Landeyjahöfn er ekki fullbyggð

Elliði Vignisson bæjarstjóri skrifar

29.Apríl'11 | 11:46
Frá því að Landeyjahöfn opnaði sumarið 2010 hafa frátafir áí siglingum um höfnina, meðal annars vegna uppsöfnunar sands í hafnarmynninu, verið langt um fram það sem ásættanlegt getur talist. Enn sér ekki fyrir endan á vandræðunum. Fyrirtæki í Vestmannaeyjum og almennir íbúar hafa ekki einungis orðið fyrir miklum óþægindum heldur einnig gríðarlegum fjárhagslegum skaða vegna þessa. Beint fjárhagslegt tjón er án efa einhverjir hundruðir milljóna og ef til vill milljarðar. Það er þungt högg fyrir lítið samfélag.

 
Gengið var út frá ákveðnum forsendum
Í aðdraganda hönnunar og framkvæmdar var gengið út frá ákveðnum forsendum. Meðal þessara forsenda var að frátafir yrðu að hámarki 5 til 10% og að hægt yrði að sigla farþegaferju um höfnina í allt að 3,7 metra ölduhæð. Á þeim forsendum lýstu bæjarfulltrúar í Vestmannaeyjum yfir stuðningi við framkvæmdina.
 
Ráðherra og Siglingastofnun
Nú liggur það fyrri að núverandi framkvæmd hefur ekki dugað til að ná þessum markmiðum. Sandburður hefur verið meiri en búist var við og ýmis siglingatæknifræðileg vandkvæði komið upp. Vandinn hefur verið viðvarandi í langan tíma en enn liggja samt ekki fyrir lausnir. Öllum má ljóst vera að ráðherra samgöngumála og Siglingastofnun geta ekki firrað sig ábyrgð á því að framkvæmdin hafi ekki gengið eftir eins og stefnt var að. Á meðan höfnin virkar ekki sem skyldi stendur Siglingastofnun frammi fyrir því verkefni að finna lausnir á vandanum.
 
Kostnaður er enn innan áætlana
Lausnir kosta fjármagn og ábyrgð ráðherra samgöngumála og þingmanna Suðurlands er að tryggja fé til þessara óloknu verkefna. Hæg ættu heimatökin að vera enda er kostnaður við framkvæmdina nú eftir umtalsverðan kostnað vegna viðhaldsdýpkana vel innan kostnaðaráætlunar. Ábyrgð Siglingastofnunar er að leysa tæknilega það vandamál sem þeirra eigin hönnun á Landeyjahöfn er nú í.
 
Fyrr er höfnin ekki fullbyggð
Eyjamenn og Íslendingar allir hafa nú kynnst þeim gríðarlegu tækifærum sem felast í siglingum til Vestmannaeyja um Landeyjahöfn. Höfnin hefur alla burði til að verða bylting í samgöngum og búsetuþróun í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi. Undirritaður vísar frá öllu tali um að framkvæmdin hafi verið misráðin frá upphafi og hafnar hugmyndum um að nýta höfnina einungis sem sumarhöfn. Í upphafi var okkur Eyjamönnum kynnt hugmynd um höfn sem orðið gæti framtíðar lausn og tryggt öruggar ferðir með einungis 5 til 10% frátöfum. Það er enn markmiðið. Fyrr er höfnin ekki fullbyggð.
 
 
 
Elliði Vignisson
Bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
 
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.