Vælandi kerlingar

3.Maí'11 | 11:18
Mikið hefur verið rætt að undanförnu um ummæli Páls Scheving formanns Þjóðhátíðarnefndar um Stígamót og ætlar málinu ekki að ljúka með afsökunarbeiðni Páls. Stofnuður hefur verið facebook hópur til stuðnings veru Stígamótar á Þjóðhátíðinni og í dag skrifar einn ritstjóra DV leiðara undir fyrirsögninni Vælandi kerlingar. Við birtum leiðaran hér að neðan:
Páll Scheving Ingvarsson, formaður þjóðhátíðarnefndar, sagði á borgarafundi í Vestmannaeyjum á fimmtudag að Stígamót, sem sérhæfa sig í baráttu gegn kynferðisofbeldi og viðbrögðum við því, ýttu undir vandamál tengd kynferðisofbeldi á þjóðhátíð. „Það er þannig að þar sem þær hafa birst er eins og vandamálið hafi stækkað,“ sagði hann.
 
Til að skilja ásökun Páls á hendur Stígamótum er nauðsynlegt að skoða málið í samhengi við hugmyndaheim íslenskra stjórnenda og leiðtoga í gegnum árin, sem hann virðist sækja viðhorf sitt til. Í honum skiptir oft meira máli hvernig hlutirnir virðast vera en hvernig hlutirnir eru raunverulega. Páll þjóðhátíðarstjóri virðist vera þungt haldinn af ímyndarsýki, sem brenglar gjarnan sýn ábyrgðaraðila á Íslandi.
 
Ímyndarsýkin hefur átt sér margar birtingarmyndir á Íslandi, sérstaklega í góðærinu, en líka eftir hrun. Út frá sjónarhóli ímyndarsjúklingsins geta Stígamót hreinlega verið til trafala á útihátíð. Fleiri ábendingar um vandamál eins og nauðganir fara ekki saman við að halda partíinu gangandi. Afstaða Páls er þannig eins og bjöguð spegilmynd af afstöðu íslenskra ráðamanna í góðærispartíinu, þar sem það var löstur að benda á vandamál, en dyggð að breiða yfir það. Ímyndarsjúkir álíta að sá sem varpar ljósi á vandamálið sé í raun vandamálið sjálft; að ef vandamálið sjáist ekki, sé það ekki.
 
Þegar Páll var spurður af sveitunga sínum á borgarafundinum hvernig koma mætti í veg fyrir það ímyndarlega vandamál að Stígamótakonur væru „alltaf vælandi, þessar kellingar“ í fréttunum yfir aðstöðuleysi á þjóðhátíð varpaði Páll fram kenningu. „Það er ljótt að segja það, en ég segi það samt, það er eins og samtökin nærist á því að vandamálið sé til staðar og þau reyni frekar að ýta undir það heldur en hitt.“ Með sömu rökum mætti segja að spítalar ýttu undir veikindi, Rauði krossinn undir stríð og Amnesty International undir pyndingar. Á sama hátt mætti segja að ef lögreglan hætti að svara í símann og taka við tilkynningum um glæpi myndi nást stórkostlegur árangur í baráttu gegn glæpum. Tölfræði um glæpi byggir nefnilega á því að fólk tilkynni glæpinn og það byggir aftur á því að fólk trúi því að tilkynningin skili einhverju.
 
Nauðganir eru flóknari en aðrir glæpir, einmitt vegna þess að þær eru síður tilkynntar. Nauðganir valda niðurbroti og skömm hjá þeim sem er nauðgað, sem veldur því að viðkomandi eiga erfiðara með að tilkynna um glæpinn. Auk þess vinnur það gegn tilkynningum hversu erfitt er að fá nauðgara dæmda. Árið 2009 voru 130 nauðganir tilkynntar til neyðarmóttöku, en aðeins var sakfellt í sjö tilfellum. Barátta gegn nauðgunum verður því að fela í sér viðleitni til að fjölga tilkynningum.
 
Brengluð sýn Páls Scheving á nauðganir er ekki aðeins viðhorf heldur verknaður. Hann er ábyrgur fyrir stærstu útihátíð landsins og hefur sem slíkur náð að halda Stígamótum frá hátíðinni. „Vandamálin eru alltaf miklu fleiri og stærri þegar Stígamót eru á staðnum, þannig að við höfum sagt: Þið eruð velkomnar, þið bara borgið ykkur inn á svæðið eins og allir aðrir, og komið ykkur fyrir og verðið með ykkar aðstöðu og það hefur haldið þeim frá,“ sagði hann á borgarafundinum.
 
Páll sendi frá sér yfirlýsingu á sunnudag til að lagfæra ímyndarbrestinn. Þar fetaði hann í fótspor margra íslenskra stjórnmálamanna og tók hagsmuni sína fram yfir hagsmuni þjóðhátíðar og Vestmannaeyja. Þrátt fyrir viðurstyggilegar ásakanir hans á hendur grasrótarhreyfingu gegn kynferðisofbeldi, um að hún auki bara á vandamálið, bað hann Stígamótakonur ekki afsökunar og tilkynnti ekki um afsögn sína. Hann sagði að starf Stígamóta væri „ekki hafið yfir gagnrýni“ og gaf til kynna að ásakanir hans nú byggðu á því að Stígamót hefðu sjálf gagnrýnt þjóðhátíð fyrir að vera vandamálið. Það er risaeðla í Herjólfsdal.


www.dv.is

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%