Bílar skemmdust í sandfoki

8.Janúar'11 | 10:16
Bílar skemmdust á bílastæðinu við Landeyjahöfn í sandfoki í morgun. Rúða brotnaði í einum og var þykkt sandlag í honum þegar eigandinn kom úr Vestmannaeyjum í dag.
Eigandi bílsins, Ásmundur Þorkelsson fór með Herjólfi til Vestmannaeyja með síðustu ferð í gærkvöldi. „Það var allt fullbókað þannig að ég þurfti að skilja bílinn eftir í landi, á bílastæði sem til þess er ætlað,“ segir hann.
 
Hann var látinn vita um það í hádeginu í dag að bíllinn væri stórskemmdur. „Þegar ég náði í bílinn voru einhverjir tugir kílóa af sandi inni í honum og lakkið ónýtt á helmingi bílsins. Ein rúða var brotin og hinar sandblásnar. Speglarnir eru brotnir. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig bíllinn er farinn að öðru leyti,“ segir Ásmundur.
 
Hann hefur kynnt sér lauslega kostnað við viðgerðir og telur að hann hlaupi á hundruðum þúsunda. Tryggingar bæta ekki tjón á ökutækjum vegna foks á jarðefnum.
 
Margir bílar voru á bílastæðinu í morgun. Ásmundur taldi að margir þeirra væru eitthvað skemmdir vegna sandfoksins, þótt hans bíll hefði farið verst.
 
Sigmar Jónsson, starfsmaður Eimskips við Landeyjahöfn, segir að mjög hvasst hafi verið í morgun, frá klukkan átta og framundir hádegi. Sandur hafi fokið yfir hafnarsvæðið.
 
Hann sagði að nokkrir bílanna á stæðinu hefðu skemmst , væru mattir og sandblásnir, en sagðist ekki hafa athugað gaumgæfilega hversu margir.
 
Þetta er í fyrsta skipti sem bílar skemmast vegna sandroks við Landeyjahöfn, eftir því sem næst verður komist. Sigmar segir að áður hafi aðeins skafið en aldrei í líkingu við það sem starfsfólkið varð vitni að í gærmorgun.
 
Skilti er við innkomuna á bílastæðin þar sem varað er við hættu á sandfoki. Ásmundur segist ekki hafa tekið eftir skiltinu. Sigmar tekur undir það að vara megi betur við þessari hættu.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.