hefðu þó með smá heppni getað jafnað metin þegar Gréta Mjöll Samúelsdóttir fékk frábæra sendingu inn í teiginn og náði góðu skoti, en Birna Berg Haraldsdóttir varði meistaralega. Jóna Kristín Hauksdóttir reyndi síðan að fylgja eftir en skot hennar var úr þröngu færi og fór framhjá. Blikastúlkur efldust þó við þessa tilraun og áttu aðra ágæta marktilraun skömmu síðar.
 
Lið Blika var talsvert sterkari aðilinn þegar líða tók á fyrri hálfleikinn en án þess þó að ná að nýta sér yfirburðina. Þær lentu þó næstum því í að lenda tveimur mörkum undir þegar fyrrum Blikinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir komst ein í gegn og átti skot sem var glæsilega varið.
 
Staðan var enn 1-0 fyrir ÍBV þegar flautað var til leikhlés og máttu gestirnir teljast nokkuð heppnar að hafa ekki lent í meiri vandræðum en þær gerðu, því Blikar sóttu grimmt.
 
Strax í upphafi síðari hálfleiks skoraði Fanndís Friðriksdóttir fyrir Blika en mark hennar var dæmt af, þar sem boltinn hafði farið í hendurnar á henni.
 
Líkt og í síðari hluta fyrri hálfleiksins voru Blikarnir kraftmeiri og beinlínis betri í seinni hálfleiknum. Enn vantaði liðið þó herslumuninn og flestar sóknir þeirra enduðu með misheppnuðum sendingum sem rötuðu á andstæðinginn. Þær voru þó yfirleitt fljótar að vinna boltann aftur og endurtaka leikinn.
 
Það kom hins vegar sem kjaftshögg fyrir Blikastúlkur þegar ÍBV bættu við marki þvert gegn gangi leiksins en þar var á ferðinni Danka Podovac, sem lék laglega á varnarmenn og markvörð inni í teig og skoraði í autt markið. Vel gert hjá Dönku en þarna svaf vörn Blika á verðinum.
 
Baráttan var mikil það sem eftir var leiks og úrslitin því 2-0 sigur ÍBV sem hafa byrjað frábærlega í Pepsi-deildinni. Það er svo sannarlega frábært afrek hjá nýliðum í deildinni að vinna þrjá fyrstu leiki sína og með þessu áframhaldi er ljóst að það ber að taka Eyjastúlkur alvarlega í titilbaráttunni. Blikar þurfa hins vegar að girða upp í brók en þær geta þó tekið þann jákvæða punkt úr þessum leik að spilamennska þeirra var ekkert til að skammast sín fyrir.
 
Byrjunarlið Breiðabliks: Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir (M), Guðrún Erla Hilmarsdóttir, Sandra Sif Magnúsdóttir, Ragna Björg Einarsdóttir, Greta Mjöll Samúelsdóttir (F), Jóna Kristín Hauksdóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Dagmar Ýr Arnardóttir, Anna Birna Þorvarðardóttir, Arna Ómarsdóttir, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir.
 
Byrjunarlið ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir (M), Sóley Guðmundsdóttir, Julie Nelson, Elísa Viðarsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Þórhildur Ólafsdóttir, Kristín Erna Sigurlásdóttir, Kolbrún Inga Stefánsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Vesna Smijlkovic, Danka Podovac.
 
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%