Landeyjahöfn

Hermann Guðjónsson skrifar:

19.Október'10 | 17:04

Bakkafjara

Sem kunnugt er hafa nokkrar tafir orðið á að Landeyjahöfn verði sú stöðuga samgöngubót sem henni er ætlað að verða, en ástæður þeirrar seinkunar má einkum rekja til náttúruhamfara sem urðu í Eyjafjallajökli í vor. Í þessari grein er ætlunin að skýra frá tildrögum hafnaframkvæmda í Bakkafjöru og þeim vísindalegu forsendum sem lágu til grundvallar.
Upphaf
Lengi voru uppi hugmyndir um að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar og um síðustu aldamót efldust umræður um vænlegar leiðir þar um. Auk hafnar á Bakkafjöru var m.a. rætt um smíði nýrrar háhraðaferju eða jafnvel svifnökkva, breytingar á Herjólfi svo hann yrði hraðskreiðari eða vegtengingu milli lands og Eyja með jarðgöngum. Árið 2000 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um rannsóknir Siglingastofnunar á möguleikum þess að koma upp ferjuaðstöðu á Bakkafjöru og starfshópur sem þáverandi samgönguráðherra skipaði árið 2002 lagði einnig á það mikla áherslu í niðurstöðum sínum. Um svipað leyti hafði safnast nægjanleg þekking og tæknikunnátta til að raunhæfar lausnir á hafnargerð á þessum stað yrðu að veruleika og næstu árin voru rannsóknir um ferjuhöfnina stundaðar af kappi.
 
Aðstæður
Við gerð annarra hafnarmannvirkja á suðurströndinni s.s. í Þorlákshöfn, Grindavík og Höfn í Hornafirði hafði innan Siglingastofnunar áunnist þekking sem nýttist vel í hinu nýja verkefni. Aðstæður á Bakkafjöru eru þó sérlega erfiðar og hafnleysið engin tilviljun, því svæðið liggur fyrir opnu Atlantshafinu þar sem þungar öldur lemja ströndina og sandur, sem berst fram jökulfljótin flyst í miklu magni meðfram strandlengjunni. Við byggingu mannvirkja á sandströnd skiptir efnismagnið í fjörunni sköpum, en það er mjög undir tíðafari komið. Við suðurströnd landsins er ölduorkan með því mesta sem þekkist í veröldinni og röskun á venjulegu jafnvægi getur haft umtalsverð áhrif á mannvirki. Slíkt er vel þekkt og sást t.d. glöggt við Hornafjarðarós veturinn 1989-90 þegar óvenjulegt veður um skamma hríð fyllti ósinn af sandi svo hann var um tíma ekki skipgengur.
 
Rannsóknir
Spurningin sem svara þurfti var einfaldlega: Hvar og hvernig á að byggja höfn sem stenst þennan sandburð og ölduáraun?
 
Frá upphafi var mikil áhersla lögð á samstarf við fjölda fólks og stofnana innanlands og utan, svo niðurstöður rannsókna yrðu sem raunhæfastar. Eftir margra ára þróunarvinnu við verkefnið Veður og sjólag, sem er mikilvægur gagnagrunnur sjófarenda, lágu fyrir óvenju nákvæm öldugögn sem nýttust vel við val á heppilegri staðsetningu. Auk þeirra voru tekin botnsýni víða við ströndina, sett út öldudufl, reglulega gerðar sérstakar dýptarmælingar og ítarlegar tilraunir framkvæmdar í líkanstöð Siglingastofnunar. Loftmyndir af svæðinu allt frá árinu 1954 voru notaðar og sýndu hvar ströndin hefur tekið minnstum breytingum en slíkt er góð vísbending fyrir höfn sem ætlað er að standa í um eina öld. Viðtöl voru tekin við reynda sjómenn og gerðir flóknir útreikningar um öldufar, strauma sem flytja efni, botnbreytingar og efnisburð, en á hinu síðastnefnda var takmörkuð en farsæl reynsla hér á landi. Leitað var til sérfræðinga innanlands og utan, einkum í Danmörku, þar sem mikil þekking er á sandhöfnum og efnisburði.
 
Við útreikninga á bestu staðsetningu og hafnargerð voru notuð reiknilíkön dönsku straumfræðistofunnar Danmarks Hydraulisk Institut og lagðar til grundvallar nokkrar sviðsmyndir: Settar upp hugsanlegar ítrustu aðstæður m.v. þekkt öldufar á svæðinu og efnisburður með ákveðnum tímamörkum fundinn út. Má geta þess að útreikningur af þessu tagi er svo viðamikið verk að það tekur öflugustu tölvur hinnar sérhæfðu straumfræðistofu nánast rauntíma að ljúka útreikningi á hverri sviðsmynd. Loks var óháð dönsk verkfræðistofa, COWI, fengin til að yfirfara útreikninga DHI, Siglingastofnunar og annarra innlendra og erlendra aðila og var niðurstaða hennar sú að rannsóknirnar uppfylltu allar alþjóðlegar viðmiðanir.
 
Rétti staðurinn
Allar rannsóknir styrktu sömu niðurstöðu. Þær sýndu að ölduhæðin við suðurströndina er lægst undan Bakkafjöru, því í ríkjandi suðvestanölduáttum er ströndin í vari af Vestmannaeyjum. Við náttúrulegt jafnvægi liggur sandrif meðfram allri suðurströndinni milli Þjórsár og Markarfljóts, um kílómetra undan Bakkafjöru og á því brotna háar öldur og lækka mjög. Jafnframt leitar sjórinn út þar sem skjólsins nýtur og myndar hlið í sandrifið og þar reyndist efnisburðurinn einnig minnstur. Að samanlögðu skýrir þetta hversvegna ströndin hefur undanfarna hálfa öld tekið minnstum breytingum einmitt á þessum stað.
 
Frávik í náttúru
Í niðurstöðum rannsókna var frá upphafi gert ráð fyrir því að efnisburðurinn fyrsta árið eftir byggingu brimvarnargarðanna yrði háður því efnismagni sem til staðar væri í fjörunni. Hluti þess gæti borist inn í höfnina og umfang dýpkunar fyrstu árin myndi verða í réttu hlutfalli þar til jafnvægi næðist. Sumarið 2009, þegar framkvæmdir við hafnargerðina hófust, voru öll skilyrði undan Bakkafjöru eins og í venjulegu árferði. Haustið og veturinn eftir breyttust þau þannig að austan ölduáttir urðu ríkjandi í stað venjulegra úr vestri og suðvestri. Aðstæður urðu þó fyrst afar sérstakar þegar gosefnin úr Eyjafjallajökli bættust við þessar óvenju þrálátu ölduáttir með framburði Markarfljóts. Skyndilega var margfalt efnismagn í fjörunni miðað við eðlilegt ástand og tilviljun réði því að aðeins fáeinum vikum síðar var Landeyjahöfn tekin í notkun. Skýr mynd af afleiðingum þessa samspils gosefnis og austan ölduátta kom í ljós við heildardýptarmælingu í ágústmánuði og fóru stuttu síðar að valda vandræðum við siglingar Herjólfs inn í höfnina.
 
Jafnvægi næst
Þótt birtingarmyndir náttúrunnar spanni vítt svið þá sýna áratuga vísindaleg gögn að oftast nær er staða hennar innan vissra marka og telst þá venjulegt ástand eða í jafnvægi. Eitt meginmarkmiðið við framkvæmdina var að hönnun og gerð Landeyjahafnar yrði í sátt við náttúruna og ynni ekki gegn henni. Þótt eldgos og óvenjulegar ölduáttir langtímum saman séu þekktar breytur, þá eru þau fyrirbæri ekki reglulegir gestir og koma almennt með mjög löngu millibili. Jafnvel árhundruða hvað eldgos varðar. Samspil þessara tveggja þátta á opnunarári Landeyjahafnar hefur valdið tímabundnum töfum en vísindalegar forsendur og innlend og erlend reynsla benda til að náttúran muni ná fyrra jafnvægi á tiltölulega skömmum tíma. Fengist hefur leyfi stjórnvalda til að bjóða út umtalsverða dýpkun í vetur svo nýta megi siglingaleiðina sem best þennan tíma og hressilegar vetrarlægðir með suðvestan öldugangi eru einnig líklegar til að hreinsa sand og gosefni úr innsiglingunni.
 
Kostnaður
Í samgönguáætlun fyrir árin 2007-10 var gert ráð fyrir að Landeyjahöfn myndi kosta 3,3 milljarða króna sem framreiknaðir til verðlags dagsins í dag eru tæpir 4,8 milljarðar. Raunkostnaður við byggingu hafnarinnar reyndist hinsvegar 70% af kostnaðaráætlun og stendur því í u.þ.b. sömu krónutölu og gert var ráð fyrir árið 2006. Vel er hægt að færa rök fyrir því að áður ófyrirséðar dýpkunarframkvæmdir í vetur rúmist innan stofnkostnaðar við hafnargerðina.
 
Landeyjahöfn framtíðarinnar
Á rannsóknarstigi Landeyjahafnar lagði Rannsóknarstofnun Háskólans á Bifröst mat á áhrif hafnarinnar á þróun byggðar í Vestmannaeyjum og í landi. Niðurstöður voru helstar að miklar breytingar yrðu á samskiptum við fastalandið, ferðatími myndi styttast verulega og ferðakostnaður lækka. Ýmsir innviðir styrktust, bjartsýni myndi aukast og veruleg sóknarfæri sköpuðust á sviði atvinnuvega, einkum ferðaþjónustu. Fyrstu vikurnar eftir að höfnin var tekin í notkun bentu til þess að síst hafi verið um ofmat að ræða, farþegafjöldi í Herjólfi fyrstu 5 vikurnar var um 70 þúsund manns. Ekkert bendir til annars en að sú töf sem orðið hefur í Landeyjahöfn sé tímabundið ástand. Þegar náttúran hefur náð fyrra jafnvægi muni höfnin þjóna um langa framtíð, Eyjamönnum og öðrum Íslendingum til mikilla hagsbóta.
 
Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri
 
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.