Aðgát skal höfð í nærveru sálar!

Páll Scheving skrifar

12.Mars'11 | 00:13
Ég get verið viðkvæmur. Ég hef líka ríkt ímyndunarafl og er ekki vel menntaður. Þetta getur verið slæmur kokteill. Það kom í ljós um daginn þegar fór með himinskautum umræða um mengun frá sorpbrennslustöðvum, þar á meðal stöðinni hér í Vestmannaeyjum. Ég tók þessa umræðu nærri mér og ímyndunaraflið fór á flug og gerði mig óttasleginn. Ég sá fyrir mér miklar og hræðilegar breytingar.
 
Bæjarbúa gangandi um dimmar götur með grímur eins og maður sá í öskufallinu í fyrra, sveinbörn fæddust með tillann á enninu og eitthvað sem líktist agúrku sprytti út úr vöngum starfsmanna sorpbrennslunnar. Þetta kostaði svefntruflanir og algerlega fyrirhafnar lausar hægðir. Máltækið segir að þegar neyðin sé stærst þá sé hjálpin næst. Hjálpin kom alls ekki úr óvæntri átt, sjónvarpið hefur stundum reddað mér. Mitt í þessari hrottalegu umræðu er ég að glápa á sjónvarpsþátt sem fjallaði að hluta um endurvinnslu. Í þessum sjónvarpsþætti var rætt við 57 ára gamla, fimm barna móður sem lifir á sorphaugum í Brasilíu, ásamt allri fjölskyldunni. Ég viðurkenni fúslega að ég hef séð hraustlegri konu, en hún bar sig samt nokkuð vel. Mér var bjargað. Ég fór beint inn í rúm, steinrotaðist og hóf þar með kraftasöfnun fyrir næsta áfall.
 
Öfgafull umræða er hættuleg. Sérstaklega fyrir fólk eins og mig, það lekur ekki úr eyrunum á mér fróðleikurinn. Ég veit ekki nákvæmlega hvað veldur því að sérfræðingar hafa tilhneigingu til þess að gera meira úr hlutunum. Kannski fá þeir athygli út það og líklega meiri vinnu. Mér hefur reyndar stundum dottið í hug að þetta sé smásjánni að kenna. Undir smsjánni verða nefnilega pínulitlar bakteríur að ógeðslegum skrímslum með stórar vígtennur. Þess vegna er ég viss um að það sé ekkert rosalega hollt að vera að glápa mikið í smásjá. Mönnum hlýtur að dauðbregða reglulega. Ég tek álíka stóran sveig fram hjá smásjá og unglingar taka frá ryksugum.
 
Þegar ég hafði náð mér af mesta mengunarþunglyndinu gekk ég fullur af orku með góðu fólki á Heimaklett. Þegar ég stóð á toppnum og andaði að mér fersku sjávarloftinu og virti fyrir mér umhverfið, stakk í augun eitthvað sem meir að segja ég og flestir aðrir skilja. Það var sjón mengunin víða um Eyjuna. Við gætum gert átak í því að taka til. Ekki síst þegar líklegt er að gestum muni fjölga verulega á næstunni. Við skulum laga þetta, það kostar ekki mikið meira en viljann.
 
Ég bið fólk að misskilja mig ekki, mér finnst mengun alls ekki góð eða réttlætanleg. Hins vegar eru nútíma lifnaðarhættir því miður skaðlegir umhverfinu. Þegar við ferðumst með bifreið þá mengum við umhverfið. Það er enginn saklaus. Ég veit ekki um neinn umhverfisráðherra sem ferðast um á hlaupahjóli. Sorpbrennslan okkar er ekki fullkomin, það vita margir, sérstaklega austurbæingar. Við þurfum að gera betur. Hefja frekari flokkun á sorpi og reyna að eyða því á þann hátt að sem minnst mengun hljótist af. Það er örugglega hægt að ráða bót á mesta vandanum án þess að kollvarpa fjárhag heimilanna í Eyjum. Leitum að þeirri lausn. En fyrir alla viðkvæma sem þarfnast huggunar minni ég á vinkonu mína í Brasilíu.
 
Páll Scheving Ingvarsson
Undirritaður er löggiltur vigtarmaður.
 
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.