Desember í Vestmannaeyjum

Fimmtudagsþruman frá Tryggva Hjaltasyni

2.Desember'10 | 00:01
Fögru forréttindi – risa snjókall, sleðaslys, ást sem blómstrar, reiðir unglingar og meiðsli!
Uppáhaldsmánuður höfundar er runninn í garð, desember! Desember í Vestmannaeyjum er forréttinda tími og staður. Fullt af jólaljósum og norðurljósum, fólk að komast í hátíðarskapið, kökur í hverju húsi, þegar það kemur snjór getur maður farið að renna og svona mætti áfram telja. Margir af merkum viðburðum í lífi höfundar áttu sér stað einmitt um desember í Vestmannaeyjum.
 
 
17 ára kyssti ég í fyrsta sinn stúlkuna sem varð svo eiginkona mín 7. desember 2003.
 
Í desember 2003 lenti ég líka í fyrsta alvöru sleðaslysinu mínu þegar það var verið að draga mig á snjósleða á eftir jeppa sem fór svo of hratt í beygju á bakvið Helgafellið með þeim afleiðingum að ég flaug út af veginum lenti á höfðinu ofan í skurði og flaug þaðan yfir grindverk. Sönn saga, og þar sem ég hef afplánað mína refsingu fyrir þennan atburð (við fengum sekt) get ég opinberað hann hér með hreina samvisku.
 
Það var í desember árið 2004 sem byggður var stærsti snjókall Vestmannaeyja á miðri götu niður í bæ. En þar sem enginn hefur afplánað refsingu fyrir þann viðburð þá er ég ekki viss hver byggði snjókallinn!
 
Það var í desember sem byggður var risastökkpallur í bústaðarbrekkunni sem var svo öflugur að einn okkar handabrotnaði og ég, ásamt öðrum vankaðist.
 
Það var í desember sem við byggðum svo öflugt snjóhús að hægt var að týna hvor öðrum inn í því (kann að vera hóflega ýkt frásögn).
 
Það var í desember þegar ég vaknaði og sá snjó út um gluggann og var svo ánægður að ég fór út á svalir og hoppaði fram af til þess að uppgötva að snjólagið reyndist aðeins vera ökkladjúpt og var mér launað stökkið með góðri ökklatognun. Þetta kann að hljóma sem slæm þróun, en ég og fleiri höfum skemmt okkur svo oft yfir þessari sögu síðan að hún telst með í jákvæða bunkanum í dag.
 
Það var í desember sem ég uppgötvaði að það er hægt að skjóta rakettum ofan í vatn og rakettuskot urðu aldrei söm.
 
 
Það var í desember 1998 sem ég kastaði fyrst snjóbolta í reiðan unglingahóp þegar ég var 12 ára og var hundeltur allt kvöldið og fékk að upplifa fjörið í því að hræðast um líf sitt.
 
Það var í desember sem við uppgötvuðum að upp við brekkuna fyrir aftan bókasafnið við Hvítingjaveginn safnast alltaf mikið lag af snjó þannig að hægt er að taka tilhlaup á Hvítingjavegi og hoppa fram af brekkunni í átt að bókasafninu og fá silkimjúka lendingu en ná samt fullt af loft tíma!
 
Þetta er aðeins brot af desember minningum í Vestmannaeyjum, en eins og glögglega kemur í ljós í skrifunum hér að ofan þá er desember mánuður ævintýra og gals.
Já og við erum ekki einu sinni enn kominn að jólunum í þessum frásögnum. Fimmtudagsþruman er búin að bíða spennt eftir desember og jólunum og hvetur lesendur til að missa ekki af einni einustu þrumu í þessum uppáhaldsmánuði Íslands!
 
Desember kveðja
 
Tryggvi
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.