32 þingmál í vetur eru innlegg mitt í uppbyggingu á mörgum sviðum

Árni Johnsen skrifar

1.Júní'11 | 11:30
Verklag alþingis er með eindæmum um þessar mundir. Kjarnamálum, grundvallarmálum sem varða fjöregg þjóðarinnar er sleppt, málum sem varða heimilin, atvinnulífið, atvinnusköpun og drifkraft. Og málum sem varða smærri þætti, en þó hvetjandi fyrir land og þjóð, er líka sleppt, stungið ofan í skúffu.
Verklag ríkisstjórnarinnar undanfarin tvö ár hefur byggst á því að henda inn í nefndir þingsins algjörlega ófullburða frumvörpum, sem njóta ekki einu sinni samstöðu ríkisstjórnarflokkanna í fjölda mála og öllum stóru málunum. Ríkisstjórnin hefur lagt kapp á að skakklappast með ótal mál gjörsamlega ófullburða. Auðvitað kemur ekkert út úr því, enginn árangur, aðeins bið, bið og meiri bið og leiðindi.
 
Uppbygging, endurheimtur og áræði
Síðastliðið haust lagði undirritaður fram með stuðningi fjölmargra þingmanna úr stjórn og stjórnarandstöðu 32 frumvörp og þingsályktunartillögur, reyndar á sama deginum flest málin, en þetta eru margfalt fleiri mál en gengur og gerist á ári hjá þingmönnum. Hér er um að ræða mál sem varða atvinnumál, umhverfi, menntun, þjónustu, ferðamál, nátúruvernd, félagsmál, hafnir landsins, réttindi sjómanna, Háskóla Íslands, réttarkerfið og Schengen svo dæmi séu tekin. Óvenjumikill tími þingsins hefur farið í nefndastörf þar sem allri eðlilegri forvinnu í ráðuneytum hefur verið sleppt að stærstum hluta. Línan virðist vera að spara eðlilega forvinnu í ráðuneytum og henda henni í þingið. Á þessu sviði ríkir því stjórnleysi og ringulreið.
 
32 þingmál lögð fram á einum degi
Þau mál sem undirritaður hefur lagt fram og verður fylgt eftir eru frumvarp um réttindi sjómanna til frádráttar frá skatti vegna vinnu fjarri heimili, eins og allir landkrabbar hafa og því fáránlegt ef sjómenn verða skildir eftir á köldum klaka í þeim efnum, mál sem varða byggingu stórskipahafna í Þorlákshöfn, Grindavík og Vestmannaeyjum, aðgengi að Þríhnjúkagígum með stærsta helli í heimi fyrir ferðamenn, hafnalög sem eiga að rétta aftur hlut nánast allra hafna landsins frá gildandi lögum sem settu höfnum stólinn fyrir dyrnar í eðlilegu viðhaldi, hvað þá uppbyggingu. Mál sem varða afnám skemmtanaskatts á útihátíðum, prófessorsembætti tengt nafni Jónasar Hallgrímssonar og Byggðasafninu í Skógum og Þórði Tómassyni. Mál sem varða Vefmyndasafn Íslands með neti vefmyndavéla á slóðum helstu náttúruperlna landsins og byggða þannig að hvar sem er í heiminum geta fólk fylgst með daglegri stemningu á stað og stund, en slíkt yrði stórkostleg markaðssetning á Íslandi.
 
Eitt frumvarpa minna sem 30 alþingismenn eru meðflutningsmenn á varðar uppbyggingu Helguvíkurhafnar og því að Reykjanesbær njóti sömu réttinda og jafnræðis í þeim efnum og allar aðrar hafnir samkvæmt gildandi lögum, en Helguvíkurhöfn hefur verið afskipt í þeim efnum og málið er tafið í Samgöngunefnd af formanni nefndarinnar, Birni Val Gíslasyni frá Vinstri grænum.
 
Þá má nefna staðsetningu Náttúrugripasafns Íslands á Selfossi, úttekt á aðgengi sjómanna að þjónustukerfi landsins, skipsstjórnarmenntun sem stendur mjög höllum fæti til þarfa næstu framtíðar, listasafn fyrir blinda sem yrði einstakt og nýr möguleiki ferðamennsku á heimsvísu, uppskurður og endurskoðun réttarkerfisins, bindindisfræðsla í skólum, skólasöngur og ljóðakennsla, kristni- og trúarbragðafræðsla, úttekt á kostum og göllum Schengen, fornleifarannsóknir í Árnesi og endurbygging, fuglaskoðunarsetur í Garðinum, stofnun íslenskrar handverksdeildar og hönnunar í Listaháskóla Íslands, úttekt á hringsiglingamöguleikum um Ísland í farmflutningum, prestsþjónusta á Þingvöllum, úttekt á túlkun reglna EES sem oft á tíðum eru andstæðar íslenskum hagsmunum og kaþólskari en páfinn, fiskiskipasafn Íslands í Reykjanesbæ, sögukennsla í skólum, mannsæmandi uppbygging á hverasvæði Geysis í Haukadal. Mál sem varða kærur Íslendinga á hendur Bretum, Nató og Evrópusambandinu fyrir bein hryðjuverk og afskiptaleysi í kjölfar bankahrunsins, en í þingsályktuninni er krafist 10 þúsund milljarða í skaðabætur af Bretum fyrir órökstuddar árásir á Ísland, m.a. þegar Brown forsætisráðherra Bretlands gaf þá yfirlýsingu um heimsbyggðina að Íslendingar væru gjaldþrota og 500 milljarða krafa á EBS og Nató fyrir að verja í engu hagsmuni Íslands á þessum vettvangi. Þar gilti ekki allir fyrir einn og einn fyrir alla eins og hefur verið kjörorð Nató.
 
Höfundur er alþingismaður.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.