Lúðrasveit Vestmannaeyja bæjarlistamaður Vestmannaeyjar 2011

25.Apríl'11 | 11:21
Á sumardaginn fyrsta var tilkynnt hver myndi hljóta nafnbótina Bæjarlistamaður Vestmannaeyja en á síðasta ári var það Jóna Heiða Sigurlásdóttir listakona sem var Bæjarlistamaður Vestmannaeyja.
Í ár er það Lúðrasveit Vestmannaeyja sem fær þann heiður að bera titilinn Bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2011. Lúðrasveitin er vel að þessum heiðri komin en sveitin hóf formlega störf í mars mánuði 1938.

Hér fyrir neðan má lesa ræðu Hildar Sólveigar Sigurðardóttur formanns Fræðslu- og menningarráðs Vestmannaeyja.
 
Góðan daginn gott fólk og gleðilegt sumar.
Fyrir hönd fræðslu- og menningarráðs Vestmannaeyja býð ég ykkur öll velkomin til tilnefningar á bæjarlistamanni Vestmannaeyja árið 2011.
 
Frá því ákveðið var að hefja veitingu starfslauna bæjarlistamanns árið 2001 hefur á sumardaginn fyrsta ár hvert verið útvalinn listamaður sem þykir skara fram úr á sínu sviði og er nafnbótin Bæjarlistamaður Vestmannaeyja hugsuð sem viðurkenning og hvatning listamannsins til frekari dáða. Þetta er með skemmtilegri verkefnum ráðsins og ávallt hvílir mikil leynd yfir þeim fundi þegar þessi ákvörðun er tekin. Eins og svo oft áður stóð valið á milli nokkra verðugra og hæfileikaríkra einstaklinga en nú styttist í að valið verði opinberað
 
Samkvæmt reglum um starfslaunin auglýsir Fræðslu- og menningarráð eftir umsóknum um starfslaun bæjarlistamanns en ætlast er til að umsækjendur geri grein fyrir því hverju þeir hyggist vinna að á tímabilinu og hvenær þeir hafi hug á að vinna að verkum sínum. Með tilnefningu til bæjarlistamanns hefur menningaráð einnig heiðrað listamenn fyrir ævistarf sitt í listinni. Að jafnaði koma þeir einir til greina sem búsettir eru í Vestmannaeyjum en ráðið getur hvort heldur sem er útnefnt einstaklinga eða hópa til starfslaunanna.
Að loknu starfstímabili gerir bæjarlistamaðurinn grein fyrir starfi sínu með greinargerð til Fræðslu- og menningarráðs, sýningu, flutningi eða upplestri á verki í frumflutningi eða frumbirtingu.
 
Tilnefningu til starfslauna bæjarlistamanns í fyrra hlaut myndlistakonan Jóna Heiða Sigurlásdóttir. Hún hefur unnið ötullega að listsköpun sinni síðan hún var tilnefnd bæjarlistamaður og hélt sýningu yfir hvítasunnuna við góðan orðstír, tók þátt í handverksmarkaði á goslokunum þar sem sköpunarverk hennar seldust eins og heitar lummur og hóf hún svo meistaranám í listkennslu. Hún stefnir að nýrri sýningu sem undirrituð býður spennt eftir en ég er sannfærð um að hún muni halda áfram að láta mikið að sér kveða í framtíðinni í myndlist sem og öðrum listasviðum og óska ég henni alls hins besta.
 
Það er um auðugan garð að gresja þegar kemur að einstaklingum sem hafa svarað kalli listagyðjunnar hér í Vestmannaeyjum. Við eigum fjölmarga hæfileikaríka myndlistamenn unga sem aldna, tónlistarfólk úr flestum geirum tónlistar, leikara og kvikmyndagerðarmenn, ljósmyndarar spretta upp sem aldrei fyrr, hönnuðir í klæðnaði, skartgripum og svo mætti lengi telja.
 
Fræðslu og menningarráð velur listamenn sem starfslaun hljóta hverju sinni og á þriðjudag kom ráðið saman og tók ákvörðun um valið.
 
Það er mér mikil ánægja að tilkynna að ráðið ákvað með tilnefningu sinni fyrir árið 2011 að heiðra hóp listamanna sem hafa í áratugaraðir fléttast inn í gróskumikið tónlistarlíf Eyjanna og sett mikinn svip á bæjarbraginn.
 
Tilnefningu til starfslauna Bæjarlistamanns Vestmannaeyja árið 2011 hlýtur... Lúðrasveit Vestmannaeyja
 
Ég vil biðja fulltrúa sveitarinnar, Stefán Sigurjónsson að koma hér upp og standa hjá mér á meðan að ég hleyp yfir sögu Lúðrasveitarinnar.
 
Lúðrasveit Vestmannaeyja hefur formlega verið að störfum frá marsmánuði ársins 1939. Mikið og gott starf hefur verið unnið innan sveitarinnar á löngum starfsferli hennar og er sveitin hluti af þeim mikla menningararf Vestmannaeyja sem tónskáldið og tónlistarkennarinn Oddgeir heitinn Kristjánsson hefur skilið eftir sig. Í ár fögnum við einmitt 100 ára fæðingarafmæli hans og því er ekki úr vegi að víkja að heiðra minningu hans og ekki síður heiðra það ötulla tónlistarfólk sem starfar við Lúðrasveitina og heldur nafni hans og merki sveitarinnar hátt á lofti.
Oddgeir var einn af stofnendum Lúðrasveitar Vestmannaeyja, hann var fyrsti stjórnandi hennar og stýrði henni þar til hann lést langt um aldur fram, en tónlist hans hefur einmitt verið rauður þráður í störfum sveitarinnar.
Lúðrasveitin hefur verið stór hluti af menningarsögu Vestmannaeyja og verið áberandi á fjölmörgum árvissum atburðum bæjarfélagsins eins og sumardeginum fyrsta, sjómannadeginum, 17. júní, goslokahátíðinni og auðvitað Þjóðhátíðinni. Sú skemmtilega hefð sem skapast hefur með flutningi lúðrasveitar við setningu þjóðhátíðar á rætur að rekja til þess að þjóðhátíðarlögin voru á árum áður frumflutt af Lúðrasveitinni við setningu hátíðarinnar sem oftar en ekki voru einmitt úr smiðju Oddgeirs og það er gaman að segja frá því að einn af núverandi meðlimum lúðrasveitarinnar frumflutti einmitt eitt allra þekktasta þjóðhátíðarlagið, lagið Ég veit þú kemur, árið 1962. Þar á ég auðvitað við Ólaf Jónsson, saxófónleikara, frá Laufási.
Fátt annað er jólalegra en að rölta í verslanir í miðbænum á þorláksmessukvöldi og heyra sveitina leika ljúfa jólatóna. Lúðrasveitin hefur einnig verið gífurlega áberandi í íþróttalífi Eyjanna og hafa meðlimir sveitarinnar, undir nafninu Stalla Hú oftar en ekki sett mjög skemmtilegan svip á íþróttaviðburði og þarf ekki að leita lengra en síðasta þriðjudag til að finna dæmi um slíkt. Skólalúðrasveitin (litla lúðrasveitin) hefur verið starfrækt frá árinu 1978 og svo hafa míní lú og pínku lú verið starfræktar að auki og því greinilega mikið og öflugt grasrótarstarf unnið hjá Sveitinni. Á undanförnum árum hefur sveitin verið að víkka út kvíarnar og hefur m.a. haldið geysivinsæla og vel heppnaða tónleika með hljómsveitinni Tríkot og er það álit undirritaðrar að þar gefi Tríkot og Lúðró, Sálinni og Sinfó lítið sem ekkert eftir. Á síðasta ári voru haldin hér tvö vel heppnuð lúðrasveitamót. Annars vegar mót ýmissa stórsveita sl. haust og svo stórmót ung lúðrasveita, sem haldið var hér sl. vor. Þá mættu um 1200 manns í bæinn, ungir blásarar allsstaðar af landinu og forráðamenn þeirra. Það er því afar ánægjulegt að vita til þess að áhuginn og hefðin fyrir lúðrasveitum er ekki á neinu undanhaldi, þrátt fyrir gífurlegt úrval afþreyingar og rafrænnar tónlistarsköpunar. Meðlimir Lúðrasveitar Vestmannaeyja skipta tugum og eru jafnt ungir sem aldnir og ber það merki um gott starf hversu vel hefur tekist að manna þessa stórskemmtilegu sveit í ekki stærra bæjarfélagi og í raun er lúðrasveit Vestmannaeyja ein af öflugri og skemmtilegri lúðrasveitum landsins. Því er það von okkar að þessi heiðurslaun verði sveitinni hvatning til að halda áfram því góða starfi sem þar er unnið og halda hátt á lofti merki Lúðrasveitar Vestmannaeyja sem við bæjarbúar erum svo afskaplega stoltir af.
 
Ég vil biðja Jónu Heiðu Sigurlásdóttur, bæjarlistamann Vestmannaeyja árið 2010 að koma hér upp og afhenda Jarli farandgripinn sem bæjarlistamaður hverju sinni varðveitir í eitt ár. Innilega til hamingju og öllum óska ég gleðilegra páska.
 
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.