600 manns mótmæla í Vestmannaeyjum

8.Október'10 | 17:33
Mótmælunum í Vestmannaeyjum er að ljúka við Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Áætlað er að um 600 manns hafi komið saman á Stakkagerðistúni (Stakkó) núna í dag klukkan 16:30 að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði á landsbyggðinni. Mótmælin voru friðsamleg, flutt voru ávörp og haldið að Heilbrigðistofnun Vestmannaeyja þar sem var myndaður hringur utan um H.V.
 
Ávarp bæjarstjóra Vestmannaeyja var svohljóðandi: 
 
Ágætu Eyjamenn, mér hlýnar um hjartarætur að sjá hversu mörg okkar erum hér saman komin. Ástæðan er enda ærin.
 
 
Nú árið 2010 stöndum við Eyjamenn frammi fyrir ógn. Þetta er ekki ógn eins og við erum vön. Þetta er ekki hættan á aflabresti. Þetta er ekki hættan á því að válynd veður grandi fiskibátum okkar. Þetta er ekki hættan á því að eldgos eyði hér byggð. Nei! Þetta er hættan á því að ríkisvaldið leggi hér niður þá heilbrigðisþjónustu sem við þurfum. Þetta er hættan á því að borgarmiðuð stjórnvöld skapi hér bráða hættu. Þetta er hættan á því að sú kreppa sem búin var til á höfuðborgarsvæðinu verði greidd af okkur sem ekki tókum þátt í gengdarlausum dansi um gullkálfinn.
 
Við höfum séð verk núverandi ríkisstjórnar í ólíkum gráum litum. Við höfum séð grunn atvinnuveg okkar settan í uppnám með boðun fyrningaleiðar. Við höfum séð umsókn um aðild að ESB í andstöðu við vilja þings og þjóðar. Við höfum séð hugmyndir um að hér verði lögð niður sýslumannsembætti, embætti skattstjóra, embætti tollstjóra og fleira. Nú stöndum við svo frammi fyrir hugmyndum sem aldrei mega verða að veruleika. Hugmyndum sem leiða hættu yfir börnin okkar. Hugmyndir sem setja alla öldrunarþjónustu í Vestmannaeyjum í uppnám og hugmyndir sem svifta vestmannaeyskum mæðrum réttinum til að fæða sín börn hér í heimahögum.
 
 
Þið vitið öll mína pólitíska liti. Ég ætla ekki að standa hér frammi fyrir ykkur og þykjast hlutlaus. Ég ætla heldur ekki að halda því fram að sá flokkur sem ég hef lagt lag mitt við eigi ekki þátt í því ástandi sem nú ríkir. Það var í tíð þess flokks sem ríkisútgjöld voru þanin út. Það vorum við sem létum það viðgangast að góðærisgeðveiki var leidd inn í fjárlög ríkisins. En það er ekki það sem skiptir máli í dag. Það sem nú skiptir máli er að við Íslendingar rifjum það upp að við erum rúmlega 300.000 manna fiskveiðiþjóð og högum okkur eftir því. 300.000 manna fiskveiðiþjóð getur verið stolt og keik. Hún getur rekið fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Hún getur boðið þegnum sínum upp á góðar samgöngur og tryggt þeim hverskonar öryggi.
 
 
Hún getur hinsvegar ekki byggt fáheyrðar glanshallir í Reykjavík sem kosta um 30 milljarða með glerhjúpi sem kostar um 3500 milljónir. Hún getur ekki látið bjóða sér fjárlög þar sem söfn, listir og fl. kosta rúmlegar 5000 milljónir, fornleifanefnd sem kostar um 84 milljónir, rekstur ríkisrekins fjölmiðils sem kostar um 3000 milljónir, listamannalaun sem kosta um 409 milljónir, Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis sem kostar rúmlega 300 milljónir.
 
Mig langar að lesa fyrir okkur orðrétt upp úr fjárlögum næsta árs. Fjárlögum sem boða endalok þeirrar heilbrigðisþjónustu sem við nú þekkjum í Vestmannaeyjum og skattpíningu á launþega.
 
 
„Listamannalaunum sem úthlutað hefur verið sem starfslaunum verður fjölgað á þriggja ára tímabili um alls 400 þannig að á árinu 2012 verði samtals 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna nú. „
 
 
Ég get líka frætt ykkur á því að starfslaun listamanna nema 266.737 kr. á mánuði á verðlagi fjárlaga 2009.
 
 
Ég veit vel að þetta eru ekki stærstu tölurnar í fjárlögum en þessir liðir eru ótrúlega margir. Nú skyldi heldur enginn skilja mig þannig að ég telji þetta ekki göfug og góð verkefni. Ég ber virðingu fyrir fólki sem starfar við þessa liði bæði listamönnum og öðrum. Ef ég þarf hinsvegar að velja um heilbrigðisþjónustu fyrir börnin mín eða framlög til þjóðleikhúss upp á 707,8 millj eða Sinfóníuhljómsveitar fyrir 655,6 millj. þá er valið auðvelt. Ef börnin mín lenda í alvarlegum slysum og sjúkravél er í órafjarlægð þá spila ég hvorki fyrir þau Chopen né fer með þau á Kardimommubæinn. Nei, ég fer með þau niður á sjúkrahús og ég krefst þess að þar fái þau þjónustu.
 
 
Vandinn sem ríkisstjórn stendur frammi fyrir er gríðalegur. Hann er uppsafnaður og niðurstaða þess að þjóðin missti sjónar á sjálfri sér. Hún gekk út úr eigin veruleika og inn í fáránleika annarra. Nú er mál að linni. Vanmátta ríkisstjórn á að fara frá tafarlaust. Ríkisstjórn sem ræðst á landsbyggðina með því offorsi sem sem við nú verðum vitni að getur aldrei haft umboð okkar til að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir. Ríkisstjórn sem enn ber ekki skynbragð á að hér býr 300.000 manna fiskveiðiþjóð sem vill grunnþjónustu á borð við menntun, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og samgöngur á að finna sér eitthvað annað að gera en að vinna fjárlög. Hún á að fara í endnlegt orlof.
 
 
Ég mótmæli aðför að atvinnulífi okkar
 
 
Ég mótmæli lokun á heilbrigðisþjónustu
 
 
Ég mótmæli vanmátta alþingi
 
 
Ég mótmæli vanhæfri ríkisstjórn
 
 
Stöndum saman um velferð Vestmannaeyja. Látum einskis ófreistað í að verja hér þau gæði sem við höfum sjálf byggt upp í árhundruð. Lifi Vestmannaeyjar.
 
 

Fjölskylda óskar eftir gistiaðstöðu á Þjóðhátíð

13.Júní'19

Fjögurra manna fjölskylda með djúpar Eyjarætur óskar eftir gistiaðstöðu frá fimmtudegi til mánudags á Þjóðhátíð. Um er að ræða hjón með tvö ung börn. Nánari upplýsingar hjá Þórlindi í síma 822 8968.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is