Vestmannaeyjar og kvótinn

24.Mars'11 | 07:04

Þorskur fiskur

Langmest var flutt út frá Vestmannaeyjum af óunnum ferskum botnfiski á síðasta kvótaári. Þá var 64% af lönduðum kvótabundum botnfiski í Eyjum flutt til útlanda.
Vestmannaeyjar er einn blómlegasti sjávarútvegsbær á Íslandi. Ólíkt mörgum öðrum sjávarbyggðum þá hefur kvótinn ekki verið seldur frá eyjunum. Þrátt fyrir það hefur kvótakerfið haft áhrif á byggðina.
 
Hátt í hundrað bátar voru í Vestmannaeyjum á árunum áður en kvótakerfið var tekið upp og mun meira var veitt þá en nú.
 
Theodór Ólafsson fyrrverandi útgerðarmaður var aflakóngur í Vestmannaeyum:
 
„Það komu margir margir dagar á vertíðinni sem voru kannski 1500 til 2300 tonn á dag marga daga yfir vertíðina - núna má þakka fyrir að það komi ..tvö til þrjúhundruð tonn á viku til vinnslu“
 
Theodór var aflakóngur á Sæbjörginni í Vestmannaeyjum nítjánhundruð sextíu og sjö, sextíu og átta og sextíu og níu og það ár voru þeir líka hæstir yfir allt landið. Enn þann dag í dag hefur metið sem hann og félagar hans settu þá ekki verið slegið.
 
„Ég held að við höfum róið 55 róðra á þessari vertíð og meðal afli var 28 tonn á dag það var..meira en togararnir voru að fiska yfirleitt“
 
Þrátt fyrir að vera aflakóngur ár eftir ár fékk Theódór ekki úthlutaðan kvóta þegar kvótakerfið var sett á. Hann missti skip sitt þegar það strandaði 17. desember 1984.
 
„En það kom nýtt kvótatímabil 85 og þá átti ég engan bát og engan kvóta og hef engan kvóta átt síðan....reyndar engan bát heldur“
 
Hlutdeild Vestmanneyinga í heildarkvóta landsmanna hefur haldist nokkuð stöðug frá því kvótakerfið var sett á laggirnar. Frá árinu 1991 og til þessa árs, hafa á bilinu 8-13 prósent af heildarafla landsmanna í bolfiski verið veidd af skipum og bátum skráðum í Eyjum. Síðasta kvótaár voru fyrirtæki í Vestmannaeyjum með 9,9 prósent af heildarafla og núna 2010-2011 10,6 prósent. Þrátt fyrir það hefur íbúum í Eyjum fækkað. Þeir vour 4.926 árið 1990 en eru nú 4.142
 
Í Vestmannaeyjum voru mörg rótgróin útgerðar og fiskvinnslufyrirtæki sem segja má að séu hér ennþá. Þau sameinuðust og mynduðu tvo risa annar er Ísfélagið og hinn er Vinnslustöðin. Þessi tvö fyrirtæki eru með stóran hluta alls kvóta Vestmanneyinga og eru meðal stærstu útgerðarfyrirtækja á landinu. Einnig eru nokkur smærri útgerðarfyrirtæki og fiskvinnslur í Eyjum.
 
Og svo er fjölskyldufyrirtæki eins og Benoný Benónýsson og synir hans Jóhann og Benoný reka. Benoný er sonur Binna í gröf landsfrægs aflamanns. Útgerðin þeirra heitir Kæja og þeir eru með kvóta á bátnum Portland
 
„Þetta er nú ekki mikið þetta nær ekki áttatíu tonnum af þorski og eitthvað minna af öðrum tengundum bara svona til að átta sig hvað er lengi verið að veiða svoleiðis ... allan okkar kvóta getum við veitt á 4 - 5 mánuðum“
 
„Þetta hefur minnkað ár frá ári síðan aflaheimildirnar bara á öllum flotanum og nú er svo komið að það nægir ekki fyrir þennan bát sem við erum með núna sko“
 
Vestmanneyingar lönduðu tæplega tuttugu og tvö þúsund og þrjúhundruð tonnum af botnfiski kvótaárið 2009-2010. Af því fluttu þeir út rösklega fjórtánþúsund og þrjúhundruð tonn sem er um 64 prósent af öllum lönduðum botnfiskafla í eyjum.
 
Heildarútflutningur af óunnum ferskum botnfiski af öllu landinu sama ár var tæplega 34 þúsund og fjögurhundruð tonn. Útflutningur Vestmanneyinga á ferskum óunnum botnfiski er því 41 prósent af öllum útflutningi á landinu á síðasa kvótaári. Þetta má sjá í tölum Fiskistofu Íslands
 
Árið áður lönduðu Vestmanneyingar um tuttuguþúsund og sexhundruð tonnum og fluttu út tæplega sautján þúsund og tvöhundruð sem er 83 prósent af lönduðum afla í eyjunum kvótaárið 2008/2009
 
Hildur Zoega fiskvinnslukona hjá Ísfélaginu:
 
„Það á bara ekkert að leyfa það .. allur fiskur á að vinnast heima í sínu byggðalagi það er bara öllum til bóta“
 
Arnar Hjaltalín formaður Drífanda í Vestmannaeyjum:
 
„Núna er nóg vinna eins og er en það mætti vera meiri það er fullt af fyrirtækjum sem hafa nóg af fiski en önnur skortir fisk .hvaða fyrirtæki eru það sem skortir fisk . það eru litiu fiskvinnslunar sem hafa ekki nog vinnu fyrir sitt fólk alla daga en á meða eru sum útgerðarfyrirtæki sem senda .meiginhluta af aflanum út“
 
Benoný Benónýson segir að aflinn hafi verið fluttur á fiskmarkaði erlendis því þar hafi fengist betra verð fyrir hann þó svo það hafi kostað 600 þúsund krónur á hvern gám að flytja hann út.
 
„Veiðar og vinnsla er á sömu hendi og kannski skekkir það verðmyndunina aflanum á mörkuðum hérna - á meðan veiðar og vinnsla er á sömu hendi að þá er svoleiðis útgerð hún kannski getur haft áhrif á fiskverðið til sinna báta í samkeppni við aðrar vinnslur sem eiga ekki kvóta“
 
Binni í Vinnslustöðinni segir að með því að hafa veiðar, vinnslu og markaðssetningu á sömu hendi geti íslendingar sem þjóð fengið meiri tekjur af fiskinum. Hann geti t.d. tryggt kaupanda í Frakklandi ferskan fisk með tveggja mánaða fyrirvara.
 
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar (Binni):
 
„Ég ætla að halda því fram að þetta kerfi þjóni hagsmunum beggja það sé þannig að við sem tökum ábyrgðina á svona reglulegum viðskiptum og berum uppi þungan við erum svona stapil og erum þá kannski að þjóna meira - þegar brælur eru þegar haustið er þá koma einyrkjarnir inn og þeir selja þá fiskinn sinn ef við værum allir að selja á markaði þá fengju allir minna því þá væri markaðsverðið lægra“
 
Sigmar Sveinsson og Hallgrímur Rögnvaldsson reka útgerðina Kópavík og þeir eiga Hafursey sem er kvótalaus bátur. Þegar nægt framboð var af leigukvóta sáu þeir tækifæri skapast til að veiða ufsa í net.
 
„Fljótlega eftir að við keyptum bátinn þá sker Hafró niður ufsakvótann að mínu viti að tilefnislausu og annað líka ríkisstjórnin kemur með yfirlýsingar um að breyta kerfinu gera breytingar sem varð til þess að leiguframboð var .. nánast ekki neitt“
 
Von er á nýju frumvarpi um stjórn fiskveiða á næstu dögum. Margir eyjamenn töluðu um að óvissan um hvaða breytingar væru í vændum væri verst. Vegna hennar haldi fólk að sér höndum, þeir sem eiga kvóta vilji síður leigja hann frá sér af ótta við að það sem þeir leigi út verði tekið af þeim.
 
„Það verður að vera leigumarkaður hérna til þess að það eru margar útgerðir sem eru með mjög lítinn kvóta og þurfa að leigja til sín til þess að geta gert út lengri tíma ársins“
 
Eins og í öðrum sjávarbyggðum á Íslandi eiga þeir útgerðarmenn í Vestmanneyjum sem eru með lítinn eða engan kvóta erfitt uppdráttar.
 
Flestir virðast bjartsýnir á að risarnir tveir Ísfélagið og Vinnslustöðin verði áfram í eyjunum þó að aðkomumenn hafi reynt að kaupa Vinnslustöðina fyrir nokkrum árum. Þá óttuðust menn að kvótinn færi frá Vestmannaeyjum.
 
Benoný Benonýson: „Ég hef ekki unnið við annan en fiskveiðar alveg frá því ég var fjórtán ára gamall og synir mínir hafa verið í þessu frá því þeir byrjuðu að vinna ég ætla rétt að vona það við getum haldið því áfram“
 
tekið af ruv.is
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.