Skíturinn hverfur ekki þótt honum sé sópað undir mottuna

Steingerður Steinarsdóttir skrifar

19.Maí'11 | 10:11
Líklega er verið að bera í bakkafullan lækinn að gera ummæli Páls Schevings Ingvarssonar að umtalsefni eftir alla þá umfjöllun sem þau fengu nú þegar allflestir eru sennilega búnir að gleyma þeim. Hann taldi sem sé trúnaðarbrest hafa orðið milli Eyjamanna og Stígamóta vegna þess að samtökin höfðu sagt frá því í fjölmiðlum sem þær höfðu orðið áskynja um þjóðhátíð í Eyjum.
Páll var þess einnig fullviss að meira væri um nauðganir þar sem Stígamót væru til staðar en ella og að samtökin nærðust á slíku ofbeldi. Ég nenni ekki að elta ólar við þá trú hans að nauðgunum fjölgi þegar fólk er á staðnum til að veita þolendum fyrstu hjálp og læt nægja að benda á þau augljósu sannindi að skíturinn hverfur ekki nema hann sé þrifinn það nægir ekki að sópa honum undir mottuna. Hins vegar hef ég oft velt fyrir mér þeim misskilningi að mannréttindasamtök auki á þann vanda sem fyrir er í heiminum í stað þess að draga úr.
 
Allir eru sammála um að þörf sé á þrýstihópum og sterkum samtökum sem standi vörð um réttindi barna, kvenna og karla. Amnesty International vaktar stjórnvöld um allan heim og hvetur fólk til að skrifa bréf og láta í sér heyra sé fólk hneppt í fangelsi vegna skoðana sinna. Þætti okkur ekkert undarlegt ef Amnesty ákveddi að þegja um mannréttindabrot t.d. í Kína vegna þess að það kæmi stjórnvöldum þar illa fjárhagslega ef vitnaðist um brotin? Væri ekki líka eitthvað undarlegt við það ef samtökin Barnaheill upplýstu ekki um hversu mörg tilvik kynferðisofbeldis gegn börnum á Netinu vöktun þeirra á slíku hefði leitt í ljós.
 
Staðreyndin er sú að eitt veigamesta hlutverk allra mannréttindasamtaka er að safna upplýsingum um brot og opinbera þær tölur. Grundvöllur allrar baráttu er haldgóðar staðreyndir. Það þýðir hins vegar ekki að ætla að vinsa úr þeim upplýsingum og birta aðeins það sem er manni hagfellt í hvert og eitt skipti. Þess vegna eru óháð samtök eins og Stígamót svo bráðnauðsynleg vegna þess að trúnaður þeirra er eingöngu við þolendur ekki við þjóðhátíðarhaldara eða aðra sem að koma í hverju tilviki. Páll skilur augljóslega ekki eðli mannréttindasamtaka og telur að hægt sé að semja við þau um að brot verði liðin meðan tiltekin yfirvöld vinni að úrbótum. Ef þannig vinnubrögð væru við líði er nokkuð víst að mannréttindabarátta væri styttra á veg komin í heiminum en raunin er. Nógu mikið vantar nú á.
 
Ég hef heldur aldrei skilið þörfina fyrir að fínpússa yfirborðið meðan skíturinn hleðst upp undir niðri. Á Íslandi er sterk tilhneiging til einmitt þessa og í aðdraganda hrunsins og eftir hrun var þetta sérstaklega áberandi hjá ráðamönnum. Mikið væri gott ef okkur tækist að vaxa upp úr þessu. Ef við ákveddum að besta leiðin sé ávallt að horfast í augu við ágallana, taka á þeim og vinna úr þeim er öruggt að það yrði samfélaginu öllu til góðs. Að sópa skítnum undir mottuna leysir engan vanda og þegar hann safnast upp verður stöðugt erfiðara að taka á hrúgunni. Þetta læra flest börn fljótt.
 
Þegar börnin mín gripu til þess að ýta leikföngunum undir rúmið og tilkynna að þau væru búin að taka til urðu þau hissa í fyrsta sinn á að ég sá í gegnum blekkinguna. Í annað sinn var þeim alveg ljóst að þetta væri ekki leiðin til að komast létt frá hlutunum. Þótt ýmislegt annað væri reynt skildu þau fljótt að besta ráðið væri að ganga einfaldlega frá hverjum hlut á sínum stað. Það sparaði tíma, nöldur og leiðindi. Að mínu mati er enginn munur á börnunum og þeim sem ætlað er að hreinsa til í samfélaginu og halda hjólum þess vel smurðum. Undanfærslur, handabaksvinna og yfirbreiðsla er tímasóun.
 
Útihátíðir og það fyllerí sem þar á sér stað er beinlínis ávísun á vandamál. Allar hömlur hverfa og þröskuldar eru svo miklu lægri en ella hjá þeim sem er á valdi vímuefna. Við vitum þetta og þá er eðlilegast að gera ráð fyrir að þannig sé það. Ef við viljum halda útihátíðir á annað borð þá ber okkur skylda til að viðurkenna að þar á ótalmargt ljótt sér stað og engin varúðarráðstöfun er of umfangsmikil til að vera óþörf þegar ofbeldisverk og annar ófögnuður sem fylgir vímuefnaneyslu er annars vegar. Ég vona að allir þeir sem halda útihátíðir í sumar beri gæfu til að skilja þetta og fagni því allri aðstoð sem hægt er að fá frá Stígamótum og öðrum fagaðilum.
 
Steingerður Steinarsdóttir
 
tekið af smugan.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.