Þrumaðu þér í gírinn

Fimmtudagsþruman frá Tryggva Hjaltasyni

13.Október'10 | 22:42
Hversdagsleikinn brotinn upp
 
Ég hef aldrei verið í vandræðum með að finna mér eitthvað að gera og hefur þvert á móti verið vandamál hjá mér að ég get ekki gert allt það sem ég vil gera
 
Ef ég fengi að ráða þá hefði ég miklu meiri tíma til að gera allt það sem ég vildi og myndi ná mér í 10 háskólagráður, verða keppnisfær í amk 6-7 íþróttagreinum, geta stundað af ákafa svona 15 áhugamál og svona mætti áfram telja. En það kemur fyrir hjá mér eins og flestum þrátt fyrir mitt víða áhugasvið að ég dett inn á dauðan tíma, að ég hef 2-3 klst að drepa og stundum jafnvel heilan dag og þá er gott að vera með einhverja vara aðgerðaráætlun.
 
 
Það eru mörg ár síðan ég fór að sanka að mér hugmyndum og pælingum um hvað ég ætti að gera þegar ég fengi frítíma eins og þrumu úr heiðskíru lofti og það eru ófá skjöl í tölvunni minni sem heita eitthvað eins og „to do list“ eða „hlutir til að gera þegar mér leiðist“. Sumt á þessum listum er alveg rosalega metnaðarfullt og uppbyggjandi eins og „taka 1000 armbeygjur“ eða „læra þetta lag á gítar“ eða „byrja að spila á trommur“ ég fann meira að segja á einum listanum „læra að komast framhjá öryggisveggjum“ mér til ómældrar skemmtunar.
 
En ég veit að langflestir lesendur lenda í því að leiðast af og til og ég veit líka að mörgum sem leiðist vilja ekkert frekar en að finna sér eitthvað skemmtilegt sem hægt er að gera með stuttum fyrirvara og krefst ekki of mikils aga eða fyrirhafnar. Þess vegna verður Fimmtudagsþruman í dag:
 
Hversdagsbrjótarinn – Listi af fjöri sem mun gera vikuna þína ótrúlega skemmtilega og óhversdagslega:
 
Setjum okkur það takmark að til að standa sig vel eigi maður að gera 50% af þessum lista áður en maður les Fimmtudagsþrumu næstu viku og til að fá fullt hús á að sjálfsögðu að stefna á að klára allt á listanum i vikunni (ath: gæti krafist mikils frítíma og komið í veg fyrir að maður sinni sínu daglega lífi almennilega) en hvað er líka metnaður án þess að hann komi með verðmiða?
 
1. Farðu í sjómann, helst við einhvern sem þú munt ekki auðveldlega geta unnið
2. Farðu með vatnshelt tölvuúr í bað eða sund og gáðu hvað þú getur haldið niðri í þér andanum lengi
3. Taktu göngutúr í kringum húsið þitt, eða ef þú ert metnaðarfull/ur í kringum hverfið þitt og labbaðu eins og vélmenni myndi labba
4. Ef þú getur útvegað þér stækkunargler prófaðu þá að brenna hluti með því að láta sólina skína í gegn, þetta virkar í alvörunni og er mjög skemmtilegt.
5. Skoraðu á félaga þinn í skutlukeppni og sá sem getur búið til skutlu sem flýgur lengra fær pulsu í tvistinum frá taparanum.
6. Farðu á íþróttaæfingu helst í einhverju sem þú hefur aldrei prófað, þetta getur verið fótbolti, handbolti, sund, frjálsíþróttaæfing, fimleikar, tímar í Hressó, hvað sem er, nóg er í boði og þetta er mjög skemmtilegt. Ég hef reglulega gert þetta og stundum meira að segja endað á að æfa íþróttina í einhvern lengri tíma.
7. Settu status á Facebook sem er mjög skrýtin og hugsanlega vandræðalegur og þú mátt ekki útskýra hann né afsaka seinna.
8. Farðu í heimsókn til einhvers (þú ert hugrakkari því minna sem þú þekkir viðkomandi) og taktu til og vaskaðu upp, farðu svo heim til þín.
9. Ef það kemur rigning farðu út og leggstu á grasflöt og stattu ekki upp fyrr en þú ert blaut/ur í gegn
10. Taktu skák við einhvern
11. Spilaðu gamlan Nintendo leik t.d. hér.
12. Farðu í kirkju og íhugaðu það sem presturinn segir í predikuninni
13. Farðu út með pappakassa, taktu hann í sundur og renndu þér niður grasbrekku á pappakassanum
14. Segðu við einhvern algerlega ókunnugan „mér finnst þú mjög myndarleg/ur“ sá hinn sami þarf að trúa þessu, þetta er gert til að láta öðrum líða vel (í raun virkar hvaða hrós sem er).
15. Sendu einhverjum sem þú hefur ekki talað við lengi (lágmark 1 ár) vefpóst og segðu honum frá því hvað þú ert að gera og endaðu á að segja brandara.
16. Settu 1000kr í umslag og settu miða með sem segir „eyddu þessu í sjálfan þig“ og berðu út í eitthvað hús sem þú veist ekki hver á heima í.
17. Semdu ljóð og biddu um að fá að hengja það upp í íþróttamiðstöðinni í eina viku. Settu nafn þitt og dagsetningu neðst.
18. Ég er ekki alveg viss hvort ég eigi að setja þennan punkt inn enda mun einhver fá styttri endan á spýtunni eins og maður segir ef nr. 18 verður framkvæmt, en þar sem þetta er mjög fyndið fyrir hina þá ákvað ég að henda þessu inn: kaupið lágmark 100 pappa/plastglös og þegar einhver sem þig langar að hressa við er farinn að sofa fyllið þá öll glösin af vatni og byrjið hjá rúminu hans (við hurðina ef hann/hún sefur laust) og raðið glösunum nógu þétt þannig að ekki sé hægt að labba fram hjá þeim alveg fram að útidyrahurðinni. *ATH* Fimmtudagsþruman tekur ekki ábyrgð á afleiðingum þessa hrekks og firrar sig hér með ábyrgð, ef þú ert nógu mikill óþokki til að gera þetta við einhvern sem þú þekkir þá er það á þína ábyrgð!
19. Tilraunabakstur: settu það sem þér finnst gott í hrærivélina og bakaðu afraksturinn útkoman er stundum furðu vel heppnuð.
20. Finndu einhvern sem þú þekkir sem á byssu og farðu með honum að skjóta, þú getur t.d. skotið bangsa og fjarstýrða bíla. Mundu bara að taka upp eftir þig og ekki gera þetta í fjölbýli!
 
 
Ég leyfi mér að fullyrða að ef allir lesendur þessa þrumu muni klára þennan lista í vikunni að þá verður Vestmannaeyjabær mjög athyglisverður staður að búa á, jafnvel enn athyglisverðari en hann þegar er!
 
Þetta er áskorun vikunnar!
 
Kappakveðja
Tryggvi
 
e.s. höfundur mælir með að listinn sé prentaður út og svo sé útstrikunaraðferðin notuð til að ekki gleymist hvað sé á listanum.
 

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.