Geimveran Unglabes staðfestir

Vestmannaeyjar, bestu jól í heimi!

Fimmtudagsþruma frá Tryggva Hjaltasyni

16.Desember'10 | 07:53
Ég er farinn að finna lyktina af jólunum, finnur þú hana? Ég hef ekki verið á Íslandi yfir vetrartímann í 5 ár. En allt frá árinu 2005 hef ég verið í Bandaríkjunum og aðeins komið heim yfir jólin og farið svo aftur út. Kuldinn og myrkrið sem hellist nú yfir eru þess vegna sveipuð hátíðarljóma fyrir mig og ég opinbera það hér með að ég hef verið í jólaskapi síðan í október, bakaði meira að segja 6falda smákökuuppskrift um daginn í miðjum prófalestri sem tók um átta tíma og lauk ekki fyrr en klukkan 3 að nóttu.
Ég er alveg gríðarlega mikið jólabarn eins og það er kallað og ég held svei mér þá að það sé bara hvergi betra að eiga jól en á Íslandi. Við höfum fleiri jólasveina en aðrar þjóðir, við höfum fleiri jóladaga, jólaljósin njóta sín betur hér enda stöðugt myrkur yfir þennan tíma og norðurljósin brjóta ekkert stemninguna í þeirri deild, til að bæta svo við þetta eru Íslendingar mikil áramótaþjóð og við höfum auka hátíð sem kallast Þréttándinn (hátíð sem ég komst að því að hljómar mjög djöfullega þegar henni er lýst á ensku fyrir útlendinga). Þessi óformlega niðurstaða mín að bestu jól í heimi sé að finna á Íslandi þrýstir þess vegna mjög fljótlega annarri spurningu að: „ef bestu jól í heimi eru á Íslandi, hvar á Íslandi eru þá bestu jólin?“ . Öll vísindi segja mér að það sé í Vestmannaeyjum sem bestu jól í veröldinni er að finna enda eru þar hressustu Íslendingarnir og einangruð eyja jólastemning þannig að ekkert af jólastemningunni sem myndast á eyjunni er sóað í auðar uppsveitir eða mikla fjallgarða. Til að stimpla þessa berorðu jólayfirlýsingu inn læt ég hér fylgja með jólasögu, njótið vel kæru lesendur:
 
 
 
Unglabes skoðar jólin í Vestmannaeyjum
 
Geimfarinn Unglabes var kappi mikill, hafði sigrað margar geimorrustur og átti landskika vítt og breytt í stjörnuþokunni. Unglabes hafði heyrt alla leið til Ramadus plánetunnar af hátíð ljóssins á bláu plánetunni. Unglabes ákvað að kanna þetta enda mjög hrifinn af ljósi. Unglabesi var sagt að hátíð ljóssins væri einstaklega falleg á lítilli eyju í Norður Atlantshafi. Unglabes lenti xorglogg skipi sínu á sparkvellinum á Barnaskólalóð 24. desember klukkan 17:21.
 
 
Eyjan var gullfalleg, Unglabes var ekki svikinn. Hvít köld korn þöktu eyjuna og falleg marglituð ljós gáfu frá sér hlýlega birtu í myrkrinu sem var byrjað að leggjast yfir.
 
 
Unglabes fór beint í ósýnilegan ham og byrjaði að ferðast um eyjuna. Hann hóf ferð sína með því að svífa í gegnum kirkjugarðinn, þar voru nokkrar vel klæddar mannverur að kveikja eld við einhverskonar minnismerki. Unglabes fann hlýju og umhyggju koma frá þeim, enda mjög næmur á allar bylgjur sem hvers kyns lífverur senda frá sér og gerði það Unglabes að einum besta stríðsmanni vetrarbrautarinnar. En hann var ekki kominn hingað í slíkum tilgangi. Unglabes hélt áfram för sinni og fór inn á heimili á Túngötunni. Unglabes fagnaði hlýjunni sem mætti honum og lyktinni sem fyllti vit hans, „VÁ“ hugsaði hann með sér „hvað er þetta eiginlega?“ Unglabes fann enn og aftur fyrir mikilli umhyggju streyma frá fólkinu og þó örlítið minni en hann hafði fundið í garðinum, hér var meira um gleði. Unglabes var strax farið að lítast vel á þetta stopp sitt og fannst 36878298387282938 mílna löng ferðin til eyjunnar þegar hafa borgað sig.
 
 
 Unglabes heyrði skrýtin hljóm byrja að slá taktfast og heyrði hann fögru húsfreyjuna segja að klukkan væri að slá sex! Unglabes ákvað að hann vildi skoða inn í fleiri heimili og rauk upp í himinn, þar sem hann staldraði við á meðan hann virti fyrir sér gullfallegu eyjuna sem skein eins og perla í hafinu í köldu logninu. Unglabes staldraði við á toppi Heimakletts og reif einn fótinn af kind sem gekk framhjá, enda fann hann ekki fyrir hlýju eða umhyggju frá kindinni, bara biturð og öfund, „eyjan er fallegri en skærasta stjarna„ hugsaði hann. Unglabes fór á fleygiferð niður að bænum og beint inn í hús á Illugagötu þar sem hann hafnaði inn í stofu með 5 manna fjölskyldu. Eftir að hafa fylgst með þeim borða mat og opna gjafir tók hann eftir því hvað allir í húsinu geisluðu af sér annaðhvort, gleði, frið, eftirvæntingu, eða kærleika, mismunandi eftir aldri þó. Unglabes hugsaði með sér að þessi hátíð ljóssins væri eitt það allra besta sem hann hefði fundið í sólkerfinu.
 
 
 Unglabes tók up ikona handsettið sitt og hringdi í Ladda félaga sinn og sagði „fögnum sigri ljóssins“
 
 
 Það sem Unglabes vissi þó ekki var að í 23. grýlna fjarlægð var rotaderp erkióvinur hans að fylgjast með honum!
 
 
 Kveðja ...og sem betur fer, síðasta þruma ársins sem verður skrifuð í Reykjavík
 
 
 Tryggvi, sem íhugar hvort hann eigi að skrifa næstu þrumu, ekki um miðja nótt, finnst þessi líta eitthvað skringilega út
 
 
 ATH: það má vera að það komi aldrei framhald af þessari sögu
 
 
 
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.