Er að venjast veðrinu

segir Úgandamaðurinn Abel Dhaira markmaður ÍBV

2.Mars'11 | 10:12

Abel

,,Veðrið var ekki gott til að byrja með en ég er að venjast því og ég verð góður fyrir sumarið," sagði Abel Dhaira markvörður ÍBV í viðtali við Fótbolta.net á dögunum en hann hefur staðið vaktina í mörgum leikjum hjá Eyjamönnum á Fótbolta.net mótinu og Lengjubikarnum í vetur.
 
Þessi 23 ára gamli Úgandamaður kom til Íslands í fyrra og samdi við ÍBV en hann kom ekkert við sögu þá vegna meiðsla. Abel hefur núna jafnað sig af meiðslunum og hann hefur varið mark ÍBV í undanförnum leikjum.
 
,,Maður er að venjast innanhússvöllunum, þeir eru þungir og fæturnir á þér verða þungir á þeim en þú þarft að geta spilað bæði á grasi og gervigrasi svo mér er sama."
 
Abel fór 21 árs gamall frá Úganda til Tyrklands þar sem hann reyndi fyrir sér hjá úrvalsdeildarliðum þar í landi.
 
,,Ég fór á reynslu til Fenerbahce og síðan til Kayserispor. Tímasetningin var því miður slæm, þegar ég kom þangað (til Kayserispor) var landvistarleyfið útrunnið svo ég þurfti að fara aftur í gamla liðið mitt."
 
Abel segir að fótboltaumhverfið sé mjög ólíkt á Íslandi og í Tyrklandi.
 
,,Það er allt öðruvísi. Hér eru íbúarnir ekki margir en í Istanbul voru þeir rosalega margir. Leikmennirnir þar voru góðir en ég kann líka vel við þetta hér, þetta er mjög fínt."
 
,,Við getum án efa orðið meistarar:"
ÍBV hefur undanfarin ár fengið nokkra leikmenn til liðs við sig frá Úganda. Andrew Mwesigwa kom fyrst til félagsins árið 2006 og í kjölfarið fylgdi Augustine Nsumba. Tonny Mawejje kom síðan árið 2009 og hann er að hefja sitt þriðja tímabil með Eyjamönnum.
 
,,Ég er mjög ánægður að hafa Tonny hérna. Það er alltaf gott að hafa einhvern frá heimalandi þínu með þér. Við getum talað okkar tungumál stundum og skemmt okkur. Það er líka gott að eignast nýja vini í ÍBV og sérstaklega þjálfarann. Hann er góður vinur minn."
 
Eyjamenn enduðu í þriðja sæti í Pepsi-deildinni í fyrra og Abel er viss um að liðið mun standa sig vel í sumar.
 
,,Trúðu mér við munum gera það. Leikmennirnir eru að undirbúa sig núna og leggja hart að sér. Við verðum að biðja og hafa trú á sjálfum okkur," sagði Abel sem telur að ÍBV geti orðið Íslandsmeistari.
 
,,Við getum það án efa því við höfum það sem til þarf. Við þurfum að leggja hart að okkur, vera einbeittir og gera það sem þjálfarinn segir okkur að gera."
 
Abel er að berjast við hinn reynda Albert Sævarsson um markvarðarstöðuna og Úgandamaðurinn er bjartsýnn á að ná að festa sig í sessi í byrjunarliðinu fyrir sumarið.
 
,,Ég tel að ég geti verið í byrjunarliðinu en hann (Albert) er góður og hann er að kenna mér ný atriði í markvörslu. Hvert sem þú ferð þá færðu nýjar æfingar. Þær voru öðruvísi í Úganda og í Tyrklandi en þú verður betri eftir því sem þú lærir fleiri æfingar."
 
Albert tók tvær vítaspyrnur fyrir ÍBV í Pepsi-deildinni í fyrra. Eyjamenn hafa farið illa með vítaspyrnurnar í vetur og Abel segist vera til í að leika sama leik og Albert og fara á vítapunktinn.
 
,,Ég hef gaman að því að taka víti og ég er klár ef ég fæ tækifærið," sagði Abel glaður í bragði.
 
Hefur áhuga á að læra íslensku:
Abel er samningsbundinn ÍBV út árið 2012 og hann er opinn fyrir því að vera í Eyjum næstu árin.
 
,,Eins lengi og þeir vilja halda mér þá verð ég áfram en ef það kemur góður samningur skoðar maður það líka, maður veit aldrei. Ég hef verið meiddur en ég er að koma til baka og ÍBV er að hugsa vel um mig, ég vil þakka þeim fyrir."
 
,,Þetta snýst um að ná úrslitum fyrir félagið og maður verður að leggja hart að sér fyrir það. Ef félagið gefur þér tækifæri þá þarftu að sanna að þú sért góður," sagði Abel sem hefur mikinn áhuga á að læra íslensku.
 
,,Ég vil læra og ég vonast til að fá einhvern til að kenna mér. Ég kann að segja 'góðan daginn' og ég mun læra meira með tímanum. Ef einhver kennir mér þá hef ég áhuga á að læra íslensku," sagði þessi geðþekki markvörður að lokum.
 
Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=104931#ixzz1FR9ULYxh
 
 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).