Án fæðingar Guðs sonar og þeirrar guðsbirtingar sem í hátíðinni felst, væru engar gjafir.

Jólahugvekja séra Kristjáns Björnssonar á eyjar.net

25.Desember'10 | 19:20
„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn!“
 Í fallegum þýskum aðventusálmi segir í þýðingu dr. Sigurbjörns Einarssonar, biskups:
 „Hér leggur skip að landi,
sem langt af öllum ber.“
 
Sú líking um skipakomu átti sérstaklega vel við inni í Friðarhöfn á lokaspretti aðventunnar, sjálfan aðfangadagsmorgunn, þegar fjölmargir Eyjamenn fögnuðu því innilega er nýtt skip bættist í flota Vestmannaeyinga og Þórunn Sveinsdóttir VE 401 lagðist að bryggju. Þórunn Sveinsdóttir VE kemur meira að segja frá nágrannalöndum aðventusálmsins góða: „Hér leggur skip að landi.“ Við óskum útgerð, áhöfn, fjölskyldum þeirra og öllum sem að skipinu standa og Eyjamönnum öllum, hjartanlega til hamingju með nýtt skip og þessi eftirminnilegu tímamót á jólum.
 
Í aðventusálminum er vikið að glæsileika skipsins en mest beri þó um farminn. Það er af því að þar í aðventuskipinu, er um borð sjálfur sonur Guðs. Og hann er að koma til manna.
 
„En mest ber þó um farminn,
sem fluttur með því er.
 
Þar kemur sæll af sævi
Guðs son með dýran auð.
Síns föður náð og frelsi,
hans frið og lífsins brauð.“
 
Þarna er vísað til þess hvað felst í komu Guðs sonar, komu hins heilaga aðventuskips, komu jólanna.
Hvað boða blessuð jólin? Víst er að þau koma og þau gengu víða hvít og fögur í garð í ár. Þannig hefur það oftast verið í íslensku hátíðartali okkar kristnu þjóðmenningar frá öndverðu til okkar daga. Um hver jól er farmur þeirra borinn inn í hús og hýbýli mannanna. Um hver jól er við þeim tekið víðast. Jólin leggja að bryggju og þar eru nær undantekningarlaust eftirvæntingarfullar og fúsar hendur að taka við tauginni í land og tryggja við polla öruggar festar. Hver jól bindum við festar við boðskap hátíðarinnar og um hver jól bindur Guðs sonur festar við sálirnar okkar, sem bíðum í eftirvæntingu eftir snertingu hans.

Svona eru pakkar um innihald jólanna alltaf á leið í höfn og í fang þess er við þeim vill taka, en það er einmitt þess vegna sem á alla merkimiðana er skifað til og frá. Þeir eru frá einhverjum og til einhvers. Og yndi jólanna felst meðal annars í því að báðir eru jafn sælir, sá er gefur og sá er þiggur gjöf. Það er hin gagnkvæma jólagleði. En hún hefur einnig þriðju víddina. Í litlum orðaleik má spyrja til hvers gjafirnar eru, sem við opnum þegar aftansöngnum í kirkjunni er lokið og ylminum úr eldhúsinu hefur verið svarað af fullri einurð með hátíðarmáltíðinni. Klukkurnar hafa þegar hringt inn jólin hér í upphafi aftansöngsins og við spyrjum hér inni eitt augnablik til hvers gjafirnar eru. Til hvers er farmurinn sem borinn er með aðventuskipinu, hinn dýri auður Guðs sonar? Svörin eru orðuð á marga vegu en á vissan hátt líka öll á eina lund.

Gjöfin er auðvitað til þess gefin að hún gleðji og verði til fagnaðar. En hún er líka gjöf sem er skýrt tákn um hina stóru gjöf Hins hæsta Guðs til allra manna – allt niður til hins minnsta barns. Þar kemur líka tengingin við jólabarnið og allt þetta yndislega barnslæga þema jólahátíðarinnar. Það vísar ekki aðeins á Jesúbarnið heldur líka til þess minnsta barns er hann hefur komið til að vitja. Hér er líka vísað til hirðarinnar með einn kónginn klára, Jesú Krist, höfuð kirkju sinnar. Með því er þá einnig vísað til þess að hann er kominn til allra manna, allra stétta. Hann er kominn á jafnan hátt í kot og konungshallir, einsog segir í jólasálminum. Hann tekur á móti öllum mönnum, háum og lágum, af því að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því hver hann er og hvar hann er sjálfur í virðingarstiganum. Hann tekur á móti öllum mönnum jafn opnum armi náðar og friðar og blessunar. Það er undirstrikað með sögunum af þeim er fyrstir heyrðu hinn gleðilega boðskap jólanna og komu til að veita hinum nýfædda konungi lotningu. Þar komu hirðarnir fyrstir, fátækastir allra fátækra og þar komu næstir konunglegir hirðmenn og vitringar frá nokkrum af mestu heimsveldum mannkynssögunnar. Þeir komu líka að veita hinum nýfædda lotningu.
 
Allir leggjast á eitt og falla fram á kné sín til að opna þessa dýrustu gjöf sem gefin er. Þannig skiljum við hvernig Jesú er á bak við hvern pakka og hverja jólagjöf. Hver gjöf er gjöf hans til þín og mín af því að þær eru kenndar við jólin hans. Án fæðingar Guðs sonar og þeirrar guðsbirtingar sem í hátíðinni felst, væru engar gjafir. Til þess er gjöfin að vísa. Allar gjafir eru því frá honum þótt það standi ekki á merkimiðanum, kannski af því að það þarf ekki að skrifa það sem allir vita innst inni. En til þess eru jólin haldin hátíðleg og efnt til íhugunar á guðsþjónustum og í hugvekjum um allar sveitir, að draga það fram sem allir vita innst inni eða þrá innst inni að vita. Á leiðinni þangað inn að innsta inni hverrar sálar hittum við fyrir náð og frelsi, uppgjör og fögnuð en að endingu friðinn. Það er þar inni sem friðurinn minn hittir friðinn þinn og þeir saman, friðurinn minn og friðurinn þinn, hitta fyrir friðinn hans Jesú. Og þar sem í innsta inni býr sakleysi hvers manns er þar líka barnið í hverjum og einum og þar er þá líka Jesúbarnið sjálft. Þar með hafa sjálfin jarmað sig saman að einu miði – undir merki friðarins.

Enginn atburður hefur orðið til að breyta svo algerlega aðstæðum manna frá því að vera undir ógn og skelfingu grimmdar valdsins á hendi Heródusar undir hælum Ágústusar og allra annarra blóðstorkinna hermannastígvéla. Við Guðsbirtínguna í Jesúbarninu í Betlehem – að Guð kom í heiminn og fæddist maður – urðu hin algjöru skil sem við fögnum með því að halda jól. Með fæðingu Guðs sonar komst ekki aðeins á kyrrð um stund, heldur urðu með því umskipti í sögu og stöðu mannkyns. Líka hvað varðar okkar samtíð og framtíð.
 
Gefi þessi djúpi skilningur á friðsæld jólanna, á helgum jólum, frið og gleði í ykkar hjörtum, kæru lesendur. Gefi friðarins Guð, frið um alla jörð, frið á byggðu bóli. Helgi sá jólafriður heimilin á þann hátt að við mætum Jesú Kristi á hátíðinni. Þá erum við í öruggri höfn – heimahöfn Drottins. Höldum jólin vakin og sofin í ljósi jólaguðspjallsins, mett af hans náð, glöð í frækilegri sigurför lífsins.

Lýsi Eyjar litafjör
lyftist von um bólin,
yfir mæðu, eymdar kjör,
yndi breiði jólin.
 
 
Þegar sorgir þyngja spor,
þá skal ljóma bærinn,
efli jólin ást og þor
aukist vonar blærinn.
 
 
Glæði hátíð heilög trú
hjarta kærleik fylli
flæði gleði blessi bú
bjarta ljósið gylli.
 
séra Kristján Björnsson
 
 
 
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.