Framtíð Vestmannaeyja

Fimmtudagsþruman frá Tryggva Hjaltasyni

10.Nóvember'10 | 22:47
Morgundagurinn er þeirra sem undirbúa sig fyrir hann í dag!
 Eins og komið hefur fram í þessum skrifum mínum þá þykir mér mjög vænt um Vestmannaeyjar og ég finn ekki bara til þakklætis til eyjanna sem ólu mig heldur einnig ábyrgðar gagnvart þeim.
 
Ég vil að Vestmannaeyjar haldi sérstöðu sinni áfram og um ókominn aldur og þá sérstaklega þættir eins og samheldni eyjamanna, öflugt hagkerfi, góð lífsskilyrði og ótrúleg náttúrufegurð, einnig finnst mér ákveðin einangrun alltaf heillandi, ég vil t.d. ekki göng eða brú, vegna þess að þá yrði Heimaey minni HEIMAey. Allir þessir þættir eiga það sameiginlegt að það er ekki hægt að ganga að þeim sem vísum. Vissulega væri með lélegri stjórnun og framkomu hægt að eyðileggja ofangreinda þætti á svo litlu sem tíu árum eða svo, jafnvel minna með smá metnaði!
 
 
 
Ég hugsa mikið um framtíðina þó ég einbeiti mér að því að lifa í nútíðinni og njóta hennar, og veit ég að Vestmannaeyjar koma alltaf til með að verða stór hluti af minni framtíð. Þess vegna hef ég líka velt ákveðnum möguleikum fyrir mér varðandi framtíð Vestmannaeyja, en ég held að eyjarnar hafi mikla möguleika til framtíðar. Eftirfarandi eru nokkrar hugdettur sem hafa oft verið í deiglunni varðandi Vestmannaeyjar og langaði mig aðeins að fara yfir mögulegt gildi þeirra fyrir samfélagið:
 
Vestmannaeyjar verða háskólasamfélag. Þessa hugmynd hef ég lengi íhugað og meira að segja kannað lauslega hversu fýsilegt þetta er. Helsta niðurstaðan var sú að þetta er vissulega gerlegt en kæmi alltaf til með að standa og falla með fjárfestum og þá að öllum líkindum ríkinu. En ég vil frekar velta fyrir mér hvaða áhrif þetta kæmi til með að hafa.
o Gott: Fleiri Íslendingar myndu að öllum líkindum leggja leið sína til Vestmannaeyja og slík stofnun yrði vissulega innspýting í hagkerfið og e.t.v. bæta menntun á eyjunni.
o Slæmt: Flestir myndu einungis koma hingað tímabundið og mikið gegnumrennsli yrði sem gæti skapað hættu á því að skaða sögulegu samheldni og „allir þekkja alla“ fýlingin sem eyjarnar eru svo frægar fyrir. Svo held ég að flestir Vestmannaeyingar vilji innst inni ekki hafa OF marga á eyjunni, stór háskóli gæti fjölgað í bæjarfélaginu um 1-2 þúsund manns sem einhverjum þætti e.t.v. fullmikið af því góða, en aðrir myndu vissulega sjá það sem kost.
• Vestmannaeyjar verða sjálfstæðar. Ævagamla hugmyndin um sjálfstæði Vestmannaeyja er alltaf mis aðlaðandi. Í dag held ég að flestir Vestmannaeyingar eru sammála um það að hugmyndin hljómi vel og lauslegar athuganir hafa leitt í ljós að þetta er alls ekkert fráleit hugmynd. Helsta vandamálið yrði að sjálfsögðu alltaf að tryggja veiðilögsögu og yrði þá líklegast höfðað til veiðiréttar en allar líkur eru á því að íslenska ríkið yrði ekki of hrifið né samstarfsfúst nema það væri að horfa upp á að fá eitthvað í staðin. Það eru ákveðnar hugmyndir uppi um hvað væri hægt að veita ríkinu í staðin, misgóðar og mis....löglegar! Ef Ísland t.d. gengur í Evrópusambandið held ég að það sé öruggt að flestir Vestmannaeyingar muni alvarlega vilja skoða það að gerast sjálfstæð. Þá væri hægt að bjóða hér upp á t.d. fríríki eða skattaparadís fyrir meginlandið, hér væri hægt að fella niður tolla og svona mætti áfram telja. Slíkt samstarf gæti hentað báðum aðilum mjög vel. Þá yrði allt þetta ferli að sjálfsögðu alltaf að vinna í nánu samstarfi við íslenska ríkið og þetta yrði í raun aldrei eins fullkomin aðskilnaður og hjá öðrum þjóðum, Vestmannaeyingar myndu líklegast flestir a.m.k. til að byrja með líta á sig sem Íslendinga einnig.
o Kostir: Vestmannaeyjar myndu STÓR-græða á aðskilnaði, það hafa flestir útreikningar til þessa sýnt enda borga eyjarnar margfalda upphæð í þjóðarbúið miðað við hvað þær fá tilbaka. Þá væri hægt að setja lög og annað sem myndi henta eyjunni betur.
o Gallar: hætta er á a.m.k. til að byrja með að Vestmannaeyingar yrðu mjög upp á gjöful fiskimið komnir og slæmt fiskiár gæti þýtt mjög slæmt lífsskilyrða ár, úr slíkri hættu mætti þó draga með því að gera efnahaginn fjölbreyttari. Hætta er einnig á að sjálfstæðis tilraun eyjaskeggja myndi leggjast illa í meginlandið og svona tilraun kemur ekki til greina nema í sátt a.m.k. ekki algjörri ósátt.
• Vestmannaeyjar verða sjálfbærar. Þessi hugmynd hefur ekki verið mikið í deiglunni líklegast vegna þess að hún væri virkilega erfið í framkvæmd. En með aukinni tækni og ákveðinni útsjónarsemi er hún alveg möguleg, svona a.m.k. á blaði. Hvað þarf samfélag í kjarnann til að lifa af? Það þarf orku, mat, vatn og hinar ýmsu hrávörur. Í kjarnann erum við þess vegna ekkert mjög langt frá þessu markmiði. Vestmannaeyjar hafa öfluga fæðu uppsprettu sem er hafið og regnvatni má safna í vatnsbirgðir en aukin tækni gerir slíkt mögulegra þ.e.a.s. til geymslu og endingar. Þá er það orkan sem er helsta vandamálið og kemur þarna aukin tækni aftur til skjalanna. Hægt er að nýta sjávarföll og strauma, vindorku og meira að segja jarðhita. Með nógu stórri fjárfestingu væri jafnvel hægt að gera þetta mögulegt. Svo með því að setja upp hænsnabú, fjölga kindunum í úteyjunum og henda upp einu beljubýli eða svo, væru eyjamenn langleiðina komnir með að sjá sér sjálfir fyrir fjölbreyttu mataræði.
o Kostir: Vestmannaeyjar væru ekki upp á aðra komna og myndu hlutir eins og einangrun, heimsviðburðir (eins og hækkandi olíuverð) eða pólitískur þrýstingur ekki ógna eyjunni á sama hátt.
o Gallar: Það yrði alltaf kostnaðarsamara að gera þetta heldur en að nota frjálsan markað til að útvega okkur þessa hluti.
 
Þetta eru þrjár hugmyndir sem oft hafa skotið upp höfðinu í umræðum eyjaskeggja um framtíðina. Ég veit það sjálfur að enginn þessa þátta kemur til með að hafa nein úrslitaáhrif á tilveru eyjanna í framtíðinni, en þeir gætu þó vissulega breytt Vestmannaeyjum á dramatískan hátt. Sjálfur vona ég að kjarninn sem ég minntist á hér að ofan haldist óbreyttur og þá erum við alltaf bara að bæta plúsum eða mínusum sem munu ekki hafa úrslitaáhrif á eyjuna í safnið. Hversdagsleiki Vestmannaeyja þarf að vera sá að eyjamenn standa saman á sínu og eru samheldin eining með svipuð markmið, þá munu utanaðkomandi illa þenkjandi öfl bíta lítið á eyjuna.
 
Farsæl Framtíðareyjakveðja
 
Tryggvi
 
 
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).