Hönnun Landeyjahafnar miðaðist við allmiklu grunnskreiðara skip en ferjuna Herjólf sem nú er í notkun

Landeyjahöfn og Vestmannaeyjaferja

Greinargerð um efnisburð við Bakkafjöru tímabilið ágúst til nóvember 2010

4.Mars'11 | 06:58

Herjólfur

Ferjuhöfnin á Bakkafjöru, Landeyjahöfn, var tekin í notkun sumarið 2010. Bygging hennar hófst vorið 2009 og gekk prýðilega. Kostnaðar- og tímaáætlanir stóðust og vel það, því eins og nú horfir er útlit fyrir að heildarkostnaður við byggingu mannvirkjanna verði um 3,4 milljarðar, eða um 77% af framreiknaðri kostnaðaráætlun.
Hönnun Landeyjahafnar miðaðist við allmiklu grunnskreiðara skip en ferjuna Herjólf sem nú er í notkun. Ætlunin er að djúprista nýrrar Vestmannaeyjaferju verði 3,3 m, en Herjólfur ristir um 4,3 m og þarf í reynd um 1,5 m meira dýpi en það skip sem hönnun ferjuhafnarinnar miðaðist við,en dýpi þarf að vera ákveðið hlutfall af djúpristu skips. Sem kunnugt er hefur efnahagsástand verið með þeim hætti undanfarið að ekki hafa verið tök á að festa kaup á nýrri Vestmannaeyjaferju eins og áformað var þegar ráðist var í hafnargerðina. Staðan er því sú að notast er við skip sem ekki hentar til siglinga í ferjuhöfnina á Bakkafjöru.
 
Markmiðið með byggingu Landeyjahafnar var að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Athugun á líklegum áhrifum ferjuhafnarinnar á þróun byggðar og atvinnulífs á áhrifasvæði hennar, sem gerð var af Rannsóknastofnun Háskólans á Bifröst meðan á undirbúningi hafnargerðarinnar stóð, benti til mikilla jákvæðra áhrifa hennar á atvinnulíf, stjórnsýslu og lífsgæði. Fólks- og vöruflutningar um ferjuhöfnina síðsumars og fram á haust 2010 sýndu rækilega hve mikið hún bætir samgöngur milli lands og Eyja — þegar allt er með felldu — en á fyrstu 5 vikunum eftir að ferjuhöfnin var tekin í gagnið fóru um 70.000 manns um hana.
 
Vegna eldgoss í Eyjafjallajökli vorið 2010 bættist mikið magn jarðefna við það sem fyrir var í umhverfi Landeyjahafnar og raskaði jafnvægi strandarinnar. Með haustinu komu vandamál því tengd í ljós. Mikill efnisburður hefur orðið til þess að hvað eftir annað hefur grynnkað svo við höfnina að ekki hefur verið unnt að sigla Herjólfi þangað. Hér verður gerð grein fyrir orsökum þessa og þeim leiðum sem vænlegastar virðast til úrbóta.
 
Stöðugleiki strandarinnar og staðarval Landeyjahafnar
 
Landeyjahöfn var valinn staður þar sem ströndin nýtur skjóls frá Vestmannaeyjum. Þar er ölduhæð lægst og varið sem Eyjarnar veita hefur haft áhrif á mótun strandarinnar, m.a. þau að þar hefur myndast stöðug rás á sandrifið undan ströndinni. Meginforsenda við staðarval og hönnun Landeyjahafnar var að raska ekki því jafnvægi náttúrunnar sem þarna ríkir milli efnisburðar með ströndinni og gerðar og mótunar strandarinnar.
 
Undan ferjuhöfninni er sandrif í um 900 m fjarlægð frá fjörunni og hefur það myndast vegna samspils efnisburðar meðfram ströndinni og og öldu og sjávarfalla. Í grófum dráttum er unnt að lýsa þessu þannig að jarðefnin — sandurinn — færast með ströndinni líkt og á færibandi en alda og sjávarföll ganga þvert á færslustefnuna. Nokkuð af því efni sem þarna er á ferð staðnæmist því fyrir áhrif þessara þverstæðu krafta og myndar sandrifið.
 
 
 
Dýpi á sandrifinu er að jafnaði 2–4 m en sums staðar myndast á því rásir eða „hlið“ þar sem dýpi er meira. Skýringin er sú að sjórinn sem þrýstist upp að ströndinni undan afli öldunnar leitar undan og myndar farveg út í gegnum rifið þar sem minnst fyrirstaða er. Athuganir hafa sýnt að ein rásin er stöðug, en þær taka annars breytingum vegna áhrifa öldu og vinda. Þessi rás er þar sem ströndin er í mestu vari af Vestmannaeyjum. Þar er minnst fyrirstaða af áhrifum hinnar ríkjandi suðvestan-öldu og því leitar sjórinn sér ávallt farvegs þar. Í þessum farvegi er nægilegt dýpi til að unnt sé að halda skipum að ströndinni og þar var ferjuhöfninni valinn staður enda efnisburður meðfram ströndinni minnstur þar.
 
 
 
Staðsetning hafnarinnar, lega garðanna og hafnarmynnisins byggist á hefðbundinni hönnun hafna við sandstrendur sem allvíða er að finna, svo sem í Danmörku og Hollandi. Löng reynsla er fyrir gerð mannvirkja af þessu tagi og rekstri þeirra.
 
Nánar á sigling,is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.