Fiskveiðar og reynsla kynslóðanna

Eftir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins

25.Maí'11 | 12:02
Við Íslendingar erum fiskveiðiþjóð. Lífskjör okkar fram eftir öldinni réðust að miklu leyti af ástandi fiskistofnanna og tæknilegum framförum í sjávarútvegi.
 
Undanfarna þrjá áratugi hafa efnahagslegar framfarir að verulegu leyti byggst á bættu skipulagi og stjórnun veiðanna. Ný sjávarútvegsstefna frá upphafi níunda áratugar grundvallaðist á því að takmarka sókn í stofnana, vernda þá gegn ofveiði og vinda ofan af þeirri offjárfestingu sem orðið hafði í greininni og dregið úr allri arðsemi.
Framsalið aflvaki framfara
Þegar ný heildarlög um stjórn fiskveiða voru sett árið 1990 var lögð áhersla á að leikreglur um fyrirkomulag fiskveiða væru almennar og stuðluðu að sem mestum afrakstri úr auðlindinni. Með því að tryggja hámarksafrakstur nytjastofnanna til langs tíma með lágmarkstilkostnaði væri unnt að skapa traustar forsendur fyrir atvinnu og byggð í landinu.
 
Í framsöguræðu Halldórs Ásgrímssonar sjávarútvegsráðherra kom fram að með víðtækum heimildum til að færa aflaheimildir varanlega milli skipa gæfist aflamönnum kostur á að njóta sín. Heimildirnar myndu leita til þeirra í framtíðinni sem aflanum myndu ná með minnstum tilkostnaði. Framseljanlegar veiðiheimildir væru því grundvallaratriði í lögunum. Þær væru sá aflvaki sem stuðlaði að aðlögun fiskiskipastólsins að afrakstursgetu fiskistofnanna. Þannig væru lögmál markaðskerfisins nýtt til að auka hagkvæmni veiðanna. Í máli hans kom einnig fram að nauðsynlegt væri að menn gerðu sér ljóst frá upphafi að í fyrstu myndu þessum framsalsheimildum fylgja vandamál. Í engu var það ofmælt, en reynslan sýnir að áhersla á aukna hagræðingu var bæði nauðsynleg og skynsamleg.
 
Lært af reynslunni
Nauðsynlegt er að átta sig á því að þessar hugmyndir urðu ekki til í tómarúmi. Þær mótuðust af þeirri dýrkeyptu reynslu að ótakmarkaður aðgangur að auðlindinni leiddi til offjárfestingar, óhagkvæmni og ofveiði. Of mikil pólitísk afskipti og miðstýring veiðiheimilda hafði einnig reynst illa. Afleiðingarnar birtust í gjaldþrotum og greiðsluvanda útgerðarinnar. Eftir mörg erfið ár var augljóst að hagsmunir almennings fóru saman með þeim fyrirtækjum sem störfuðu í greininni.
 
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru bæði í ríkisstjórn þeirri er bar málið fram á Alþingi og eru einu núverandi þingmennirnir sem sátu á Alþingi er umrædd lög um stjórn fiskveiða voru samþykkt. Það þarf varla að taka fram að bæði studdu málið og bera því mikla ábyrgð á því fiskveiðistjórnunarkerfi sem mótað var með lögunum.

Óvissa og óvönduð vinnubrögð
Nú eru tvö ár liðin frá því að flokkar þeirra samþykktu stjórnarsáttmála þar sem kveðið var á um innköllun allra aflaheimilda og endurúthlutun eftir óskilgreindri aðferð. Þessi stefna hefur nú þegar skapað mikið tjón vegna þeirrar óvissu sem ríkt hefur um framhaldið. Ekki hefur þó skort á viljann til samráðs og samstarfs frá hagsmunaaðilum og þingflokkum á Alþingi, eins og sást á niðurstöðu sáttanefndarinnar frá því í fyrra. En þau tvö frumvörp sem nú eru fram komin eru hins vegar „óravegu frá því samkomulagi“ svo notuð séu orð Farmanna- og fiskimannasambandsins.
 
Málið er auk þess lagt fram án þess að hirt sé um að leggja fyrir þingið útreikninga á efnahagslegum áhrifum þess. Þetta eru því sömu óvönduðu vinnubrögðin og einkennt hafa hvert mál ríkisstjórnarinnar á eftir öðru.
 
Í nýjum frumvörpum er öllu snúið á hvolf sem áður þótti stuðla að hagkvæmni í útgerð. Framsalið, sem áður hét aflvaki framfara, á nú að banna. Þrengja á mjög að heimildum til veðsetningar sem kemur augljóslega hart niður á öllum þeim er vilja hasla sér völl í sjávarútvegi, einkanlega nýliðum. Áður þótti rétt að lögbinda meginreglur um veiðarnar en nú á að stórauka miðstýringu, völd ráðherrans og afskipti sveitarfélaga af ráðstöfun aflaheimilda. Varanlegar aflaheimildir verða lagðar niður og nýju, flóknu kerfi komið á við hlið aflahlutdeildarkerfisins. Allt þetta mun grafa undan rekstraröryggi, ýta undir offjárfestingu og draga úr arðsemi veiðanna.

Hagkvæmni verður að ráða
Það ber einkenni lýðskrums þegar sagt er að hægt sé að auka nýliðun, réttlæti við úthlutun aflaheimilda, og opna frekar á aðgengi að auðlindinni án þess að nokkru sé fórnað í markmiðum um hámarksafrakstur. Þetta sést best á því að sjálfir formenn stjórnarflokkanna notuðu þveröfug rök þegar framsalið var gefið frjálst, kerfið einfaldað, dregið úr miðstýringu og lögmál markaðarins virkjuð til að bæta afkomu greinarinnar.
 
Það væri meiri mannsbragur á því ef sagt væri hreint út að ríkisstjórnin teldi réttlætanlegt að fórna arðsemi í fiskveiðum fyrir fleiri störf. Öll helstu áhersluatriði nýrra frumvarpa fela í sér að fórna á þjóðhagslegri hagkvæmni fyrir aukinn aðgang að auðlindinni.
 
Það má sjávarútvegsráðherrann eiga að hann hefur þó talað hreint út um þessa hlið málsins. Í umræðum á Alþingi 13. nóvember 2009 sagði hann: „Hluta af ósætti þjóðarinnar má beint rekja til þeirrar stöðugu kröfu útgerða að skapað verði sem mest svigrúm og sveigjanleiki. [...] En engu að síður er það mín skoðun að of langt hafi verið gengið í ýmsum þessum efnum og næg tilefni séu til að taka skref til baka.“
 
Forysta ríkisstjórnarinnar getur ekki komist hjá því að ræða málið á þessum sömu forsendum. Hún ætti einnig að upplýsa sjávarútvegsráðherrann um að þau hafi verið í liði með útgerðinni og stutt kröfuna um aukna hagkvæmni og sveigjanleika þegar þau greiddu atkvæði með lögunum frá 1990.
Arðurinn til þjóðarinnar

Með engu skal dregið úr því að réttlæti, jafnrétti og atvinnufrelsi eru meðal göfugustu markmiða við lagasmíð. Heilbrigð nýliðun verður einnig að geta átt sér stað. En hvers virði er opinn aðgangur að auðlindinni ef hann leiðir til þess að sífellt fleiri fara til veiða og afrakstur hvers og eins dregst saman þar til taprekstur og gjaldþrot tekur við? Og hvaða réttlæti er í því þegar útgerðamenn, sem áður höfðu selt veiðiheimildir sínar háu verði, sumir oftar en einu sinni, hefja veiðar að nýju án endurgjalds í svonefndum strandveiðum í samkeppni við þá sem keypt höfðu heimildirnar? Hvert er jafnréttið þegar bann við allri veðsetningu leiðir til þess að einungis hinir fáu fjársterku hafa burði til að hefja útgerð? Hvaða vit er í því að færa aflaheimildir og þar með störf með handvirkum hætti frá einum útgerðarstað til annars? Hugmyndir um hækkun veiðigjaldsins eru einnig til einskis ef um leið á að draga svo úr afrakstri veiðanna að gjaldið skili áfram sömu fjárhæð til ríkisins.
 
Meginmarkmið laganna um stjórn fiskveiða er að hámarka afrakstur veiðanna til langs tíma, styrkja atvinnu og byggð. Hagur allra landsmanna ræðst að verulegu leyti af því hverju veiðarnar á fiskimiðunum við Ísland skila þjóðarbúinu.
 
Það er þyngra en tárum taki að benda þurfi á jafn augljós sannindi í ljósi þeirrar sögu sem fiskveiðar á Íslandi hafa að geyma. Verði fjölgun skipa, félagsleg úrræði, miðstýring og aukin pólitísk afskipti einkenni nýrra laga um stjórn fiskveiða er reynslu kynslóðanna og stórkostlegu tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar í landinu hreinlega kastað á glæ.
 
Engin fiskveiðiþjóð hefur efni á að láta það gerast.
 
Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins.
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is