Eiginkonur sjómanna

Jón Ríkharðsson bloggar

21.Febrúar'11 | 08:57
Í tilefni nýliðins konudags, verður mér hugsað til allra þeirra kvenna í aldanna rás, sem valið að stíga lífsdansinn með mönnum, sem eru sjaldan til staðar fyrir þær.
 
Ósjálfrátt hvarflar hugurinn til þeirra tíma, þegar menn sóttu sjóinn á litlum árabátum, þá var það ekki sjálfgefið að allir skiluðu sér lifandi til baka.
Konurnar stóðu í fjörunni og horfðu til hafs haldandi í hendur barna sinn, bíðandi milli vonar og ótta eftir því, hvort eiginmaðurinn hefði lifað af þennan róður. Stundum voru þær heppnar, en svo gat komið fyrir að ekkert sást til bátsins. Þær vissu þá hina hörðu og sáru staðreynd þess tíma, að nú voru þær orðnar ekkjur og þurftu að sjá einar fyrir sínum börnum.
 
Á þessum tíma þekktist enginn áfallahjálp, þær þurftu að bera sorgina oft einar, því börnin þurftu á styrk að halda og ekki þýddi að gefast upp. Þær gengu þá heim þungum skrefum með djúpa sorg í hjarta á sama tíma og þær hugguðu börnin og fullvissuðu þau um, að þetta myndi allt saman bjargast. Og með ótrúlegum styrk tókst þeim, að koma börnum sínum til manns og þær létu sér nægja, að gráta í koddann og syrgja látinn ástvin, eftir að börnin voru sofnuð, þær vildu vera til staðar og veita börnunum styrk í þeirra sorg. Þessar konur sýndu svo mikinn styrk, að oft sýndu þær engin merki sorgar, þótt við vitum, að hún hafi sannarlega verið til staðar.
 
Sem betur fer hafa tímarnir breyst og í dag komum við nær undantekningarlaust lifandi til hafnar, þökk sé aukinni fræðslu og betri skipum.
 
En sjómannskonan þarf eftir sem áður að sýna meiri styrk, en kynsystur hennar sem hafa sína eiginmenn hjá sér alla daga.
 
Sjómannskonan þarf að sinna sínu starfi á sama hátt og aðrar konur, einnig þurfa þær einar að sjá um allt sem snýr að heimilishaldi. Ef vandamál koma upp varðandi börnin, þá þýðir ekki að treysta á eiginmanninn sem er úti á ballarhafi að streða við gjaldeyrisöflun þjóð sinni til handa. Oft krefst það mikillar útsjónarsemi að halda utan um alla þessa hluti, borga reikninga, fara með bílinn í skoðun, smurningu osfrv.
 
Svo þegar eiginmaðurinn kemur loksins í land, þá bætist við einn enn, sem þarf að ala upp og siða.
 
Svo ég segi frá minni reynslu, þá erum við komnir að bryggju undir morgunn, stundum kl. þrjú, fjögur eða fimm. Þegar heim er komið, byrja ég oftast á að lesa blöðin og ergja mig yfir helvítis ruglinu í ríkisstjórninni, svo heyrist í vekjara gsm síma eiginkonunar, þá heilsa ég upp á hana og fer að vekja strákanna þrjá, sem gleðjast yfir því að ég sé nú loksins kominn heim. Ég lofa minni góðu konu því, enn einu sinni, að nú skuli strákarnir komnir í skólann á réttum tíma. Stundum er hún blessunin hálf svefndrukkin og utan við sig, þannig að hún treystir á mig, en það gerist nú sjaldan tvisvar sinnum í röð.
 
Við feðgar erum glaðir yfir að hittast og strákarnir segja mér allt sem á daga þeirra hefur drifið, við gleymum okkur í spjalli, meðan húsmóðirin stendur fyrir framan spegilinn og skerpir á sinni fegurð með hinum ýmsu efnum snyrtivöruframleiðenda. Svo er klukkan orðin átta og þá skammar hún mig og strákana fyrir kæruleysið, þeir eru orðnir of seinir í skólann.
 
Ég verð vitanlega fullur iðrunar og lofa bót og betrun, hún veit að ég meina vel, þannig að hún strýkur mér blíðlega um vanga og fullvissar mig um, að hún sé ekki lengur reið, ég er svolítið skömmustulegur, enda er ég bara fjórða barnið á þessu augnabliki.
 
Staðreyndin er nefnilega sú, að þegar menn eru að koma í land, oft eftir erfiða túra þar sem lítið er um svefn, stundum sefur maður lítið á síðustu frívaktinni því það er spenningur yfir að vera á heimleið. Þá er maður oft ansi þreyttur og vansvefta, þegar heim er komið. Allt í einu er maður kominn í allt annað umhverfi, enginn veltingur, ekkert vélarhljóð og þrjú börn sem berjast um athyglina. Það kemur fyrir, að stundum er búið að játa einhverju, sem móðirin hefur neitað þeim um, þannig að konan þarf að ræða við mig og strákana til þess að leiðrétta misskilninginn.
 
Þetta getur tekið á flestar konur og ekkert óeðlilegt að þær gefist upp. En sjómannskonur eru sannkallaðar hetjur. Þær þurfa að hafa til að bera mikið sjálfstæði, mikla þolinmæði og einstakan skilning. Sú kona sem heldur það út áratugum saman að búa með manni, sem sjaldan er heima og þurfa að umbera þreytu og pirring á þeim stundum sem hún þyrfti mest á honum að halda, hún á svo sannarlega mikinn heiður skilinn.
 
Þess vegna eru allir dagar hjá giftum sjómönnum Konudagar.
 
www.pressan.is
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%