Inga Lind Karlsdóttir skrifar

Til efasemdarmannanna

6.Nóvember'10 | 09:22

Inga Lind

Höktandi um á hækjunum mínum um bæinn undanfarna daga, hef ég öðru hvoru rekist á fólk sem líst illa á stjórnlagaþingið og kosningarnar til þess. Þykir mér það miður.
 
Við ykkur, sem hafið einnig efasemdir um stjórnlagaþingið, og eruð jafnvel svo neikvæð út í það að þið ætlið ekki einu sinni að mæta á kjörstað, vil ég segja þetta:
Vel má færa rök fyrir því að það sé veikleikamerki af hálfu meirihluta Alþingis að láta aðra sjá um endurskoðun stjórnarskrárinnar en þingmennina sjálfa. Fólk kýs annað fólk til setu á Alþingi og treystir því fyrir mikilvægum málefnum sem snerta alla þjóðina.
 
Ég gef mér að þetta sé helsta ástæðan fyrir neikvæðni út í stjórnlagaþingið. Og sú afstaða er vel skiljanleg.
 
Eins gætu sumir haft litla trú á þessu þingi af því að Alþingi sé svo ómögulegt og það sé, jú, sama þjóðin sem kýs fulltrúa á bæði þingin og þess vegna verði þetta þing líka ómögulegt.
 
Enn aðrir eru þeirrar skoðunar að það séu tómir “kverúlantar” sem bjóða sig fram til stjórnlagaþingsins og þess vegna sé nú engin ástæða til að mæta á kjörstað.
 
 
Ólíkar áherslur frambjóðenda
Hvernig sem við lítum á þetta, er bláköld staðreynd að það er búið að ákveða að halda þetta þing og nú þegar hefur miklum fjármunum verið varið í það. Því verður ekki breytt. 522 manneskjur bjóða sig fram, og eru margar hverjar með uppbrettar ermarnar, til í tuskið. Sumir eru jafnvel enn hásir og með harðsperrur eftir að hafa barið tunnur og mótmælt fullum hálsi síðustu mánuði. Aðrir eru öllu rólegri í tíðinni en tilbúnir að fórna tíma sínum og orku í að sitja yfir tillögum að breytingum á stjórnarskránni, tillögum sem koma m.a. frá 1000 manna þjóðfundi, og gera það af vandvirki og yfirvegun. Enn aðrir vilja bara alls ekki breyta stjórnarskránni og ætla að reyna að standa vörð um hana á þinginu.
 
Varla eru allir vitleysingar
Það er alveg sama hvað okkur finnst um þennan gjörning, eftir sem áður er það í valdi almennings að velja inn á þetta þing fólk sem hæfast telst til starfans. Þeir sem hunsa það að mæta á kjörstað, geta að vísu alltaf sagt að þessu tóku þeir svo sannarlega ekki þátt í, verði þingið illa skipað og órólegt. En þeir gætu þá líka séð eftir því að hafa ekki farið á kjörstað og kosið þá sem líklegri voru til góðra vinnubragða – því af 522 manneskjum, hlýtur að vera a.m.k. ein manneskja sem kjósandanum hugnast, og jafnvel nógu margar til að gjörnýta kjörseðilinn.
 
Við verðum að hafa trú hvert á öðru núna. Gleymum því ekki að að baki hverjum einasta frambjóðanda eru 30-50 meðmælendur eða eitthvað á bilinu 15-25 þúsund manns. Varla eru þetta allt tómir vitleysingar.
 
Það er ekki í mínum verkahring að spá fyrir um hvernig þetta verður allt saman. Hver veit nema þetta lukkist ágætlega og Alþingi fái upp í hendurnar fyrirtaks frumvarp að stjórnarskrá sem sátt næst um. En líkurnar á að það takist ekki, aukast með hverjum einasta hugsandi manni sem ákveður að mæta ekki á kjörstað.
 
Inga Lind Karlsdóttir
8749
www.ingalind.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.