Langtímaskuldir ÍBV Íþróttafélags um 40 milljónir

Ræða Jóhanns Péturssonar á aðalfundi ÍBV Íþróttafélags

14.Mars'11 | 12:23
Í síðustu viku hélt ÍBV íþróttafélag aðalfund sinn en undir ÍBV Íþróttafélagi er rekin knattspyrna og handknattleikur í yngri flokkum og meistaraflokki ásamt því að félagið sér um þjóðhátíðina, Shellmótið, Pæjumótið og þréttandann.
Hér fyrir neðan má lesa ræðu Jóhanns Péturssonar formanns ÍBV Íþróttafélags frá því á aðalfundinum:

Ágætu félagar.
 
Hefðbundið starfsár ÍBV Íþróttafélags hófst með Þrettándagleði félagsins og tókst framkvæmd gleðinnar mjög vel. Að halda Þrettándann á helgi gefur góða raun og er sérstök ástæða til að þakka sérstaklega öllum þeim góða hópi sem leggur mikið að mörkunum til að hægt sé að gera Þrettándann að þeirri frábæru fjölskylduvænu skemmtun sem hann er, en sá hópur er á þriðja hundraðið sem þar kemur að málum. Þá er einnig rétt að þakka Vestmannaeyjabæ fyrir þeirra aðkomu og góðri samvinnu við ÍBV Íþróttafélag.
 
Íþróttastarfið hjá félaginu er mikið og blómlegt.
 
 
Handboltinn gekk í heild sinni ágætlega. Inni á vellinum léku meistaraflokkar félagsins í B deild. Ötullega er unnið að uppbyggingu innan handboltans bæði innan vallar sem og utan vallar. Á handknattleiksráð mikið hrós skilið fyrir gott starf. Meistaraflokkur karla lauk keppni í 3. sæti 1. deildar árið 2010 og féll úr leik í 16 liða úrslitum í hörkuleik gegn Fram. Meistaraflokkur kvenna lék í 2. deild og lauk leik í 3. sæti. Fór áfram í úrslitakeppni og tók að lokum sæti í N1 deild, efstu deild, og leikur þar í dag við góðan orðstír. Í bikarnum vann liðið Hauka í 16 liða úrslitum en mátti þola tap gegn stjörnuprýddu liði Vals sem fór reyndar í úrslitaleikinn.
 
Eins og áður sagði er lögð áhersla á uppbyggingu innan vallar sem utan hjá handboltanum. Ráðið vinnur mjög vel og er samhent í því að skila góðri afkomu og greiða niður skuldir. Það hefur reyndar gengið gríðarlega vel og er staðan nú, eftir að tekið hefur verið tillit til samnings á milli aðalstjórnar og deilda og deildin er orðin skuldlaus með öllu og á reyndar orðið inni hjá aðalstjórn. Kem ég að því máli betur á eftir í yfirferð yfir fjárhag félagsins í heild sinni.
 
Vetrarlok voru haldin í Höllinni og tókust mjög vel og skemmtu félagar sér þar hið besta. Handknattleiksfólk ársins var valið og urðu þau Guðbjörg Guðmannsdóttir og Sigurður Bragason fyrir valinu.Siggi og Guðbjörg voru valin best á vetrarlokunum
Sumarið hjá okkur í ÍBV var að venju mjög skemmtilegt og mikið um að vera. TM mótið fór að venju fram í júnímánuði. Hefur það mót sótt í sig veðrið ár frá ári frá því fyrirkomulagi þess var breytt og mótið sniðið að 5. fl. Kvenna. Stöðugt aukning hefur verið á mótið af liðum og nú í ár er engin undantekning en bókanir á mótið hafa aldrei verið fleiri. Mótið tókst vel í alla staði og skilar orðið jákvæðri afkomu til félagsins og tel ég borð fyrir báru hjá okkur að standa þannig að rekstri þess að afkoma þess ætti að aukast fyrir okkur um leið og við gerum mótið enn glæsilegra og betra. Lítum við ekki síst til Shellmótsins sem fyrirmyndar hvað þetta snertir.
 
Shellmóti hefur verið breytt nokkuð og stytt um einn dag. Það hefur gert það að verkum að enn meiri ásókn er í mótið og er það fullskipað liðum og komast færri að en vilja. Það er stefna okkar hjá ÍBV að bæði þessi tvö mót verði þau allra flottustu á landinu og verður ekki annað séð en það ætti að geta gengið eftir. Framkvæmd mótanna er öll hin glæsilegasta og vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem komu að vinnu og skipulagningu á TM og Shell mótum fyrir frábær og ómetanleg störf fyrir félagið.
 
Þjóðhátíðin er enn að þróast og verða enn betri og betri og hélt maður þó að það væri vart hægt. Hún tókst að sjálfsögðu gríðarlega vel á síðasta ári. Ég hygg að sú framkvæmd Þjóðhátíðar sem Eyjamenn og aðrir urðu vitni að sl. sumar hafi slegið á margar efasemdir og kvíðaraddir. Þær breytingar sem hafa orðið á henni s.s. stækkun tjaldsvæða heimamanna, endurbyggingu sjoppa, tilfærsla á stóra sviði sem og stórir sjónvarpsskjáir hafa allar sannað gildi sitt svo um munar. Nefna má að talverð aukning varð á sölu varnings í sjoppum sem skilar sér beint til meistaraflokkanna í auknum tekjum sem urðu talsverðar á síðustu Þjóðhátíð.
Þjóðhátíðarnefndin hefur starfað gríðarlega vel og á miklar þakkir skildar. Við erum að byggja upp í Dalnum. Það var mikil þörf á því og nú var talið að ekki væri lengur hægt að skorast þar undan. Á það verður einnig að líta að þær breytingar sem gerðar voru hafa þegar skilað auknum tekjum til félagsins s.s. við rekstur sjoppa eins og áður sagði og munar um minna.
 
Þessar breytingar eru óneitanlega kostnaðarsamar en það verður að líta til þess að það er erfitt að byggja í Dalnum nema að gera það almennilega. Kröfur Eyjamanna eru þannig að við verðum að vanda uppbyggingu í Dalnum. Við telum að nú sé borð fyrir báru, hátíðin aldrei vinsælli og skilar metafkomu ár eftir ár. Þá er mjög líklegt að þessi uppbygging muni skila auknum tekjum til framtíðar litið s.s. vegna tónleikahalds ofl. um leið og hún sparar talsvert fé og vinnu við uppsetningu mannvirkja. Við höfum lagt áherslu á það að stofna ekki til skulda vegna þessarar uppbyggingar og hefur það gengið eftir. Nú í sumar er stefnt að því að byggja sviðið sjálft og verður það hið glæsilegasta ef marka má teikningar, sem nú liggja fyrir, enda stendur til að byggja eftir þeim. Þjóðhátíðarnefnd hefur staðið fyrir kynningum á Þjóðhátíð og fyrirhuguðum framkvæmdum og hefur hún mælst mjög vel fyrir og slegið á ýmsa gagnrýni sem byggð var á ranghugmyndum um hátíðina og kostnað henni tengdri. Er það þörf áminning fyrir okkur að láta vita af því sem við erum að gera hjá félaginu enda tel ég það starf, sem hlutlaus aðili til mikils sóma fyrir okkur og Vestmannaeyjar.
 
 
Við verðum að sjálfsögðu að hlúa vel að Þjóðhátíðinni enda er hún okkar langmikilvægasta fjáröflun sem og einstök á allan hátt bæði fyrir okkur Eyjamenn sem og þá sem sækja okkur heim. Hún byggir á miklu sjálfboðaliðastarfsemi okkar manna og fyrir það ber ætíð að þakka enda væri Þjóðhátíðin ekki það sem hún er í dag ef slíkt starf sjálfboðaliða hefði ekki verið jafn mikið og ósérhlíft í gegnum árin.
 
Knattspyrnan sl. sumar var auðvitað bara frábær. Meistaraflokkur kvenna gat nánast ekki staðið sig betur. Urðu efstar í 1 deild og unnu sér sæti í Pepsideild á næsta sumri. Glæsislegur árangur. Í bikarnum var frammistaðan einnig mjög góð og duttu stelpurnar út í undanúrslitum eftir ósigur á móti Stjörnunni með einu marki. Frábært sumar hjá þeim enda staðið mjög vel að öllum rekstri deildarinnar og eiga ráð og þjálfari mikið hrós skilið. Liðið er ungt og ef áframhaldandi starf hjá deildinni verður með sama hætti og verið hefur þá er öruggt að liðið mun standa sig í þeirri erfiðu baráttu sem bíður meðal þeirra efstu.
 
Meistaraflokkur karla lék í efstu deild, Pepsi deild sl. sumar. Árangurinn frábær. Luku leik i 3 sæti aðeins tveimur stigum frá Íslandsmeisturum Breiðabliks. Tryggðu sér með þessum árangri þátttöku í Evrópukeppni í ár. Í bikarnum datt liðið út á móti KR og mátti þola 0-1 tap. Árangurinn aðvitað bara eins áður sagði stórglæsilegur. Deildin ágætlega rekin og mikið og gott starf þar unnið af ráði og þjálfara.
 
Sumarlok ÍBV voru haldin og fjölmenntu félagar þangað og skemmtu sér hið besta. Knattspyrnufólk ÍBV var valið Albert Sævarsson og Kolbrún Stefánsdóttir.
Þá á félagið fjölmarga iðkendur í landsliðshópum: Óskar Zoega, Þórarinn Valdimarsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Albert Sævarsson, Sigurður Grétar Benonýsson, Kristinn Skæringur Sigurjónsson, Tryggvi Guðmundsson, Tanja Rut Jónsdóttir, María Davis, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Svava Tara Ólafsdóttir, Sóley Guðmundsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Kristín Erna Sigurlásdóttir og Þórhildur Ólafsdóttir. Hjá handboltanum er einnig um fjölda leikmanna að ræða: Sigríður Lára Garðarsdóttir
Aðalheiður Pétursdóttir
Drífa Þorvaldsdóttir
Berglind Dúna Sigurðardóttir
Vignir Stefánsson
Tehódór Sigurbjörnsson
Dagur Arnarsson
Arna Þyrí Ólafsdóttir
Díana Magnúsdóttir
Erla Rós Sigmarsdóttir
Sandra Dís Sigurðardóttir
Sóley Haraldsdóttir
Guðmundur Tómas Sigfússon
 
Af þessum gríðarlega fjölda má vel sjá að starfsemi yngri flokka félagsins er með miklum blóma og virklega ánægjulegt að sjá allan þennan glæsilega hóp iðkenda hjá félaginu í landsliðum eða banka þar fast á dyrnar.
 
Fjárhagur félagsins er í ágætu lagi og skilar félagið góðum hagnaði vegna sl. árs. Þar er fyrst og fremst um að ræða hagnað aðalstjórnar og handknattleiksdeildar. Þá þarf að líta til þess að inní hagnaði aðalstjórnar er Þjóðhátíð en þar erum við að byggja í Dalnum og því mikilvægt að skila hagnaði. Við erum hins vegar að lækka langtímaskuldir úr 54 milljónum í 40 milljónir sem er gríðarlega gott. Skammtímaskuldir um áramót eru uppgreiddar þannig að skuldastaða félagsins nú er fyrst og fremst langtímaskuldirnar Langmestu munar að Þjóðhátíðin gekk mjög vel sem og voru meistaraflokkar réttum megin við núllið. Þegar að það gerist þá gengur rekstur félagsins vel og meiri peningar skila sér t.d. til yngri flokka. Þar aukum við t.d. við framlag til yngri flokka vegna ferðakostnaðar í 4 milljónir og teljum við okkur standa mjög vel þar að málum, bæði með rekstur bifreiða, lágum æfingagjöldum og framlag til flokka vegna ferðakostnaðar. Ég held að sú staðreynd hvað æfingagjöld eru lág hjá okkur sé oft vanmetið sem styrkur til yngri flokka og fjölskyldna þar á bak við. Ekki er óalgengt að sjá helmingi hærri æfingagjöld hjá öðrum félögum. Þá er einnig rétt að taka fram að við fáum ekki framlög frá bænum vegna æfingagjalda yngri flokka en í mörgum sveitarfélögum tíðkast slíkt. Góð afkoma félagsins skilar sér þannig mjög sterkt til yngri flokka með ýmsum hætti en auðvitað verður ÍBV eins og önnur félög að standa undir rekstrinum með öllu tiltækum ráðum.
 
Á árinu 2008 gerði ÍBV Íþróttafélag innanbúðarsamning þ.e. á milli aðalstjórnar annars vegar og meistaraflokka hins vegar. Samningur laut til þess að aðalstjórn myndi fella niður skuldir á meistaraflokka ef rekstur þeirra næstu þrjú árin væru réttu megin við núllið. Þetta hefur gengið eftir vegna áranna 2009 og 2010 því eru meistaraflokkar karla í knattspyrnu og handknattleiksráð að fá niðurfelldar um 8 milljónir hvor. Rétt er að taka það þó fram að við tókum við uppgjör karlaknattspyrnunnar tillit til þess að kostnaður fylgdi því að komast í Evrópukeppni og var hluti af þeim tekjum sem skilar sér á næsta ári tekjufærðar 2010. Við horfum því á uppgjör ráðsins eftir þetta ár og metum þá tvö ár í einu. Því skiptir það knattspyrnudeild karla mjög miklu máli að skila jákvæðri fjárhagslegri afkomu í sumar. Þá mun meistaraflokkur kvenna fá fjárframlög frá aðalstjórn skv. samningi. Þetta er mjög mikilvægur samningur fyrir allt félagið og um leið og þetta skilar miklu fyrir meistaraflokkana þá um leið verður staðan sú að meiri peningar fara í yngri flokka í stað tapreksturs deilda því það verður ávallt að hafa forgang að greiða skuldir, því miður.
 
Handboltinn er nú kominn í þá stöðu að vera orðinn skuldlaus með öllu. Ráðið hefur þar skilað miklum hagnaði undanfarin ár með þeirri niðurstöðu að aðalstjórn mun yfirtaka 10 milljóna króna lánið í Íslandsbanka sem og á handboltinn nú inní hjá aðalstjórn en ekki öfugt. Þetta er mjög ánægjuleg þróun og gerir það mjög mikilvægt fyrir ráðin að hafa fjárhagslega jákvæðan rekstur. Um leið verða til fjármunir sem nýtast í yngri flokka og allt annað starf félagsins og mun styrkja það mikið fjárhagslega sem og félagslega.
 
Það er von aðalstjórnar að áframhald geti orðið á þessum samningi þegar að honum lýkur á næsta ári. Það yrði þá með þeim hætti að greiðslur kæmu frá aðalstjórn til deilda fyrir góðan rekstur. Ekkert skal fullyrt um fjárhæðir en það hefur alltaf verið skoðun aðalstjórnar að peningar félagsins eigi að fara í íþróttareksturinn og best sé að þeir sem taka ákvarðanirnar ráðstafi fjármununum sjálfir. Þetta byggir að sjálfsögðu á því að Þjóðhátíðin haldi áfram á sömu braut og verið hefur sem og að deildir sýni ráðdeild og ábyrgð.
 
Eins og flestum mun án efa vera kunnugt um þá hefur risið hér á íþróttasvæði ÍBV Íþróttafélags glæsilegt fjölnota íþróttahús. Húsið hefur þegar sannað gildi sitt en þar iðka menn íþróttir af miklum móð og aldraðir taka sér gönguferðir þegar veður eru válynd. Húsið er hið glæsilegasta í alla staði og er óhætt að þakka Vestmannaeyjabæ enn og aftur fyrir myndarlegt framtak og framsýni. Húsið er fagurlega skreytt með merki félagsins og bæjarins auk Eimskips sem greiðir okkur fyrir auglýsinguna. Sú fjárhæð er u.þ.b. 25% af innheimtum félagsgjöldum en þeim höfum við stillt mjög í hóf eins og áður hefur verið rakið auk þess sem þau hafa alls ekki hækkað í samræmi við t.d. neysluverðsvísitölu á síðustu árum.
 
Vestmannaeyjabær hefur staðið myndarlega við bakið á ÍBV með ýmsu móti og eigum við í mjög góðu samstarfi við bæinn. Ég vil nota tækifærið og þakka bæjarstjórn fyrir mjög gott samstarf og veit að áframhald verður á því á ókomnum árum.
 
Framtíðin hjá okkur er björt. Landeyjahöfn er mikil bylting í samgöngum þó svo að það gefi aðeins á í augnablikinu þá stendur það án efa allt til bóta. Höfnin mun ekki aðeins breyta samgöngum hjá okkur í ÍBV heldur sýndi það sig í ágústmánuði sl. að Íslendingar aðrir sem og erlendir ferðamenn munu án efa fjölmenna hingað allt árið um kring. Þetta mun skila bæði ÍBV og öðrum aðilum hér í Eyjum auknum tekjum og hefur það þegar sýnt sig t.d. hvað varðar Sunnudagsinnrukkun í Dalinn.
Við lítum því björtum augum á framtíðina og ÍBV mun standa þar styrkum fótum. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum okkar frábæru sjálfboðaliðum fyrir þeirra ómetanlegu störf fyrir félagið okkar. Þá færi ég framkvæmdastjóra Tryggva Má og öllum starfsmönnum félagsins kærar þakkir fyrir mjög góð störf í oft vanþakklátu umhverfi.
 
Aðalstjórn félagsins færi ég mínar bestu þakkir fyrir mjög gott samstarf. Við höfum átt því láni að fagna að vinna mjög vel saman enda hafa allir að leiðarljósi heildarhagsmuni félagsins og það gerir allar ákvarðanatöku auðveldari. Aðalstjórn var þannig skipuð á síðasta ári.
 
 
Undirritaður var formaður
Páll Sceving Ingvarsson, varaformaður
Guðný Hrefna Einarsdóttir ritari
Þórunn Ingvarsdóttir meðstjórnandi
Guðjón Gunnsteinsson, meðstjórnandi
 
Varamenn:
Sigurður Smári Benónýsson, Sigurbergur Ármannsson
 
Takk fyrir.
 
Jóhann Pétursson
Formaður ÍBV íþróttafélags
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.